Ham­borg­ar­tréð - saga sam­fé­lags­breyt­inga og þakk­læt­is

Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
29. nóvember 2023

Þann 14. desember 1965 birtist frétt í Tímanum þar sem spurt var „Hver fær 12 metra hátt jólatré frá Hamborg?“ Í fréttinni sagði að „blöð og útvarp í Hamborg hafi ákveðið að senda Reykvíkingum risastórt jólatré að gjöf“ úr nærsveitum Hamborgar. Aðalviðfangsefni fréttarinnar var þó fyrst og fremst það að vegna misskilnings eða tungumálaerfiðleika virtist óljóst hvort Reykjavíkurborg eða Reykjavíkurhöfn ætti að fá tréð.

Fljótlega skýrðist þó málið. Þann 21. desember kom tréð til landsins og fylgdi sögunni að það væri samband fréttaritara í Hamborg sem væri gefandinn. Prófessor Samhaber, forsvarsmaður sambandsins, fylgdi trénu þetta fyrsta ár og sagði á fréttamannafundi tréð þakklætisvott vegna hinna miklu samskipta Hamborgar og Reykjavíkur. Ætlunin var að það gæti orðið sjómönnum augnayndi við Reykjavíkurhöfn.

Þakklæti fyrir fiskisúpu á erfiðum tímum

Ef til vill voru málefni seinni heimsstyrjaldarinnar enn viðkvæmt umræðuefni því það voru ekki bara mikil viðskipti og tíðar samgöngur milli tveggja hafna sem lágu að baki, ólíkt því sem lesa mátti úr fyrstu fréttum af Hamborgartrénu.

Fyrstu árin eftir lok síðari heimsstyrjaldar var örbirgð og atvinnuleysi í Þýskalandi. Þegar erlend skip lögðu að höfn í Hamborg safnaðist fólk saman við höfnina. Íslenskir sjómenn sem sigldu með fisk til Hamborgar höfðu þann sið að gera mikið magn fiskisúpu fyrir þau svöngu og mynduðust þá biðraðir fólks sem þáði súpuna með miklum þökkum. Það var ekki síður þetta örlæti á erfiðum tímum sem var upphafið að ferðalögum Hamborgartrésins.

Hamborgartréð tendrað

Prúðbúnir gestir stilltu sér upp fyrir ljósmyndun við tendrun ljósanna á Hamborgartrénu í desember 1968. Sama ár var fyrsti áfangi Sundahafnar tekinn í notkun. Ljósmynd: Ari Kárason.

Hamborgartréð varð árlegur gestur á miklu athafnasvæði, þungamiðju lands í miklum vexti. Aldrei lét það samt beinlínis mikið yfir sér. Ef leitað er að fréttum um tréð undanfarna áratugi finnast stuttar fréttir í tilkynningastíl um að kveikt hafi verið á trénu. Stundum fylgja myndir af litlum en prúðbúnum hópum fólks á vegum hafnaryfirvalda, þýska sendiráðsins og Wikingerrunde, félagsskapar fyrrum sjó-, frétta- og verslunarmanna í Hamborg, sem fljótlega tók að sér að senda tréð yfir hafið ár hvert.

Heimurinn breyttist en tréð stóð sína vakt

Reykjavíkurhöfn var um langa hríð mikilvægasta gátt Íslands að umheiminum. Þar komu skipin að utan í höfn með nauðsynjavörur, munaðarvarning, vélar sem báru með sér iðnvæðingu landsins, blöðin og bækurnar sem uppfræddu þjóðina og gáfu henni kost á að fylgjast með hinum stóra heimi. Við Reykjavíkurhöfn tók þjóðin á móti ástvinum, erlendum þjóðhöfðingjum, Nóbelsskáldinu og handritunum.

Uppbyggingarsaga hafnarinnar er því um leið uppbyggingarsaga Reykjavíkur. Með stækkandi bæ og gríðarlegum samfélagsbreytingum 20. aldarinnar jukust umsvifin og urðu líklega mest á sjöunda áratugnum þegar Reykjavík var orðin borg, þótt smá væri í sniðum.

Hlutverk Reykjavíkurhafnar breyttist þó hratt fyrstu árin eftir að Hamborgartréð lagði af stað í sína fyrstu ferð. Á sjöunda áratugnum var farþegaflug í miklum vexti, árið 1972 hætti Gullfoss siglingum og millilandaferðir með skipum lögðust að mestu af. Árið 1968 var fyrsti áfangi Sundahafnar tekinn í notkun, skipaflutningar fluttust í nýja og glæsilega iðnaðarhöfn og hægt og bítandi hljóðnaði erillinn á hafnarbakkanum. Athafnasemi hélt auðvitað áfram við höfnina en segja má að sú sterka tenging almennings og miðborgarinnar við hana, sem hafði einkennt mannlífið þar allt frá því að Reykjavík varð þorp, hafi rofnað.

Svo liðu árin. Pylsuvagninn Bæjarins bestu varð að útverði miðborgarinnar, handan hans mátti helst finna bílastæði, leigubílastöðvar og svo afgirtan Faxaskálann. Það er ekki ólíklegt að bílstjórar hafi kannski ekið fram hjá Hamborgartrénu á leið í Vesturbæ eða út á Seltjarnarnes og komist í jólaskap og hugað að jólainnkaupunum sem fram undan voru.

Mynd frá höfninni

Reykjavíkurhöfn var lengi þungamiðjan í uppbyggingu borgarinnar og hlið hennar út í hinn stóra heim.

Falleg arfleifð í nýrri miðborg

Það var svo ekki fyrr en eftir aldamót sem mannlífið við höfnina fór að glæðast aftur. Í verbúðunum við höfnina spruttu upp verslanir, verkstæði í stað hafnsæknu starfseminnar sem þar var áður. Á austurbakkanum var tekinn grunnur að nýju tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Nýjasti hluti miðborgarinnar fór að byggjast upp og við hönnunina var það gert að sérstöku markmiði að gera höfnina og sjóinn aftur aðgengileg fyrir borgarbúa og gesti.

Wikingerrunde hefur að mestu hætt starfsemi sinni. Tréð hefur raunar heldur ekki komið frá Hamborg um árabil heldur er hoggið í íslenskum skógi. Nokkur fyrirtæki með starfsemi í kringum gömlu höfnina hafa í samstarfi við þýska sendiráðið tekið að sér að viðhalda siðnum og tryggja að tréð verði áfram á sínum stað um hver jól. Í öll þau 50 ár sem tré var sent til Íslands flutti Eimskipafélag Íslands tréð endurgjaldslaust frá Hamborg til Reykjavíkur og fleiri tóku þátt í að viðhalda hefðinni.

Uppbyggingunni við gömlu höfnina er lokið að miklu leyti og alla leið frá Örfirisey að Hörpu iðar svæðið aftur af mannlífi. Nýtt miðborgarhverfi Reykjavíkur býr að því að fá í heimanmund jólatré sem ber með sér fallega sögu af liðnum athafnatímum og jólalegan boðskap gjafmildi, manngæsku og þakklætis.

„Þetta tré á stóran sess í minni fjölskyldusögu. Hreinn Hreinsson, móðurafi minn, sigldi til Hamborgar á eftirstríðsárunum. Hann var ungur á einu af þeim skipum sem buðu fátækum og svöngum börnum á hafnarbakkanum við Elbuna niður í messann, í súpu og mat. Afi Hreinn var seinna með verbúð við gömlu höfnina – þar var skartgripasali síðast þegar ég athugaði – og heimsókn í Kaffivagninn var skyldustopp eftir rúnt niður á höfn til að tékka á trillunni. Í einni slíkri ferð til Reykjavíkur um jól stoppaði afi við Hamborgartréð og sagði mér fiskisúpusöguna. Þetta er mér enn ljóslifandi í huga. Seinna átti ég eftir að búa í Hamborg um átta ára skeið og upplifa að þessi saga var vel geymd þar og síst gleymd. Sæfarakirkjan við höfnina hélt henni til haga og talsvert var skrafað um söguna á bak við trjágjöfina hver jól. Góðvildar íslenskra sjómanna á eftirstríðsárunum er enn minnst með hlýju.“
Agnes Vogler, þýðandi og prófarkarlesari hjá Landsbankanum.

Myndatexti með efstu myndinni í greininni: Gamla höfnin var fyrst og fremst athafnasvæði á síðustu áratugum síðustu aldar og lítið sótt af almennum borgarbúum. Hamborgartréð glæddi þó svæðið lífi á aðventunni. Ljósmyndari: Ólafur K. Magnússon.

Þú gætir einnig haft áhuga á
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Jólaköttur
13. des. 2022
Það er ekkert að því að fara í jólaköttinn
Nú líður að jólum, mögulega skemmtilegustu hátíð ársins þar sem fjölskyldur og vinir koma saman til að lýsa upp skammdegið og ylja sér í kuldanum. Jólin eru hátíð ljóss og friðar en á sama tíma eru jólin hátíð mikillar og – stundum – óþarfa neyslu.
Barn í jólaglugga
9. des. 2022
Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum
Þar sem líða fer að þeim tíma er jólasveinarnir fara á stjá og setja ýmis konar glaðning í skóna hjá börnum, höfðum við samband við Stekkjastaur og spurðum hvernig hann færi að því að skipuleggja sín gríðarlega umfangsmiklu jólainnkaup (fyrir utan allt það sem hann býr til sjálfur).
Starfsfólk í hjálparstarfi
18. des. 2020
Fólk vill láta gott af sér leiða
Hjálpar- og styrktarfélög hafa ekki farið varhluta af heimsfaraldri og öllum þeim nýju lögmálum og siðum sem heimurinn hefur þurft að tileinka sér árið 2020.
19. des. 2017
Er hægt að greina jólaandann?
Hvað eru jól? Eru jólin eitthvað sem kemur á slaginu, tiltekinn matur eða Jesú? Okkur finnst við öll þekkja jólin, en þegar kemur að því að lýsa þeim kemur í ljós að fólk upplifir þau mjög ólíkt. Er eitthvað eitt sem er ómissandi ef jólin eiga að vera jól? Er hægt að einangra það og skilgreina?
9. des. 2016
Hvaðan koma aðventuljósin?
Aðventuljósin sem prýða annan hvern glugga á Íslandi vekja gjarnan athygli erlendra gesta sem sækja borgina heim á aðventunni. Það er vegna þess að ljósin sjö minna á menóru, sem er eitt elsta trúartákn gyðinga. Samt eru hér engin skipulögð samtök gyðinga, enginn rabbíni og það er talið að hér búi aðeins um hundrað einstaklingar sem aðhyllist gyðingdóm. Eftir hvaða krókaleiðum hefur þessi siður borist hingað?
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur