Vísitala íbúðaverðs hækkar áfram örlítið milli mánaða

Vísitalan hækkaði um 0,4% á milli mánaða í janúar. Í desember hækkaði hún um 0,5% og um 0,1% í nóvember. Sérbýlishluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% og fjölbýlishlutinn um 0,4%. Almennt sveiflast sérbýlishluti vísitölunnar meira en fjölbýlishlutinn, bæði vegna þess að mun færri samningar eru gerðir í hverjum mánuði um sérbýli heldur en fjölbýli og vegna þess að sérbýli eru fjölbreyttari og verðið því misjafnara milli sérbýla en fjölbýla.
Árshækkun 5,3% - enn undir ársverðbólgu
Árshækkun vísitölunnar hefur aukist statt og stöðugt eftir að hafa náð lágmarki í 0,8% í júlí í fyrra. Hún mældist 5,4% í janúar og var 4,5% í desember. Hún er enn þó nokkuð minni en verðbólgan, sem mældist 6,7% í desember, sem gefur til kynna að á síðustu 12 mánuðum hafi húsnæðið ekki verið eins afgerandi drifkraftur verðbólgunnar og áður, þótt það hafi aftur dregið vagninn allra síðustu mánuði. Árshækkun sérbýlis er þó komin upp í 8,4% og er því þó nokkuð yfir ársverðbólgunni.
Raunverð nokkurn veginn óbreytt milli ára
Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu í janúar var nokkurn veginn það sama og í janúar í fyrra. Um mitt síðasta ár náðu raunverðslækkanir hámarki í tæpum 6%. Raunverðið tók svo aftur við sér þegar verðbólgan fór að hjaðna á sama tíma og líf virðist aftur hafa færst yfir íbúðamarkað. Raunverð fæst með því að taka tillit til verðbólgu, en til þess notum við vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Raunverð lækkar þannig á milli ára ef árshækkun íbúðaverðs er minni en árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis.
Kaupsamningum fjölgar enn
Undirrituðum kaupsamningum hefur tekið að fjölga á ný miðað við sama tíma í fyrra. Eftir að hafa fækkað á milli ára samfellt frá miðju ári 2021 tók kaupsamningum að fjölga aftur í haust. Í desember voru kaupsamningar 16% fleiri en í desember árið á undan og í janúar 15% fleiri en sama mánuð árið áður.
Íbúðaverð heldur áfram að hækka hægt og rólega þrátt fyrir skarpar vaxtahækkanir síðasta árs og viðvarandi hátt vaxtastig. Verðþróunin næstu mánuði hlýtur að ráðast af ýmsu, ekki síst hversu hratt verðbólgan hjaðnar og því hvenær má vænta vaxtalækkana. Þá geta hamfarirnar í Grindavík haft áhrif á markaðinn, en enn á eftir að koma í ljós hversu mikil áhrifin verða og hvort ráðist verði í einhvers konar aðgerðir til þess að auka framboð af íbúðum.
Í nýjustu verðbólguspá okkar gerðum við einmitt ráð fyrir að markaðsverð á húsnæði myndi hækka um 0,4% á landinu öllu. Við gerum áfram ráð fyrir að verðbólgan hjaðni úr 6,7% í 6,1% í febrúar.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








