Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um áfram­hald­andi hjöðn­un í fe­brú­ar: Úr 6,7% í 6,1%

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,89% milli mánaða í febrúar og að ársverðbólga hjaðni úr 6,7% í 6,1%. Útsölulok munu hafa mest áhrif til hækkunar á milli mánaða í febrúar, samkvæmt spánni. Þá koma gjaldskrárhækkanir á sorphirðu, fráveitu og köldu vatni inn í mælingar nú í febrúar. Lægri flugfargjöld til útlanda vega þyngst á móti hækkunum, gangi spáin eftir.
Peningaseðlar
15. febrúar 2024

Verðbólga lækkaði umfram flestar spár í janúar og mældist 6,7%. Við höfðum spáð lækkun úr 7,7% í 7,2%. Það sem kom mest á óvart var töluvert minni verðhækkun á nýjum bílum en einnig nokkur lækkun á flugfargjöldum til útlanda, en við höfðum spáð lítilli hækkun. 

Spáum 0,89% hækkun vísitölunnar í febrúar og lækkun verðbólgu úr 6,7% í 6,1%

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,89% á milli mánaða í febrúar. Þótt hækkunin yrði töluverð myndi ársverðbólgan hjaðna, úr 6,7% í 6,1%. Það skýrist af því hversu verulega vísitalan hækkaði í febrúar í fyrra, um 1,4%, og nú í febrúar dettur síðasta febrúarmæling út.

Útsölulok munu hafa mest áhrif til hækkunar á vísitölunni milli mánaða í febrúar, þegar útsölur á fötum, skóm og heimilisbúnaði ganga til baka. Hagstofan hefur breytt því hvenær gjaldskrárhækkanir á sorphirðu, fráveitu og köldu vatni koma inn í mælingar í vísitöluna. Hingað til hafa þær komið í inn mælingar í janúar, en munu framvegis koma inn í febrúar og munu því hafa áhrif til hækkunar nú. Þá spáum við því að reiknuð húsaleiga hækki í febrúar en flugfargjöld til útlanda lækki og verði stærsti áhrifaþátturinn sem vegur á móti hækkunum.

Hafa ber í huga að ýmsir stórir óvissuþættir gætu haft áhrif á verðmælingar næstu mánuði, ekki síst framvinda í kjaraviðræðum sem virðist takmörkuð um þessar mundir. Þótt verðbólguspálíkan okkar taki tillit til launabreytinga er erfitt að ákvarða áhrifin af þeim þegar jafnmikil óvissa ríkir um launaþróun og nú.

Útsölulok lita febrúarmælinguna

Útsölurnar í janúar nú voru nokkuð góðar. Eftir dræmar útsölur í faraldrinum var útsalan nú líkari því sem var fyrir faraldur. Útsölur á húsgögnum og heimilisbúnaði klárast alla jafna í febrúar og við spáum 5% verðhækkun (+0,28% áhrif á vísitöluna) á milli mánaða. Ólíkt útsölum á húsgögnum og heimilisbúnaði eiga útsölur á fötum og skóm það til að dragast inn í febrúar og ganga ekki að fullu til baka fyrr en í mars. Við gerum ráð fyrir að verð á fötum og skóm hækki um 4,9% nú í febrúar (+0,17% áhrif á vísitöluna) og um 5,2% í mars.

Reiknuð húsaleiga hækkar

Samkvæmt spánni hækkar reiknuð húsaleiga um 0,9% (+0,2 áhrif á vísitöluna) á milli mánaða í febrúar þar sem íbúðaverð hækkar um 0,4% og vaxtahlutinn um 0,5%. Nokkuð hefur hægt á íbúðaverðshækkunum síðustu tvo mánuði samkvæmt vísitölu markaðsverðs húsnæðis eins og Hagstofan reiknar hana. Í janúar hækkaði íbúðaverð um 0,2% og í desember um 0,3%, eftir að hafa hækkað nokkuð duglega í nóvember, um 1,4%, og þar áður um 1,5% í október. Það er líklegt að íbúðaverð hækki áfram næstu mánuði, meðal annars vegna aukins eftirspurnarþrýstings vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar til aðstoðar Grindvíkingum. Erfitt er að segja til um hversu mikil áhrifin af því verða, en við gerum ráð fyrir hóflegum hækkunum næstu mánuði.

Hagstofan tilkynnti samhliða útgáfu vísitölunnar í janúar að hún hyggðist breyta um aðferð við mat á reiknaðri húsaleigu. Stefnt er að því að ný aðferð verði tekin upp á vormánuðum en Hagstofan gefur út nánari upplýsingar í mars um það hvenær breytingin verður og hvernig henni verður háttað. Þá ættum við að geta byrjað að taka tillit til breyttrar aðferðafræði í okkar spám.

Sorphirðugjald hækkar í febrúar

Í frétt Hagstofunnar með janúarmælingunni kom einnig fram að verðbreytingar á sorphirðu, holræsi og köldu vatni yrðu ekki teknar inn í janúar, eins og áður, heldur í febrúar, þegar fyrsta greiðsla skv. nýjum gjaldskrám fer yfirleitt fram. Við gerum ráð fyrir því að húsnæði, án reiknaðrar húsaleigu, hækki um 1,6% (+0,15% áhrif á vísitöluna), að mestu vegna fyrrnefndra gjaldskrárhækkana.

Dregur úr verðhækkunum á mat

Verð á mat og drykkjarvöru hækkar um 0,2% (+0,03% áhrif á VNV) í febrúar, gangi spá okkar eftir. Töluvert hefur hægt á verðhækkun matarkörfunnar síðustu þrjá mánuði. Í nóvember hækkaði verð á matarkörfunni um 0,17% og aðeins um 0,09% í desember. Í janúar hækkaði hún svo um 0,5% en megnið af þeirri hækkun má rekja til ákvörðunar verðlagsnefndar búvara sem hafði nokkur áhrif á verðmælingar þann mánuð.

Teljum að flugfargjöld lækki

Flugfargjöld til útlanda hafa einnig lækkað töluvert meira en við höfum gert ráð fyrir. Í janúar lækkuðu þau um 11,4%, en við spáðum 2,3% hækkun. Í desember hækkuðu flugfargjöld einnig töluvert minna en við spáðum, eða um 5,3%, en við spáðum tæplega 20% hækkun. Við gerum nú ráð fyrir að flugfargjöld lækki um 5% milli mánaða (-0,07% áhrif á vísitöluna). Samkvæmt verðkönnun okkar varð mjög lítil breyting milli mánaða á bensíni og díselolíu.

Spá um febrúarmælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 15,1% 0,2% 0,03%
Áfengi og tóbak 2,4% 0,4% 0,01%
Föt og skór 3,6% 4,9% 0,17%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,5% 1,6% 0,15%
- Reiknuð húsaleiga 19,0% 0,9% 0,18%
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 5,6% 5,0% 0,28%
Heilsa 4,0% 0,1% 0,00%
Ferðir og flutningar (annað) 4,0% 0,5% 0,02%
- Kaup ökutækja 7,0% -0,1% -0,01%
- Bensín og díselolía 3,4% 0,1% 0,00%
- Flugfargjöld til útlanda 1,5% -5,0% -0,07%
Póstur og sími 1,7% -0,4% -0,01%
Tómstundir og menning 10,0% 1,0% 0,10%
Menntun 1,1% 0,0% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 5,5% 0,2% 0,01%
Aðrar vörur og þjónusta 6,6% 0,2% 0,02%
Alls 100,0%   0,89%

Við spáum því að verðbólga lækki áfram næstu mánuði

Við gerum ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,89% í febrúar, 0,64% í mars, 0,18% í apríl og 0,28% í maí. Gangi spáin eftir verður verðbólga 6,1% í febrúar, 6,2% í mars, 5,0% í apríl og 4,9% í maí. Mánaðarbreytingar á vísitölu neysluverðs voru miklar í febrúar og apríl í fyrra og þar sem við spáum nú minni hækkunum en þá, lækkar árstakturinn töluvert þá mánuði. Fyrstu dagar páskanna í ár verða í mars og við gerum ráð fyrir að páskahækkun á flugfargjöldum mælist í mars og lækki á móti í apríl.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Flutningaskip við Vestmannaeyjar
7. maí 2025
Stór hluti íslensks vöruútflutnings til Bandaríkjanna undanþeginn tollum
Ætla má að um þriðjungur íslenskra vara sem fluttar eru frá Íslandi til Bandaríkjanna sé undanþeginn þeim tollum sem nú eru í gildi, til dæmis lyf og flestar lækningavörur. Óvissa um framvindu mála í alþjóðaviðskiptum getur samt ein og sér leitt til þess að fyrirtæki halda að sér höndum og ráðast síður í nýjar fjárfestingar. Á síðasta ári fór um 12% af vöruútflutningi Íslands til Bandaríkjanna.
Dollarar og Evrur
5. maí 2025
Vikubyrjun 5. maí 2025
Í apríl jókst verðbólga úr 3,8% í 4,2%, nokkuð umfram okkar spá um 4,0% verðbólgu. Velta samkvæmt VSK-skýrslum jókst á milli ára í flestum atvinnugreinum á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Á fyrsta ársfjórðungi mældist hagvöxtur á evrusvæðinu en samdráttur í Bandaríkjunum. Í þessari viku er vaxtaákvörðun í Bandaríkjunum og einnig í Bretlandi.
2. maí 2025
Mánaðamót 2. maí 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Fasteignir
2. maí 2025
Leiguverð á hraðari uppleið en kaupverð undanfarið
Ör fólksfjölgun og hækkun húsnæðisverðs hefur aukið eftirspurn eftir leiguíbúðum. Stærstur hluti Airbnb-íbúða er nú leigður út af leigusölum með fleiri en tvær íbúðir í útleigu. Frumvarp um hert skilyrði um skammtímaleigu hefur verið sett í samráðsgátt. Hömlur á skammtímaleigu gætu aukið framboð leiguíbúða og jafnvel söluframboð. 
29. apríl 2025
Verðbólga yfir væntingum og mælist 4,2%
Verðbólga mældist 4,2% í apríl og hækkaði úr 3,8% frá því í mars. Verðbólga var umfram okkar spá, einkum vegna þess að reiknuð húsaleiga og verð á matvörum hækkaði meira en við bjuggumst við.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
28. apríl 2025
Versnandi efnahagshorfur í heiminum að mati AGS
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) birti nýja efnahagsspá um páskana. Hagvaxtarhorfur í heiminum hafa verið færðar niður og AGS telur að spenna í alþjóðaviðskiptum og veruleg óvissa komi til með að draga úr umsvifum í heimshagkerfinu.
USD
28. apríl 2025
Vikubyrjun 28. apríl 2025
Hagstofan birtir verðbólgutölur fyrir aprílmánuð á morgun og við búumst við að verðbólga hækki tímabundið upp í 4%. Í vikunni fáum við fyrstu uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung og fyrsta mat á hagvexti í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu á fyrsta ársfjórðungi.
Íbúðir
23. apríl 2025
Horfur á hófstilltum hækkunum á íbúðaverði
Við teljum horfur á tiltölulega hófstilltum verðhækkunum á íbúðamarkaði næstu árin, 5,9% hækkun á þessu ári, 4,8% hækkun á næsta ári og 6,4% hækkun árið 2027. Til samanburðar hefur íbúðaverð hækkað um 9% á ári að jafnaði frá aldamótum, og að meðaltali um 13% á ári frá árinu 2021. 
Greiðsla
22. apríl 2025
Vikubyrjun 22. apríl 2025
Leiguverð hefur hækkað um 11,3% á síðustu tólf mánuðum, þó nokkuð meira en íbúðaverð sem hefur hækkað um 8% á sama tímabili. Hækkanir á íbúða- og leigumarkaði eru þó nokkuð umfram almennar verðhækkanir í landinu, en verðbólga mældist 3,8% í mars. Áfram er kraftur í innlendri neyslu, greiðslukortavelta heimila hefur aukist statt og stöðugt síðustu mánuði og var 1,8% meiri í mars síðastliðnum en í mars í fyrra.  
Gönguleið
16. apríl 2025
Óljósar horfur í ferðaþjónustu vegna sviptinga í alþjóðasamskiptum
Sviptingar í alþjóðaviðskiptum gætu haft margvísleg áhrif á ferðaþjónustu hér á landi. Tollar gætu rýrt kaupmátt Bandaríkjamanna og haft áhrif á komur þeirra hingað til lands. Auk þess eru merki um að áhugi Evrópubúa á að heimsækja Bandaríkin fari dvínandi, sem gæti haft áhrif hingað heim, enda hafa Evrópubúar gjarnan komið við á Íslandi á leið sinni vestur um haf. Í nýrri hagspá gerum við ráð fyrir samdrætti í ferðaþjónustu á þessu ári, en að hún taki aftur við sér á næstu tveimur árum.