Vikan framundan
Í dag birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs.
Á þriðjudaginn birtir Hagstofan þjóðhagsreikninga fyrir fyrsta ársfjórðung og fjölda greiddra gistinótta í apríl.
Á miðvikudag birtir Seðlabankinn greiðslujöfnuð fyrir fyrsta ársfjórðung og erlenda stöðu þjóðarbúsins.
Á fimmtudaginn birtist samantekt á niðurstöðum úr könnun Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands meðal erlendra ferðamanna árið 2021. Inntak skýrslunnar eru tölfræðilegar upplýsingar sem gefa mynd af atferli og viðhorfum ferðamanna á Íslandi.
Mynd vikunnar
Líkt og tíðrætt hefur verið virðist ekkert lát á hækkunum íbúðaverðs um þessar mundir og er íbúðaverð meðal annars orðin meginorsök aukinnar verðbólgu. Staðan er þó önnur á leigumarkaði þar sem verðhækkanir hafa verið mun hóflegri. Til lengri tíma litið fylgjast þessar stærðir þó yfirleitt að og er því ekki ólíklegt að annað hvort hægi á hækkunum íbúðaverðs eða leiguverð taki við sér til þess að jafnvægi náist að nýju. Frá því í janúar 2020 hefur leiguverð eingöngu hækkað um 6,5% á meðan kaupverð fjölbýlis hefur hækkað um 38,1% á sama tíma, samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá.
Efnahagsmál
Launavísitalan hækkaði um 1,6% milli mars og apríl samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,5% sem er mun meiri árshækkun en verið hefur síðustu mánuði.
Almennu útboði á hlutabréfum Ölgerðarinnar lauk í lok síðustu viku.
Hagstofan birti tölur um vöru- og þjónustuviðskipti á fyrsta ársfjórðungi og niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn en hlutfall atvinnulausra var 2,5% í apríl.
Fjármálamarkaðir
Brim, PLAY og Síldarvinnslan birtu árshlutauppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung.
Lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) hefur hækkað lánshæfismat sértryggðra skuldabréfa Arion banka og Landsbankans úr A- í A, hækkunin kemur í kjölfar tilkynningar S&P um að umgjörð skilameðferðar á Íslandi sé metin fullnægjandi.