Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um 0,25 pró­sentu­stiga hækk­un stýri­vaxta í næstu viku 

Við spáum því að peningastefnunefnd hækki stýrivexti um 0,25 prósentustig í næstu viku en muni á fundi sínum einnig fjalla um möguleika á að halda stýrivöxtum óbreyttum. Verðbólga jókst umfram væntingar í janúar og mældist 5,2%. Aukin verðbólga í janúar skýrist að mestu leyti af hækkun opinberra gjalda, en þó ekki einungis. Mælingin ber þess einnig merki að undirliggjandi verðþrýstingur er enn til staðar. Ekki hefur tekist að draga úr verðbólguvæntingum og kaupmáttaraukning heldur áfram að skila sér í aukinni neyslu.  
Seðlabanki Íslands
30. janúar 2026

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 4. febrúar. Nefndin lækkaði vexti um 0,25 prósentustig við síðustu ákvörðun en hélt vöxtum óbreyttum á síðustu tveimur fundum þar áður. Stýrivextir Seðlabankans standa nú í 7,25%. Verðbólga mældist 5,2% í janúar. Raunstýrivextir, miðað við liðna verðbólgu, hafa því lækkað um eitt prósentustig og standa í 2,2%, en voru um 3,2% fyrir síðustu ákvörðun.  

Sterk rök fyrir stýrivaxtahækkun 

Verðbólga hefur ekki mælst hærri síðan í september 2024. Þó rekja megi stóran hluta verðbólguaukningar síðustu tvo mánuði til skatta og gjaldskrárhækkana opinberra stofnanna, þá er það ekki eina ástæðan. Innlendar vörur hafa hækkað um rúmlega 7% síðasta árið og þjónustuverðbólga hefur einnig aukist töluvert umfram verðbólgu. Það bendir til þess að kostnaðarhækkunum, meðal annars vegna launahækkana, hefur verið ýtt út í verðlag. Þá hefur ársbreyting allra kjarnavísitalna einnig hækkað og er vel yfir verðbólgumarkmiði. Sterkt gengi virðist þó hafa vegið á móti innlendum verðhækkunum og auk þess hefur hægt á hækkunum á reiknaðri húsaleigu. 

Kaupmáttaraukning skilar sér áfram í aukinni neyslu sem kyndir undir verðbólgu. Íslendingar ferðast til útlanda sem aldrei fyrr og þrátt fyrir fall flugfélagsins Play var fjöldi utanlandsferða Íslendinga á lokafjórðungi síðasta árs sá mesti frá árinu 2018. Heimilin standa heilt á litið mjög vel, þrátt fyrir aukna neyslu eykst sparnaður á innlánsreikningum og vanskil hafa ekki vaxið.  

Endurskoðun Hagstofu Íslands á þjóðhagsreikningum aftur í tímann var þó nokkur þegar Hagstofan birti tölur fyrir þriðja ársfjórðung síðasta árs, stuttu eftir síðustu vaxtaákvörðun. Hagvöxtur á fyrri hluta árs 2025 var töluvert meiri en fyrstu tölur gáfu til kynna. Hagvöxtur á þriðja fjórðungi 2025 var einnig töluvert umfram spá Seðlabankans, sem var birt samhliða síðustu vaxtaákvörðun. Í spá Seðlabankans var gert ráð fyrir að landsframleiðsla hefði dregist saman um 0,5% á milli ára á þriðja ársfjórðungi 2025, en samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofunnar jókst framleiðsla um 1,2% á milli ára og á fyrstu þremur fjórðungum ársins jókst landsframleiðsla um 1,5%. Nýlegur loðnufundur eykur svo hagvaxtarhorfur fyrir næsta ár. 

Þá gerði Seðlabankinn einnig ráð fyrir að einkaneysla myndi aukast um 3,5% á milli ára á þriðja ársfjórðungi  2025, en tölur hagstofunnar sýndu 4,2% aukningu. Hluti af þessum mun skýrist af því að endurskoðun Hagstofunnar á þjóðhagsreikningum aftur í tímann sýndu minni umsvif árið 2024, en burtséð frá því benda tölur Hagstofunnar til aukinna umsvifa í hagkerfinu á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs.  

Verðbólguvæntingar hafa hækkað 

Seðlabankinn birti sl. miðvikudag niðurstöður úr nýrri könnun á verðbólguvæntingum á meðal markaðsaðila og óhætt er að segja að sýn markaðsaðila á framvindu verðbólgu hafi breyst nokkuð frá síðustu könnun. Markaðsaðilar gera nú ráð fyrir mun meiri verðbólgu en fyrir síðustu ákvörðun. Út frá miðgildinu eiga markaðsaðilar ekki von á vaxtalækkun á fyrsta ársfjórðungi þessa árs – en næstu ákvarðanir nefndarinnar verða í febrúar og mars - en búast við 0,25 prósentustiga lækkun í maí. Flestum finnst aðhaldið enn of þétt, en þessi skoðun er ekki eins afgerandi og í nóvember 2025. Þess ber að geta að könnunin var framkvæmd áður en Hagstofan birti verðbólgutölur fyrir janúar en sú tala var hærri en flestir bjuggust við. 

Annar mælikvarði á verðbólguvæntingar er verðbólguálag á skuldabréfamarkaði. Þegar nefndin hittist í nóvember var álagið til tveggja ára 3,9%. Það féll síðan nokkuð skarpt og var komið niður í 3,3% í byrjun desember eftir lága verðbólgumælingu í nóvember. Síðan þá hefur álagið hækkað nokkuð. Í lok dags í gær, 29. febrúar, eftir að janúarmæling á vísitölu neysluverðs var birt var álagið til tveggja ára 4,2%. 

Væntingar um verðbólgu gefa fyrirheit um verðbólgu fram í tímann og geta líka einar og sér haft veruleg áhrif á verðbólguþróun. Þær hafa áhrif á verðsetningu fyrirtækja og launakröfur launafólks og því er til mikils að vinna að halda þeim í skefjum.  

Rök fyrir óbreyttum vöxtum 

Það sem helst vinnur með Seðlabankanum er að greinilega hefur hægt á hagkerfinu. Nokkur áföll hafa skollið á útflutningsgreinar sem ætti að hægja enn frekar á hagvexti á þessu ári. Háir vextir hafa dregið úr umsvifum og stjórnendur fyrirtækja virðast hafa sífellt minni væntingar til efnahagslífsins og minni áform um ráðningar.  

Skýr merki eru um að dregið hefur úr spennu á vinnumarkaði. Á síðustu mánuðum hefur atvinnuleysi aukist og mældist 4,4% í desember, en svo hátt hefur atvinnuleysi ekki mælst síðan í apríl 2022. Í takt við aukið atvinnuleysi hefur eftirspurn eftir vinnuafli dvínað.  

Fasteignamarkaður hefur einnig kólnað og greina mátti minni umsvif í kjölfar vaxtadóma Hæstaréttar sem tímabundið olli meiri óvissu og skertu lánaframboði. Sú óvissa er þó ekki enn til staðar, en aðgengi að lánsfé er þó enn skert og minna en áður. 

Spáum vaxtahækkun  

Við teljum að peningastefnunefnd muni ekki velta fyrir sér að lækka vexti heldur muni ákvörðunin snúast um annað hvort um óbreytt vaxtastig eða vaxtahækkun. Þegar öllu er á botninn hvolft stendur peningastefnunefnd frammi fyrir 5,2% verðbólgu. Jafnvel þótt færa megi rök fyrir því að nefndin geti litið fram hjá hluta af þessari verðbólgu, þá hlýtur nefndin einnig að hafa trúverðugleika nefndarinnar í huga. Verðbólguvæntingar hafa hækkað frá síðasta fundi. Þegar verðbólguvæntingar eru þrálátar er hætt við því að launahækkanir smitist hratt út í verðlag. Það hjálpar heldur ekki til að opinberir aðilar hafa ekki gefið gott fordæmi heldur hækkað ýmsa skatta og gjöld, jafnvel vel umfram verðbólgu. Nefndin hlýtur einnig að hafa áhyggjur af því að uppsagnarákvæði kjarasamninga virkist ef verðbólga verður yfir 4,7% í ágúst en ekki má mikið út af bregða svo að það gæti raungerst. Við spáum því þess vegna að nefndin hækki vexti um 0,25 prósentustig, en ræði einnig um að halda vöxtum óbreyttum. 

Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar

Dags. Vikur frá seinasta fundi Ákv. Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Meginvextir
7. febrúar 2024 11 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   9,25%
20. mars 2024 6 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   9,25%
8. maí 2024 7 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS AS (-0,25%)   9,25%
21. ágúst 2024 15 óbr. ÁJ, RS, TB, ÁP, HS     9,25%
2. október 2024 6 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁP, HS   HS (óbr.) 9,00
20. nóvember 2024 7 -0,50% ÁJ, RS, TB,  ÁÓP, HS     8,50%
5. febrúar 2025 11 -0,50% ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS     8,00%
19. mars 2025 6 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS     7,75%
21. maí 2025 9 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS   HS (óbr.) 7,50%
20. ágúst 2025 13 óbr. ÁJ, ÞGP, TB, ÁÓP, HS     7,50%
8. október 2025 7 óbr. ÁJ, ÞGP, TB, ÁÓP, HS     7,50%
19. nóvember 2025 6 -0,25% ÁJ, ÞGP, TB,  ÁÓP, HS     7,25%
4. febrúar 2026 11          
18. mars 2026 6          
20. maí 2026 9          
19. ágúst 2026 13          
7. okt. 2026 7          
18. nóv. 2026 6          

AS: Arnór Sighvatsson, ÁJ: Ásgeir Jónsson, ÁÓP: Ásgerður Ósk Pétursdóttir, GJ: Gunnar Jakobsson, GZ: Gylfi Zoëga, HS: Herdís Steingrímsdóttir, RS: Rannveig Sigurðardóttir, TB: Tómas Brynjólfsson, ÞGP: Þórarinn G. Pétursson
Heimild: Seðlabanki Íslands

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Bakarí
29. jan. 2026
Aukna verðbólgu má rekja til opinberra gjalda
Verðbólga jókst úr 4,5% í 5,2% í janúar. Verðbólga mældist lægst 3,7% í nóvember síðastliðnum og hefur því hækkað um 1,5 prósentustig síðan þá. Verðhækkanir tengdar bílum og rekstri bifreiða skýra hækkunina að langmestu leyti nú í janúar. Matvara hækkaði þó töluvert umfram spár og verð á flugfargjöldum lækkaði minna en við spáðum. Á móti hafði húsnæðiskostnaður minni áhrif til hækkunar en við höfðum gert ráð fyrir.
Kranar á byggingarsvæði
26. jan. 2026
Vikubyrjun 26. janúar 2026
Vísitala íbúðaverðs lækkaði um tæplega 1,2% á milli mánaða í desember og á sama tíma lækkaði vísitala leiguverðs um 1,4%. Hagstofan birti vísitölu launa, sem hélst óbreytt á milli mánaða. Á fimmtudag verður vísitala neysluverðs í janúar birt.
Mynt 100 kr.
19. jan. 2026
Vikubyrjun 19. janúar 2026
Kortavelta heimila heldur áfram að aukast á milli ára en velta erlendra korta hér á landi hefur tekið að dragast saman í takt við fækkun ferðamanna. Í vikunni birtir HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.
15. jan. 2026
Spáum 5,1% verðbólgu í janúar
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,30% á milli mánaða í janúar. Gangi spáin eftir mun verðbólga aukast úr 4,5% í 5,1%. Janúarútsölur hafa mest áhrif til lækkunar í mánuðinum en breytingar á gjaldtöku ökutækja hafa mest áhrif til hækkunar, samkvæmt spánni. Mikil óvissa er þó um hvernig Hagstofan tekur breytingarnar inn í verðmælingar.
Smiður
13. jan. 2026
Atvinnuleysi eykst en kortavelta líka
Atvinnuástandið hefur versnað smám saman og eftirspurn eftir vinnuafli er minni en áður. Atvinnuleysi hefur aukist hratt og mældist 4,4% í desember, en svo mikið hefur atvinnuleysi ekki mælst í rúmlega þrjú og hálft ár. Þessi þróun styður við markmið Seðlabankans um að draga úr þenslu í hagkerfinu og vinna bug á verðbólgu. Á sama tíma heldur neysla landsmanna áfram að aukast með hverjum mánuðinum, en heildarkortavelta hefur aukist um 6% á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs frá sama tímabili árið áður.
Bílar
12. jan. 2026
Breytt gjaldtaka af bílum gæti aukið verðbólgu um 0,7 prósentustig
Breytingar á gjaldtöku hins opinbera af rekstri og kaupum ökutækja gætu aukið verðbólgu um 0,7 prósentustig. Óvíst er hvort áhrifin komi fram að öllu leyti í janúar eða dreifist yfir næstu mánuði, en telja má að það velti ekki síst á eftirspurn eftir bílum í byrjun árs.
Rafbíll í hleðslu
12. jan. 2026
Vikubyrjun 12. janúar 2026
Skráð atvinnuleysi hélt áfram að aukast í desember og var 0,6 prósentustigum meira en á sama tíma árið áður. Álíka margir erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland í fyrra og síðustu tvö ár á undan en utanlandsferðir Íslendinga voru 18% fleiri í fyrra en árið á undan. Þó nokkur óvissa ríkir um verðbólgumælingu janúarmánaðar, ekki síst í tengslum við breytta gjaldtöku á innflutningi og rekstri bíla. Við gefum út verðbólguspá næsta fimmtudag.
5. jan. 2026
Mánaðamót 5. janúar 2026
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Vöruhótel
5. jan. 2026
Vikubyrjun 5. janúar 2026
Verðbólgan kom aftan að landsmönnum stuttu fyrir jól og fór úr 3,7% í 4,5%. Verðbólga í desember var aðeins 0,3 prósentustigum minni en í upphafi síðasta árs þegar hún mældist 4,8%. Á sama tímabili lækkuðu stýrivextir um 1,25 prósentustig, úr 8,50% í 7,25%.
Bananar
22. des. 2025
Verðbólgumælingin ekki jafnslæm og hún virðist í fyrstu
Verðbólga rauk upp í 4,5% í desember eftir að hafa hjaðnað verulega í nóvember og mælst 3,7%. Rífleg hækkun á flugfargjöldum til útlanda skýrir stóran hluta hækkunarinnar, en einnig töluverð gjaldskrárhækkun á hitaveitu í desember. Aukin verðbólga skýrist þannig af afmörkuðum, sveiflukenndum liðum og ekki er að greina merki um að undirliggjandi verðbólguþrýstingur hafi aukist að ráði.