Launavísitalan hækkaði mikið í apríl – hagvaxtaraukinn skilar sínu
Launavísitalan hækkaði um 1,6% milli mars og apríl samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,5% sem er mun hærri árstaktur en verið hefur síðustu mánuði.
Hækkun vísitölunnar milli mánaða í apríl var óvenjumikil og er meginskýringin launahækkun vegna hagvaxtarauka. Árshækkunartaktur launa hefur verið vel rúmlega 7% síðustu mánuði en fór nú upp í 8,5%.
Verðbólga í apríl 2022 mældist 7,2% sem er mesta verðbólga sem hefur mælst síðan í maí 2010. Árshækkun launavísitölunnar var hins vegar 8,5% þannig að kaupmáttur launa jókst um 1,2% milli aprílmánaða 2021 og 2022, þrátt fyrir óvenju mikla verðbólgu. Kaupmáttur í apríl var engu að síður 1,2% lægri en hann var í janúar 2022, en þá var kaupmáttur sá mesti í sögunni þannig að mikil verðbólga síðustu mánaða hefur minnkað kaupmátt töluvert. Í nýútgefinni þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar er gert ráð fyrir að kaupmáttur aukist aðeins um 0,1% milli ára að jafnaði í ár, fyrst og fremst vegna verulega aukinnar verðbólgu.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli febrúarmánaða 2021 og 2022 sést að laun hafa hækkað með svipuðum hætti á öllum mörkuðum. Launin hækkuðu um 7,1% á almenna markaðnum á þessum tíma og um 7,2% á þeim opinbera, þar af 7,3% hjá ríkinu og 7,1% hjá sveitarfélögunum.
Tvær starfsstéttir skera sig nokkuð úr ef litið er til launabreytinga milli febrúarmánaða 2021 og 2022. Laun verkafólks hafa hækkað mest, um 9,2%, og laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks næst mest, um 8%. Laun annarra starfsstétta hafa hækkað í kringum 6%. Segja má að þessar breytingar séu í takt við markmið gildandi kjarasamninga þar sem krónutöluhækkanir á lægri launum gefa meiri prósentubreytingar en á þeim hærri. Á þessu tímabili hækkaði vísitala neysluverðs um 6,2% þannig að kaupmáttur hafði annaðhvort lækkað eilítið eða staðið í stað meðal sumra hópanna.
Milli febrúarmánaða 2021 og 2022 hækkuðu laun áberandi mest í veitinga- og gististarfsemi, eða um 11,6%, og næst mesta hækkunin var í byggingum og mannvirkjagerð og verslun og viðgerðum, 7,5%.
Launastig í veitinga- og gististarfsemi er tiltölulega lágt og því valda krónutöluhækkanir meiri prósentubreytingum þar. Fréttir hafa einnig borist af erfiðleikum við að manna störf í greininni þegar eftirspurn eykst tiltölulega skyndilega. Ekki er ólíklegt að eitthvert launaskrið hafi orðið vegna þess. Laus störf eru hlutfallslega flest í byggingariðnaði og gæti það því einnig skýrt meiri hækkanir á launum þar en annars staðar.
Á hinum enda atvinnugreina er fjármála- og vátryggingarstarfsemi með 5% hækkun. Allar þessar greinar nema fjármála- og vátryggingarstarfsemi og flutningar og geymsla hafa því búið við kaupmáttaraukningu á þessu tímabili. Á þessum tölum má glöggt sjá áhrif krónutöluhækkana á launaþróun. Í greinum þar sem laun eru almennt lág hækka þau hlutfallslega mikið og minna í greinum þar sem laun eru hærri.
Lesa Hagsjána í heild:
Launavísitalan hækkaði mikið í apríl – hagvaxtaraukinn skilar sínu