Vikubyrjun 3. mars 2025

Vikan framundan
- Í dag birta Reitir uppgjör og Eurostat birtir verðbólgutölur fyrir evrusvæðið.
- Á þriðjudag birtir Eimskip uppgjör.
- Á fimmtudag birtir Seðlabankinn greiðslujöfnuð við útlönd, erlenda stöðu þjóðarbúsins og erlendar skuldir, Hampiðjan og Síldarvinnslan birta uppgjör og það er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Evrópu.
- Á föstudaginn birtir Kaldalón uppgjör og það verða birtar atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum.
Mynd vikunnar
Hagvöxtur á mann dróst saman um 1,4% á síðasta ári. Síðast varð samdráttur miðað við höfðatölu á covid-árinu 2020 og þar áður í kjölfar fjármálahrunsins, á árunum 2009 og 2010. Í heild var hagvöxtur á síðasta ári 0,6% en á sama tíma fjölgaði landsmönnum um 2%. Hagvöxtur á mann er betri vísbending um lífskjör en hagvöxtur, enda finnur hver og einn landsmaður minna fyrir hagvexti sem skýrist aðeins af því að landsmenn séu fleiri. Einkaneysla á mann dróst líka saman í fyrra, þótt einkaneyslan hafi aukist, þannig að neysla hvers og eins var að meðaltali minni en árið áður.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,91% á milli mánaða í febrúar og við það lækkaði verðbólga úr 4,6% í 4,2%. Mælingin var mjög nærri því sem við áttum von á, en við spáðum að vísitalan myndi hækka um 0,98% á milli mánaða og að verðbólga myndi hjaðna í 4,3%. Það sem kom mest á óvart var að föt og skór hækkuðu mun minna og matarkarfan meira en við áttum von á. Við eigum von á að verulega hægi á lækkunartakti verðbólgunnar næstu mánuði og að verðbólga verði komin niður í 3,8% í maí.
- Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs mældist tæplega 70 ma.kr. halli á vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd. Þetta er um 26 ma.kr. verri niðurstaða en á sama fjórðungi árið áður þegar 44 ma.kr. halli mældist. Verri niðurstaða skýrist aðallega af meiri vöruinnflutningi, en meðal annars var óvenju mikið flutt inn af búnaði til uppbyggingar á gagnaverum.
- Hagstofan birti tölur um veltu skv. VSK-skýrslum í nóv-des á síðasta ári. Veltan dróst saman á milli ára á því tímabili, eftir að leiðrétt er fyrir verðlag. Þó mátti greina aukningu í ferðaþjónustu og framleiðslu málma sem er á skjön við þróunina fyrir árið í heild í þeim tveimur atvinnugreinum. Skýringin á aukningu í veltu í framleiðslu málma liggur í hærra heimsmarkaðsverði á áli.
- Skráðum gistinóttum á öllum tegundum gististaða fjölgaði um 2,8% á milli ára í janúar, þar af um 1,4% á hótelum. Hagstofan er ennþá að vinna að því að endurskoða gögnin eftir þjóðerni, þannig að hún birti ekki gistinætur erlendra ferðamanna.
- Alma íbúðarfélag, Brim, Fossar, Iceland Seafood, Nóva klúbburinn og Skagi birtu uppgjör. Síminn lækkaði afkomuspá í kjölfar dóms hæstaréttar, Amaroq kynnti rannsóknarniðurstöður, stjórn Íslandsbanka afþakkaði boð um samrunaviðræður við Arion banka og Landsbankinn kláraði kaup á TM.
- Kaldalón og Iceland Seafood héldu víxlaútboð, Eik stækkaði áður útgefinn skuldabréfaflokk og Lánamál ríkisins birtu niðurstöðu viðbótarútgáfu.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









