Útflutningur í sókn en innflutningur líka

Á árunum fyrir heimsfaraldurinn sótti ferðaþjónustan hratt í sig veðrið og þó nokkur afgangur varð af þjónustuviðskiptum. Afgangurinn vó á móti halla á vöruviðskiptum og skilaði í heild töluverðum afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum.
Frá árinu 2020 hefur tvisvar mælst afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum, árin 2022 og 2023. Halli af vöruviðskiptum hefur nú aukist töluvert, sérstaklega frá árinu 2022 og afgangur af þjónustuviðskiptum hefur smám saman náð sér aftur á strik en ekki aukist að neinu ráði. Á sama tíma hefur innflutningur, bæði á vörum og þjónustu, færst í aukana. Því mælist nú almennt meiri halli á vöruviðskiptum en áður og minni afgangur af þjónustuviðskiptum.
Vöruútflutningur eykst - sérstaklega á áli og fiski
Þessi þróun hefur verið greinileg það sem af er þessu ári, sérstaklega í vöruviðskiptum, þar sem aldrei hefur mælst meiri halli en nú. Hallinn skýrist ekki af minni vöruútflutningi - hann hefur aukist í nær öllum vöruflokkum. Útflutningsverðmæti áls og álafurða hafa aukist mest, en þar hefur líklega mest áhrif að í fyrra dró úr framleiðslu vegna raforkuskerðinga. Í ár hefur ekkert þurft að grípa til skerðinga og sé tekið mið af stöðu miðlunarlóna, sem hefur sjaldan verið betri, eru litlar líkur á því út árið. Útflutningsverðmæti sjávarafurða hafa einnig aukist á árinu sem má að miklu leyti rekja til hærra verðs á botnfiski. Þannig hafa færri tonn af þorski verið flutt út á árinu en þrátt fyrir það skilað auknum útflutningsverðmætum. Þá hefur einnig verið kraftur í útflutningi á eldisfiski á árinu.
Athygli vekur að töluvert hefur hægt á útflutningi lyfja og lækningavara frá því í apríl á þessu ári, en frá ársbyrjun hafa þó útflutningsverðmæti aukist um rúmlega 13% á föstu gengi. Enn sem komið er hafa innflutningstollar ekki verið lagðir á lyfjainnflutning til Bandaríkjanna og stærstur hluti þeirra lækningavara sem Ísland flytur til Bandaríkjanna er einnig undanskilinn tollum (sjá nánari umfjöllun hér).
Methalli á vöruviðskiptum skýrist af innfluttum tölvubúnaði
Það sem skýrir aukinn vöruskiptahalla á síðustu mánuðum er aukinn vöruinnflutningur, sérstaklega á fjárfestingavörum, nánar tiltekið tölvubúnaði í tengslum við uppbyggingu gagnavera. Þessum innflutningi fylgir takmarkað gjaldeyrisflæði, vegna þess að tölvubúnaðurinn er keyptur erlendis af erlendum aðilum og fluttur hingað til lands. Ef ekki væri fyrir þennan aukna innflutning á tölvubúnaði er mjög líklegt að vöruskiptahalli væri í raun minni það sem af er þessu ári en í fyrra.
Aukin fjárfesting í gagnaverum ýtir undir framleiðslugetu í hagkerfinu. Þjónusta gagnavera hérlendis er að stórum hluta keypt frá útlöndum og því verður fróðlegt að fylgjast með þróun þjónustuútflutnings næstu misseri.
Kraftur í ferðaþjónustu það sem af er ári
Vandasamt er að leggja mat á stöðuna í þjónustuviðskiptum fyrr en ársfjórðungstölur Hagstofunnar eru birtar. Tölur fyrir fyrsta fjórðung sýndu lítillega aukinn þjónustuafgang, en það er samt þriðji ársfjórðungur sem sker úr um hversu mikill afgangur verður af þjónustuviðskiptum á árinu. Á þeim fjórðungi eru ferðamenn flestir og þjónustuútflutningur mestur. Flest bendir þó til aukins þjónustuútflutnings á árinu: kortavelta hefur aukist á milli ára og gistinóttum ferðamanna hefur fjölgað, þótt ferðamönnum hafi ekki fjölgað nema lítillega á árinu. Á sama tíma hafa Íslendingar aldrei ferðast jafnmikið til útlanda og á þessu ári og nýjar kortaveltutölur sýna að afgangur af kortaveltujöfnuði var minni í ár en í fyrra. Það sem af er ári er ennþá halli á greiðslukortajöfnuði, en síðustu tvö ár hefur kortaveltujöfnuðurinn verið jákvæður í júlímánuði. Hallinn skýrist af aukinni kortaveltu Íslendinga erlendis á þessu ári, því kortavelta ferðamanna innanlands hefur einnig aukist.
Metfjöldi ferðamanna í júlí
Rúmlega 300 þúsund ferðamenn komu til landsins í júlí samkvæmt talningu Ferðamálastofu, en ferðamenn hafa aldrei áður verið fleiri en 300 þúsund í einum mánuði. Það sem af er ári hefur ferðamönnum fjölgað um 1,4% frá því í fyrra.
Erlend kortavelta hefur aukist þó nokkuð, eða um 2,8% sé leiðrétt fyrir verðlagi, en um 16,7% sé leiðrétt fyrir gengi. Gistinóttum útlendinga á hótelum hefur líka fjölgað á árinu og í júní voru þær orðnar 5,4% fleiri það sem af er ári en á sama tíma í fyrra.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









