Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Út­flutn­ing­ur í sókn en inn­flutn­ing­ur líka

Vöruútflutningur frá Íslandi hefur aukist frá því í fyrra en samt hefur vöruskiptahalli aldrei verið meiri en nú. Þetta skýrist af stórauknum vöruinnflutningi, einkum á tölvubúnaði í tengslum við uppbyggingu gagnavera. Ferðaþjónustan hefur skilað auknum tekjum í ár en á móti hefur utanlandsferðum Íslendinga fjölgað og uppsafnaður kortaveltujöfnuður við útlönd var enn neikvæður í lok júlí.
Fólk við Geysi
19. ágúst 2025

Á árunum fyrir heimsfaraldurinn sótti ferðaþjónustan hratt í sig veðrið og þó nokkur afgangur varð af þjónustuviðskiptum. Afgangurinn vó á móti halla á vöruviðskiptum og skilaði í heild töluverðum afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum.

Frá árinu 2020 hefur tvisvar mælst afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum, árin 2022 og 2023. Halli af vöruviðskiptum hefur nú aukist töluvert, sérstaklega frá árinu 2022 og afgangur af þjónustuviðskiptum hefur smám saman náð sér aftur á strik en ekki aukist að neinu ráði. Á sama tíma hefur innflutningur, bæði á vörum og þjónustu, færst í aukana. Því mælist nú almennt meiri halli á vöruviðskiptum en áður og minni afgangur af þjónustuviðskiptum.

Vöruútflutningur eykst - sérstaklega á áli og fiski

Þessi þróun hefur verið greinileg það sem af er þessu ári, sérstaklega í vöruviðskiptum, þar sem aldrei hefur mælst meiri halli en nú. Hallinn skýrist ekki af minni vöruútflutningi - hann hefur aukist í nær öllum vöruflokkum. Útflutningsverðmæti áls og álafurða hafa aukist mest, en þar hefur líklega mest áhrif að í fyrra dró úr framleiðslu vegna raforkuskerðinga. Í ár hefur ekkert þurft að grípa til skerðinga og sé tekið mið af stöðu miðlunarlóna, sem hefur sjaldan verið betri, eru litlar líkur á því út árið. Útflutningsverðmæti sjávarafurða hafa einnig aukist á árinu sem má að miklu leyti rekja til hærra verðs á botnfiski. Þannig hafa færri tonn af þorski verið flutt út á árinu en þrátt fyrir það skilað auknum útflutningsverðmætum. Þá hefur einnig verið kraftur í útflutningi á eldisfiski á árinu.

Athygli vekur að töluvert hefur hægt á útflutningi lyfja og lækningavara frá því í apríl á þessu ári, en frá ársbyrjun hafa þó útflutningsverðmæti aukist um rúmlega 13% á föstu gengi. Enn sem komið er hafa innflutningstollar ekki verið lagðir á lyfjainnflutning til Bandaríkjanna og stærstur hluti þeirra lækningavara sem Ísland flytur til Bandaríkjanna er einnig undanskilinn tollum (sjá nánari umfjöllun hér).

Methalli á vöruviðskiptum skýrist af innfluttum tölvubúnaði

Það sem skýrir aukinn vöruskiptahalla á síðustu mánuðum er aukinn vöruinnflutningur, sérstaklega á fjárfestingavörum, nánar tiltekið tölvubúnaði í tengslum við uppbyggingu gagnavera. Þessum innflutningi fylgir takmarkað gjaldeyrisflæði, vegna þess að tölvubúnaðurinn er keyptur erlendis af erlendum aðilum og fluttur hingað til lands. Ef ekki væri fyrir þennan aukna innflutning á tölvubúnaði er mjög líklegt að vöruskiptahalli væri í raun minni það sem af er þessu ári en í fyrra.

Aukin fjárfesting í gagnaverum ýtir undir framleiðslugetu í hagkerfinu. Þjónusta gagnavera hérlendis er að stórum hluta keypt frá útlöndum og því verður fróðlegt að fylgjast með þróun þjónustuútflutnings næstu misseri. 

Kraftur í ferðaþjónustu það sem af er ári

Vandasamt er að leggja mat á stöðuna í þjónustuviðskiptum fyrr en ársfjórðungstölur Hagstofunnar eru birtar. Tölur fyrir fyrsta fjórðung sýndu lítillega aukinn þjónustuafgang, en það er samt þriðji ársfjórðungur sem sker úr um hversu mikill afgangur verður af þjónustuviðskiptum á árinu. Á þeim fjórðungi eru ferðamenn flestir og þjónustuútflutningur mestur. Flest bendir þó til aukins þjónustuútflutnings á árinu: kortavelta hefur aukist á milli ára og gistinóttum ferðamanna hefur fjölgað, þótt ferðamönnum hafi ekki fjölgað nema lítillega á árinu. Á sama tíma hafa Íslendingar aldrei ferðast jafnmikið til útlanda og á þessu ári og nýjar kortaveltutölur sýna að afgangur af kortaveltujöfnuði var minni í ár en í fyrra. Það sem af er ári er ennþá halli á greiðslukortajöfnuði, en síðustu tvö ár hefur kortaveltujöfnuðurinn verið jákvæður í júlímánuði. Hallinn skýrist af aukinni kortaveltu Íslendinga erlendis á þessu ári, því kortavelta ferðamanna innanlands hefur einnig aukist.

Metfjöldi ferðamanna í júlí

Rúmlega 300 þúsund ferðamenn komu til landsins í júlí samkvæmt talningu Ferðamálastofu, en ferðamenn hafa aldrei áður verið fleiri en 300 þúsund í einum mánuði. Það sem af er ári hefur ferðamönnum fjölgað um 1,4% frá því í fyrra.

Erlend kortavelta hefur aukist þó nokkuð, eða um 2,8% sé leiðrétt fyrir verðlagi, en um 16,7% sé leiðrétt fyrir gengi. Gistinóttum útlendinga á hótelum hefur líka fjölgað á árinu og í júní voru þær orðnar 5,4% fleiri það sem af er ári en á sama tíma í fyrra.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Litríkir bolir á fataslá
25. sept. 2025
Verðbólga eykst í takt við væntingar
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,11% á milli mánaða í september og verðbólga jókst úr 3,8% í 4,1%. Hækkunin skýrist að langmestu leyti af því að lækkunaráhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða duttu nú úr 12 mánaða taktinum. Fátt í septembermælingunni kom á óvart en við spáðum 0,07% hækkun á vísitölunni og 4,1% verðbólgu. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði áfram á þessu bili út árið og verði 4,0% í árslok.
Bílar
23. sept. 2025
Aukin neysla, aldrei jafnmargar utanlandsferðir og bílakaup færast í aukana
Greiðslukortavelta heimila heldur áfram að aukast samhliða aukinni einkaneyslu. Það sama má segja um utanlandsferðir Íslendinga en það sem af er ári hafa Íslendingar farið í rúmlega 20% fleiri utanlandsferðir en á sama tímabili í fyrra. Auk þess að fara meira til útlanda virðast landsmenn kaupa þó nokkuð fleiri bíla en í fyrra. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs voru nýskráðir bílar um 28% fleiri en á sama tíma í fyrra.
Íbúðahús
22. sept. 2025
Vikubyrjun 22. september 2025
Raunverð íbúða lækkaði á milli ára í ágúst, í fyrsta skipti frá því í byrjun árs 2024. Nafnverð íbúða hefur aðeins hækkað um 2,2% á einu ári og sífellt lengri tíma tekur að selja íbúðir. Leiguvísitalan hækkaði þó í ágúst og hækkandi leiguverð hefur með tímanum áhrif á verðbólgumælingar. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs næsta fimmtudag.
Fólk við Geysi
15. sept. 2025
Vikubyrjun 15. september 2025
Ferðamönnum hélt áfram að fjölga af krafti í ágúst og Íslendingar slógu enn eitt metið í fjölda utanlandsferða. Atvinnuleysi hélst óbreytt á milli mánaða í 3,4% og er lítillega meira en á sama tíma í fyrra. Í þessari viku birtir HMS nýjustu gögn um íbúðamarkað og við fylgjumst með vaxtaákvörðunum í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Bakarí
11. sept. 2025
Spáum 4,1% verðbólgu í september
Við spáum því að verðbólga aukist í september og mælist 4,1%. Aukin verðbólga skýrist aðallega af því að í september í fyrra voru máltíðir í grunnskólum gerðar ókeypis og lækkunaráhrifin af því detta nú út úr ársverðbólgunni. Verðhækkun á mjólkurafurðum leiðir til meiri hækkunar á matvöruverði en síðustu mánuði. Ró yfir húsnæðismarkaðnum heldur aftur af hækkunum á reiknaðri húsaleigu en útsölulok hafa áhrif til hækkunar í mánuðinum, gangi spáin eftir.
8. sept. 2025
Vikubyrjun 8. september 2025
Í þessari viku ber hæst  útgáfu á tölum um fjölda ferðamanna í ágúst og skráð atvinnuleysi. Í síðustu viku birti Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar þar sem fram kom að allir nefndarmenn hefðu verið sammála um að halda vöxtum óbreyttum í ágúst. Þá birti Seðlabankinn einnig tölur um greiðslujöfnuð við útlönd sem gáfu til kynna mun meiri halla á viðskiptum við útlönd á öðrum fjórðungi þessa árs en þess síðasta.
1. sept. 2025
Mánaðamót 1. september 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
1. sept. 2025
Vikubyrjun 1. september 2025
Verðbólga hjaðnaði óvænt úr 4,0% í 3,8% í ágúst. Hagstofan áætlar að hagkerfið hafi dregist saman um 1,9% á öðrum ársfjórðungi. Gistinóttum fjölgaði alls um 16,5% á milli ára í júlí. Í vikunni birtir Seðlabankinn viðskiptajöfnuð við útlönd og fundargerð peningastefnunefndar.
Flugvél
28. ágúst 2025
Verðbólga hjaðnar þvert á væntingar
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,15% á milli mánaða í ágúst og verðbólga hjaðnaði úr 4,0% í 3,8%. Hjöðnun á milli mánaða kemur ánægjulega á óvart en við spáðum 0,07% hækkun á vísitölunni og óbreyttri verðbólgu. Við gerum nú ráð fyrir að verðbólga verði 3,8% í árslok, að stærstum hluta vegna lægri mælingar nú en við spáðum áður.
Seðlabanki Íslands
25. ágúst 2025
Vikubyrjun 25. ágúst 2025
Seðlabanki Íslands hélt stýrivöxtum óbreyttum í 7,50% í síðustu viku og allir nefndarmenn studdu ákvörðunina. Vísitala íbúðaverðs hefur hækkað um 4,2% á síðasta árinu, en í janúar var árshækkunin 10,4%. Í vikunni birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir ágústmánuð og þjóðhagsreikninga fyrir annan ársfjórðung.