Aukinn kaupmáttur, meiri neysla og fleiri utanlandsferðir

Greiðslukortavelta landsmanna var 3,1% meiri núna í júní en í júní í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Þá dróst kortavelta innanlands saman um 0,3% að raunvirði á milli ára en erlendis jókst hún um 14,6% á föstu gengi.
Verulega aukin kortavelta Íslendinga erlendis helst í hendur við verulega fjölgun utanlandsferða á þessu ári. Það sem af er ári hafa utanlandsferðir Íslendinga verið um 22% fleiri en á sama tíma í fyrra. Í júlímánuði voru utanlandsferðir Íslendinga um 6% fleiri en í júlí í fyrra. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að kortavelta Íslendinga erlendis kemur bæði frá kortum sem eru notuð á ferðalögum til útlanda en einnig í erlendri netverslun.
Heildarkortaveltan eykst á milli ára
Heildarkortavelta hefur aukist á milli ára í hverjum einasta mánuði sem af er ári, á fyrstu sex mánuðum ársins er heildarkortaveltan um 5% meiri en á sama tímabili árið 2024. Þróun kortaveltu gefur gjarnan góða vísbendingu um þróun einkaneyslu, þótt kortaveltan sveiflist þó nokkuð meira. Undanfarið hefur kortavelta aukist „á mann“, þar sem kortavelta hefur aukist umfram fjölgun landsmanna á síðustu mánuðum.
Þótt neysla aukist og utanlandsferðum fjölgi virðast heimili landsins að jafnaði ekki hafa gengið verulega á sparnað. Innlán heimilanna halda áfram að aukast að raunvirði og samhliða virðist tiltölulega lítið um yfirdrátt.
Laun hækka og kaupmáttur eykst
Neysluaukningin er athyglisverð í ljósi hás vaxtastigs en skýrist líklega að miklu leyti af vaxandi kaupmætti. Launavísitalan hefur hækkað um 8,1% á síðustu tólf mánuðum, þó nokkuð umfram verðlagshækkanir. Í júní var kaupmáttur 4,9% meiri en í júní í fyrra. Síðustu misseri hefur hækkunartakturinn þó róast smám saman en í lok árs 2022 fór tólf mánaða hækkunin yfir 12%.
Minnkandi spenna á vinnumarkaði
Þótt laun haldi áfram að hækka umfram verðlag má greina merki um að eftirspurn eftir starfsfólki hafi farið dvínandi. Þetta má til dæmis lesa út úr könnun meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækjanna sem telja sífellt minni vöntun á starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði. Nú segjast 18,5% svarenda telja vanta starfsfólk og hlutfallið hefur ekki verið jafn lágt síðan í byrjun árs 2021. Til samanburðar var hlutfallið í kringum 54% um mitt ár 2022.
Á síðasta ári var skráð atvinnuleysi að meðaltali 3,5%, það sem af er þessi ári hefur meðaltalið verið 4,0%. Á þessu ári hefur atvinnuleysi verið 0,3-0,4 prósentustigum yfir því sem það var í fyrra. Þannig ber það þess merki að lítillega hafi slaknað á spennu á markaðnum en þó fer því fjarri að spennan sé á hröðu undanhaldi.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









