Vikubyrjun 11. ágúst 2025

Vikan framundan
- Í dag birtir Ferðamálastofa gögn um brottfarir um Keflavíkurflugvöll og Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi í júlí.
- Á þriðjudag verða birtar verðbólgutölur í Bandaríkjunum.
- Á miðvikudag birta Alvotech, Eik og Kvika banki uppgjör.
- Á fimmtudag birta Amaroq, Nova og SKEL fjárfestingafélag uppgjör.
- Á föstudag birtir Seðlabankinn greiðslumiðlun og niðurstöður úr væntingarkönnun markaðsaðila.
- Verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs í ágúst fara fram í vikunni, en talan verður birt fimmtudaginn 28. ágúst.
Mynd vikunnar
Þótt gjarnan sé talað um nafngengi dags daglega þá er það raungengið sem í raun skiptir máli. Raungengi er nafngengi að teknu tilliti til verðlags á viðskiptasvæðum þeirra gjaldmiðla sem um ræðir. Þannig endurspeglar raungengi krónunnar hversu dýrt það er fyrir erlenda ferðamenn að koma hingað til lands og hversu dýrar innfluttar vörur eru hér á landi. Raungengi íslensku krónunnar hefur hækkað mikið upp á síðkastið og er nú mjög hátt í sögulegu samhengi. Raungengið hefur einungis þrisvar sinnum mælst hærra frá síðustu aldamótum, en í hvert sinn hefur það lækkað nokkuð skarpt í kjölfarið. Ólíklegt er að þetta háa raungengi sé sjálfbært til lengri tíma, en ómögulegt er að segja til um hvenær eða hversu mikið það gefur eftir. Ef raungengið veikist í gegnum veikingu nafngengis er hætta á auknum verðbólguþrýstingi, en á móti myndi veikara gengi styrkja stöðu útflutningsgreinanna.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Nýir innflutningstollar á innfluttar vörur tóku gildi í Bandaríkjunum í síðustu viku. Almennt er nú 15% tollur á íslenskan vöruútflutning til Bandaríkjanna en stór hluti varanna er undanþeginn tollum, að minnsta kosti enn sem komið er, svo sem lyf og ýmsar lækningarvörur. Við fjölluðum um undanþágurnar í hagsjá í maí.
- Hallinn á vöruskiptajöfnuði mældist 44,2 ma. kr. í júlí. Hallinn var um 10 ma. kr. meiri en í júlí í fyrra. Vöruinnflutningur var svipaður og í fyrra, en meiri halli á vöruskiptajöfnuði skýrist af minni vöruútflutningi. Útflutningur á áli og álafurðum dróst saman á milli ára og það sama gildir um útflutning á lyfjum og lækningarvörum. Breyting á innflutningi á milli ára skýrist aðallega af auknum innflutningi á fjárfestingarvörum.
- Matsfyrirtækið Fitch breytti horfur um lánshæfi ríkissjóðs úr stöðugum í jákvæðar.
- Peningastefnunefnd Englandsbanka lækkaði vexti um 0,25 prósentur. Það var ekki einhugur í nefndinni, en fjórir af níu nefndarmönnum greiddu atkvæðu með því að halda vöxtum óbreyttum.
- JBT Marel birti uppgjör fyrir 2F og ákvörðun um arðgreiðslu. Play birti uppgjör fyrir 2F og flutningstölur fyrir júlí. Icelandair birti flutningstölur fyrir júlí. Íslandsbanki gekk frá kaupréttaráætlun fyrir starfsfólk.
- Lánasjóður sveitarfélaga hélt skuldabréfaútboð. Lánamál ríkisins hélt útboð ríkisbréfa.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









