Vikan framundan
- Á þriðjudag kynnir Ferðamálastofa skýrslu um fjárhags- og rekstrargreiningu íslenskrar ferðaþjónustu fyrir 2020 og 2021.
- Á föstudag birtir Seðlabankinn útreikning á raungengi í desember ásamt tölum um veltu á millibankamarkaði með gjaldeyri.
Mynd vikunnar
Óhætt er að segja að árið 2021 hafi verið mjög gott á hlutabréfamörkuðum víðast hvar í heiminum. Hér á landi var ávöxtun OMXI10 (þ.e. hækkun undirliggjandi hlutabréfa ásamt arðgreiðslum) rétt undir 35%. Í Bandaríkjadölum var ávöxtun OMXI10 aðeins minni, eða um 32%. Þetta er nokkuð betri ávöxtun en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Ávöxtun bæði S&P 500 og Nasdaq 100 í Bandaríkjunum var rétt um 30%, en þar voru það örfá mjög stór tæknifyrirtæki sem drógu hækkunina áfram.
Efnahagsmál
- Hagdeild HMS birti greiningu á húsnæðismarkaðnum milli jóla og nýárs. Samkvæmt tölum HMS seldust 44% íbúða yfir ásettu verð í nóvember sem hefur aldrei mælst hærra. Auglýstum eignum er að fækka og voru rétt fyrir jól um fjórðungur af því sem var í lok maí.
- Fjárlög ársins 2022 voru samþykkt rétt fyrir áramót.
- Þjóðskrá birti upplýsingar um veltu á fasteignamarkaði í nóvember.
Fjármálamarkaðir
- Lánamál ríkisins birtu ársáætlun fyrir 2022, ársfjórðungsáætlun fyrir 1. ársfjórðung og stefnu fyrir árin 2022-2026. Heildarútgáfa ríkisbréfa í ár er áætluð 160 ma. kr. Útgáfa umfram gjaldaga er 65 ma. kr. í samanburði við 52 ma. kr. í fyrra. Samkvæmt áætluninni er stefnan að lengja í útgáfu ríkissjóðs, en gefin verður út nýr óverðtryggður flokkur á gjalddaga 2042 og nýr verðtryggður flokkur á gjalddaga 2037.
- Landsbankinn birti útgáfuáætlun fyrir 2022. Áætluð útgáfa sértryggðra bréfa í ár er 34-39 ma. kr.