Við spáum því að verðbólga hjaðni og verði komin niður í 5,5% á fjórða fjórðungi þessa árs. Vaxtalækkunarferli teljum við að muni hefjast í október og búumst við því að umsvif í hagkerfinu aukist smám saman eftir því sem vaxtastigið fer lækkandi.
Vikan framundan
- Í dag birtir Marel uppgjör.
- Á þriðjudag birtir Eurostat verðbólgu í apríl og þjóðhagsreikninga fyrir fyrsta ársfjórðung á evrusvæðinu. Arion banki birtir uppgjör.
- Á miðvikudag tilkynnir Seðlabanki Bandaríkjanna um vaxtaákvörðun.
- Á fimmtudag birtir Seðlabankinn niðurstöður úr könnun á væntingum markaðsaðilum. Eik fasteignafélag, Íslandsbanki, Kvika banki og Landsbankinn birta uppgjör.
- Á föstudag verða birt gögn yfir atvinnuleysi í Bandaríkjunum.
Myndir vikunnar
Við spáum því í nýútgefinni hagspá að hagkerfið haldi áfram að vaxa þrátt fyrir að stýrivextir verði óbreyttir í 9,25% fram í október. Hagvöxtur verður þó takmarkaður á næstu árum, aðeins 0,9% í ár, 2,2% á næsta ári og 2,6% árið 2026. Einkaneysla og fjárfesting aukast hóflega og ferðamönnum fjölgar mun minna en fyrst eftir að faraldrinum linnti. Hagkerfið hefur sýnt seiglu á síðustu mánuðum og verðbólga reynst þrálát. Við teljum því að stýrivextir verði ekki lækkaðir fyrr en í haust.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,55% milli mánaða í apríl og við það lækkaði ársverðbólga úr 6,8% í 6,0%. Verðbólga hjaðnaði örlítið meira en við gerðum ráð fyrir, en við spáðum 0,61% hækkun á milli mánaða og að ársverðbólgan færi í 6,1%. Í þetta sinn höfðu tveir undirliðir langmest áhrif á mælinguna og skýra 95% af hækkun vísitölunnar á milli mánaða: reiknuð húsaleiga og flugfargjöld til útlanda. Við teljum að verðbólgan haldist í kringum 6% næstu þrjá mánuði.
- Hagvöxtur mældist 1,6% á milli ársfjórðunga (á ársgrundvelli) í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi.
- Festi (fjárfestakynning), Fly Play, Hagar (fjárfestakynning), Icelandair (fjárfestakynning) og Síminn birtu uppgjör. Sýn birti afkomuviðvörun.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).