Vikan framundan
- Í dag birtir Hagstofan vísitölu launa.
- Á þriðjudag birtir Síminn uppgjör fyrir 1F.
- Á miðvikudag birtir Nova uppgjör fyrir 1F.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir apríl. Við gerum ráð fyrir að verðbólgan lækki úr 9,8% í 9,5%. Hagar birta uppgjör fyrir rekstrarárið 2022/23 Icelandair og Play birta uppgjör fyrir 1F.
Mynd vikunnar
Fyrr í dag birtum við þjóðhags- og verðbólguspá. Við eigum von á að hagvöxtur verði 3,2% á þessu ári. Horfur í ferðaþjónustu eru bjartar og innlend eftirspurn mælist sterk. Við teljum að verðbólga hafi náð hámarki en hjaðni hægt og mælist enn yfir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, eða 4,5%, í lok spátímabilsins. Seðlabankinn mun þurfa að halda áfram að hækka vexti, og gerum við ráð fyrir að stýrivextir nái hámarki í 8,5% og fari ekki að lækka fyrr en á öðrum fjórðungi næsta árs.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala íbúðaverðs hækkaði óvænt um 1,5% milli mánaða í mars, en svo mikið hefur hún ekki hækkað síðan í júní í fyrra sem var áður en Seðlabankinn herti lánþegaskilyrði og hækkaði vexti verulega. Fjölbýli hækkaði um 1% milli mánaða og sérbýli um 3,4%. Vegin árshækkun vísitölu íbúðaverðs mælist nú 10,7% og lækkar milli mánaða þrátt fyrir þessa hækkun, en það skýrist af því að vísitalan hækkaði enn meira milli mánaða í mars í fyrra. Árshækkun fjölbýlis mælist nú 11% og sérbýlis 10,6%. Vísitala leiguverðs hækkaði um 0,8% milli mánaða.
- Ferðamálastofa birti samantekt úr könnun Evrópska ferðamálaráðsins meðal Evrópubúa um ferðaáform og Hagstofan birti skammtímahagvísa ferðaþjónustu.
- Af skuldabréfamarkaði var helst að frétta að Síminn hélt útboð á víxlum og Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum.
- Ölgerðin birti ársuppgjör fyrir rekstrarárið 2022/2023.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








