Spá­um að verð­bólga lækki í 9,5% í apríl

Hagstofan birtir aprílmælingu vísitölu neysluverðs fimmtudaginn 27. apríl næstkomandi. Við spáum því að vísitalan hækki um 1% milli mánaða og að ársverðbólgan lækki úr 9,8% í 9,5%. Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir að verðbólga lækki, þótt það gerist hægt, og fari niður fyrir 8% í júlí.
19. apríl 2023

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59% milli mánaða í mars sem var aðeins minna en við höfðum spáð. Ársverðbólga dróst saman, úr 10,2% í 9,8%. Smávægileg breyting varð á samsetningu verðbólgunnar milli mánaða í mars, en framlag bensíns og húsnæðis lækkaði á meðan framlag þjónustu hækkaði.

Vísitalan hækki um 1% milli mánaða og ársverðbólga lækki í 9,5%

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 1% milli mánaða í apríl. Gangi sú spá eftir mun ársverðbólga lækka úr 9,8% í 9,5%. Að þessu sinni eru það sex undirliðir sem hafa mest áhrif: Matarkarfan, reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda og liðurinn „húsgögn, heimilisbúnaður o.fl.“ til hækkunar en verð á nýjum bílum og dælueldsneyti til lækkunnar.

Matarkarfan hækkar

Verðlagsnefnd búvara tilkynnti í lok mars um hækkun heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða, en sú hækkun tók gildi 1. apríl. Samkvæmt verðkönnun okkar hækkaði verð á mjólk og mjólkurafurðum um 5,5% milli verðkönnunarvikna og eru áhrif þess á matarkörfuna 1,1 prósentustig til hækkunar. Auk þess virðast brauð og kornmeti, kjöt, fiskur og kaffi hafa hækkað nokkuð milli mánaða samkvæmt okkar athugun og gerum við ráð fyrir að heildarhækkun á mat og drykkjarvöru verði 2% núna í apríl.

Verðlækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði gengur til baka

Liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkaði um 1,7% milli mánaða í mars. Þetta er sá liður sem kom okkur mest á óvart í marsmælingunni. Mesta lækkunin var á sængurfatnaði og handklæðum sem lækkuðu um 10,3% milli mánaða, sem útskýrist líklega af tilboðum sem voru í verðsöfnunarvikunni. Við teljum að þessi áhrif gangi nú til baka og að liðurinn hækki um 1,5% milli mánaða (0,09% áhrif á VNV) í apríl.

Bensín og nýir bílar lækka, flugfargjöld hækka

Verðkönnun okkar bendir til þess að verð á bensíni og díselolíu lækki um 1,9% milli mánaða í apríl (-0,07% áhrif til lækkunar á vístölunni) en tilkynnt hefur verið um verðlækkun á nýjum bílum í einstaka tilfellum og gerum við því ráð fyrir að liðurinn kaup ökutækja lækki um 3% milli mánaða (-0,19% áhrif til lækkunar). Flugfargjöld til útlanda hækka venjulega í kringum páska og við spáum 16% hækkun milli mánaða (0,28% áhrif til hækkunar). Alls gerum við ráð fyrir að liðurinn ferðir og flutningar verði 0,03% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Þó er gott að hafa í huga að þessir liðir, og þá sérstaklega flugfargjöld til útlanda, sveiflast mjög mikið milli mánaða.

Óvenju mikil hækkun íbúðaverðs hefur áhrif

Samkvæmt nýútgefnum tölum HMS hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,5% á milli mánaða í mars. Það er óvenjumikil breyting miðað við síðustu mánuði, eða mesta hækkun síðan í júní í fyrra og mun að líkindum hafa áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs.

Reiknaður kostnaður þess að búa í eigin húsnæði, þ.e. reiknuð húsaleiga, sem er sá liður sem Hagstofan mælir, samanstendur af íbúðaverði á landinu öllu, afskriftum ásamt framlagi vaxtabreytinga. Við spáum því að hækkun íbúðaverðs á landinu öllu eins og hún birtist í reiknaðri húsaleigu verði um 1,2% á milli mánaða og að áhrif vaxta verði 0,9 prósentustig til hækkunar. Liðurinn hækki því um 2,1%, sem yrði mikil breyting frá síðasta mánuði þegar liðurinn í heild hækkaði um 0,8%, en þar af voru áhrif vaxta 0,7 prósentustig og hækkun húsnæðisverðs 0,1 prósentustig.

Spá um aprílmælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 15,40% 2,00% 0,31%
Áfengi og tóbak 2,50% 0,20% 0,00%
Föt og skór 3,40% 0,20% 0,01%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 10,30% 0,40% 0,04%
- Reiknuð húsaleiga 19,70% 2,10% 0,41%
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 6,30% 1,50% 0,09%
Heilsa 3,70% 0,70% 0,02%
Ferðir og flutningar (annað) 3,90% 0,00% 0,00%
- Kaup ökutækja 6,20% -3,00% -0,19%
- Bensín og díselolía 3,60% -1,90% -0,07%
- Flugfargjöld til útlanda 1,80% 16,00% 0,28%
Póstur og sími 1,50% -0,60% -0,01%
Tómstundir og menning 9,10% 0,10% 0,01%
Menntun 0,70% 0,00% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 5,00% 0,60% 0,03%
Aðrar vörur og þjónusta 6,90% 0,70% 0,05%
Alls 100,0%   1,00%

Verðbólga undir 8% í júlí

Spá okkar um 9,5% verðbólgu í apríl er óbreytt frá síðustu spá sem við birtum í lok mars. Samsetning hækkunarinnar breytist aðeins á milli spáa. Við eigum núna von á meiri hækkun á mat og drykkjarvöru og reiknaðri húsaleigu en aftur á móti lækkun á verði nýrra bíla og dælueldsneyti. Spá okkar til næstu tveggja mánaða er lítillega hærri en síðasta spá og spilar þar inn í hærra verð á íbúðarhúsnæði. Við gerum núna ráð fyrir 9,2% verðbólgu maí, 8,6% í júní og 7,7% í júlí.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Gata í Reykjavík
22. feb. 2024
Vísitala íbúðaverðs hækkar áfram örlítið milli mánaða
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,4% á milli mánaða í janúar. Sérbýli hækkaði um 0,1% og fjölbýli um 0,4%. Raunverð íbúða er nokkurn veginn það sama og fyrir einu ári. Undirrituðum kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði á milli ára síðustu fjóra mánuði eftir að hafa fækkað sífellt frá miðju ári 2021.
Bátur
19. feb. 2024
Vikubyrjun 19. febrúar 2024
Nokkur breyting hefur orðið á samsetningu vinnumarkaðarins hér á landi frá árinu 1991. Stjórnendum, sérfræðingum, sérmenntuðu starfsfólki, þjónustu- og verslunarfólki hefur fjölgað verulega á sama tíma og skrifstofufólki, bændum og fiskveiðifólki hefur fækkað.
Peningaseðlar
15. feb. 2024
Spáum áframhaldandi hjöðnun í febrúar: Úr 6,7% í 6,1%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,89% milli mánaða í febrúar og að ársverðbólga hjaðni úr 6,7% í 6,1%. Útsölulok munu hafa mest áhrif til hækkunar á milli mánaða í febrúar, samkvæmt spánni. Þá koma gjaldskrárhækkanir á sorphirðu, fráveitu og köldu vatni inn í mælingar nú í febrúar. Lægri flugfargjöld til útlanda vega þyngst á móti hækkunum, gangi spáin eftir.
Flugvél
12. feb. 2024
Ferðamenn dvelja skemur og eyða færri krónum
Um 131 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í janúar. Þeir voru fleiri en í janúar í fyrra en færri en árin fyrir faraldur. Fjórði ársfjórðungur síðasta árs var sá fjölmennasti frá upphafi.
Smiður
12. feb. 2024
Vikubyrjun 12. febrúar 2024
Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs voru fleiri atvinnulausir á Íslandi en sem nam lausum störfum. Því var öfugt farið um mitt ár 2022 þegar spennan á vinnumarkaði var sem mest og fyrirtæki kepptust um starfsfólk. Þessi viðsnúningur er eitt merki þess að tekið sé að draga út spennu á vinnumarkaði, ekki síst vegna aukins peningalegs aðhalds.
Hús í Reykjavík
9. feb. 2024
Meirihluti útistandandi íbúðalána nú verðtryggður
Hátt vaxtastig hefur breytt samsetningu íbúðalána til heimila. Meirihluti útistandandi íbúðalána heimila er nú verðtryggður, en heimili hafa frá byrjun síðasta árs í auknum mæli fært sig úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð. Hrein ný íbúðalán banka og lífeyrissjóða hafa aukist frá miðju síðasta ári en drógust nú saman milli mánaða í desember.
5. feb. 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - janúar 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Mynt 100 kr.
5. feb. 2024
Vikubyrjun 5. febrúar 2024
Verðbólga hefur hjaðnað síðustu mánuði, en auk þess hefur hlutfall undirliða sem hafa hækkað um meira en 10% á undanförnum 12 mánuðum fækkað.
2. feb. 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 2. febrúar 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
1. feb. 2024
Spáum óbreyttu vaxtastigi í næstu viku
Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands haldi meginvöxtum bankans óbreyttum í 9,25% í næstu viku. Þótt verðbólgan fari hjaðnandi og flestir hagvísar bendi í rétta átt teljum við ólíklegt að nefndin telji tímabært að lækka vexti. Við búumst frekar við að nefndin stígi varlega til jarðar og bíði eftir auknum slaka í þjóðarbúinu, ekki síst vegna óvissu í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður og viðbrögð stjórnvalda við hamförunum í Grindavík.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur