Vikubyrjun 22. september 2025

Vikan framundan
- Á morgun birtir Hagstofan vísitölu launa í ágúst.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og gefur út fjármálastöðugleikaskýrslu.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir september. Við gerum ráð fyrir að verðbólga aukist úr 3,8% í 4,1%.
Mynd vikunnar
Áfram virðist rólegt yfir íbúðamarkaði og í ágúst var raunverð íbúða lægra en í ágúst í fyrra. Ein birtingarmynd lækkandi hitastigs á íbúðamarkaði er sífellt lengri sölutími íbúða. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) reiknar út birgðatíma íbúða, þ.e. þann tíma sem tæki að selja þær íbúðir sem eru í sölu í hverjum mánuði ef salan tæki jafn langan tíma og mánuðinn á undan. Viðmiðið er að sé birgðatími styttri en fjórir mánuðir sé markaðurinn á valdi seljenda en birgðatími lengri en sex mánuðir merki að markaðurinn sé á valdi kaupenda. Samkvæmt HMS var birgðatími nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu tæplega 17 mánuðir í ágúst, mun lengri en birgðatími eldri íbúða, sem nam tæplega þremur mánuðum. Þannig má segja að markaður með nýjar íbúðir sé á valdi kaupenda en markaður með eldri íbúðir sé á valdi seljenda.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,54% á milli mánaða í ágúst. Árshækkun íbúðaverðs nam 2,2% í ágúst og hefur ekki verið minni síðan í september 2023. Íbúðaverðshækkanir á ársgrundvelli eru nú minni en hækkanir á almennu verðlagi, sem þýðir að raunverðið hefur lækkað á milli ára. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs umfram VNV án húsnæðis er nú -0,6% en var 7,2% í byrjun árs.
- Greiðslukortavelta heimila heldur áfram að aukast og var 3% meiri í ágúst en í ágúst í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Eins og síðustu mánuði jókst kortavelta erlendis verulega (um 16,4% á milli ára) en í þetta sinn dróst kortavelta innanlands örlítið saman (um 0,6% á milli ára). Kortavelta erlendra greiðslukorta hér á landi jókst um 2,2% á föstu verðlagi (VNV) á milli ára í ágúst og á föstu gengi jókst kortaveltan um 14,4% (GVT). Erlendum ferðamönnum um Keflavík fjölgaði um 10,6% á milli ára í ágúst. Kortavelta á hvern ferðamenn var því aðeins minni en í fyrra.
- Vísitala leiguverðs hækkaði um 0,32% á milli mánaða í ágúst. Tólf mánaða hækkun vísitölunnar nemur nú 6,7%.
- Verðbólga í Bretlandi hélst óbreytt á milli mánaða í 3,8%. Mælingarnar voru í takt við væntingar.
- Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði vexti um 0,25 prósentustig og stýrivextir standa nú í 4,0-4,25%. Lækkunin var í takt við væntingar. Peningastefnunefnd Englandsbanka hélt vöxtum óbreyttum í 4,0%.
- Hafnarfjarðarkaupstaður lauk sölu á skuldabréfum. Íslandsbanki hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum, ásamt skiptiútboði. Lánamál ríkisins lauk sölu á ríkisbréfum og ríkisvíxlum. Lánasjóður sveitarfélaga lauk sölu á skuldabréfum. Ölgerðin Egill Skallagrímsson hélt útboð á víxlum.
- Norðurþing og Hafnarfjarðarkaupstaður birtu uppgjör.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









