Erlendis þá bárust verðbólgutölur frá Bretlandi sem sýndu óbreytta verðbólgu og evrópski Seðlabankinn ákvað að halda vöxtum á evrusvæðinu óbreyttum. Í þessari viku birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir júlímánuð og það verða nokkur uppgjör birt.
Vikan framundan
- Á morgun birtir Össur árshlutauppgjör.
- Á miðvikudag birtir Hagstofan verðbólgutölur, við spáum því að verðbólga aukist lítillega og verði 5,9%. Marel birtir árshlutauppgjör.
- Á fimmtudag birta Arion banki, Íslandsbanki og Play árshlutauppgjör.
Mynd vikunnar
Greiðslukortavelta íslenskra heimila dróst saman um 1,8% milli ára innanland í júní miðað við fast verðlag, erlendis jókst hún um 4,8% miðað við fast gengi. Alls dróst kortavelta íslenskra heimila saman um 0,4% milli ára að raunvirði. Þróunin upp á síðkastið er slík að það mælist samdráttur í kortaveltu innanlands, á sama tíma og kortavelta erlendis hefur ýmist staðið í stað eða aukist. Þetta er merki um að neysla Íslendinga sé í auknum mæli að færast út fyrri landssteinana, til að mynda í gegnum ferðalög, netverslun og þjónustu streymisveita. Rúmlega 20% af kortaveltu heimilanna fer núna fram erlendis.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Í síðustu viku birti HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu hagdeildar. Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% á milli mánaða í júní og er árshækkunin nú 9,1%, en svo mikil hefur hún ekki verið síðan í febrúar 2023. Leiguverð hækkaði einnig á milli mánaða í júní, alls um 2,5%, og er árshækkun leiguverðs nú 13%. Mikil velta var á íbúðamarkaði í júní og eru merki um að nokkur spenna sé nú á íbúðamarkaði.
- AGS birti reglubundna úttekt á efnahagslífi landsins. Sjóðurinn er nokkuð bjartsýnn á framvindu næstu árin, hvað verðbólgu- og hagvaxtarþróun varðar. Hann á von á að verðbólga verði komin niður í 5,1% í lok þessa árs og 2,6% í lok næsta árs, en sjóðurinn gerir ekki ráð fyrir vaxtalækkun í ár. Hann spáir 1,2% hagvexti í ár og 2,4% á næsta ári.
- Verðbólga í Bretlandi mældist 2,0% í júní og var óbreytt milli mánaða. Mælingin var aðeins hærri en greinendur áttu von á og styrktist sterlingspundið í kjölfarið. Það sem veldur mestum áhyggjum í mælingunni er að árshækkun þjónustu er enn nokkuð há, eða 5,7%. Þetta dregur úr líkunum á vaxtalækkun í ágúst.
- Evrópski seðlabankinn ákvað að halda vöxtum á evrusvæðinu óbreyttum, sem var í samræmi við væntingar. Seðlabankastjóri vildi ekki útiloka vaxtalækkun í september, en sagði að sú ákvörðun myndi byggjast á þeim gögnum sem berast í millitíðinni. Evran veiktist miðað við Bandaríkjadal í kjölfar ákvörðunarinnar.
- Landsbankinn, Icelandair (fjárfestakynning) og Sjóvá birtu uppgjör fyrir 2. ársfjórðung.
- Lánamál ríkisins luku útboð á ríkisbréfum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).