Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Hagstofan vísitölu launa fyrir febrúar.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn sinni fyrir febrúar.
Mynd vikunnar
Veruleg aukning varð í fyrra og í ár á framvirkum gjaldeyrissamningum, þ.e. samningum þar sem viðskiptavinir skuldbinda sig til þess að kaupa eða selja gjaldeyri af banka í framtíðinni á fyrirfram ákveðnu gengi. Hrein framvirk staða viðskiptabankanna var í lok febrúar jákvæð um 140 milljarða króna sem þýðir að viðskiptavinir bankanna hafa selt gjaldeyri framvirkt fyrir 140 milljarð króna umfram það sem þeir hafa keypt framvirkt. Viðskiptavinur gæti selt gjaldeyri framvirkt ef hann á von á að fá tekjur í erlendum gjaldeyri í framtíðinni og vill verja sig gegn því að krónan styrkist í millitíðinni með þeim afleiðingum að færri krónur fáist fyrir erlenda gjaldeyrinn þegar hann kemur í hús. Einnig getur viðskiptavinur selt gjaldeyri framvirkt ef hann vill taka stöðu með krónunni, þ.e. hann á von á að hún styrkist.
Efnahagsmál
- Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 2,5% milli mánaða í febrúar. Árshækkun vísitölunnar er 22,5%, þar af er árshækkun fjölbýlis 21,4% og sérbýlis 26,8%. Vísitala leiguverðs hækkaði um 0,9% milli mánaða og er árshækkun hennar 8,4%.
- Greiðslukortavelta Íslendinga jókst um 10% milli ára að raunvirði í febrúar. Aukning í neyslu milli ára var eingöngu vegna aukinnar neyslu hjá erlendum söluaðilum, sem tvöfaldaðist milli ára.
- Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna marsmælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana þriðjudaginn 29. mars. Við spáum því að vísitalan hækki um 1,0% milli mánaða og að ársverðbólgan hækki úr 6,2% í 6,8%.
- Seðlabankinn birti í síðustu viku yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og fyrri fjármálastöðugleikaskýrslu ársins.
- Hagstofan birti niðurstöðu úr lífskjararannsókn sinni fyrir 2021.
- Hagdeild HMS birti mánaðarskýrslu.
- Fitch Ratings staðfesti A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Matsfyrirtækið færði horfur í stöðugar úr neikvæðum.
Fjármálamarkaðir
- Eimskip, Iceland Seafood og Marel birtu ársskýrslur.
- Landsbankinn lauk útboði sértryggðra skuldabréfa, Lánasjóður sveitarfélaga lauk skuldabréfaútboði og Lánamál ríkisins luku útboði ríkisbréfa.
Hagtölur og markaðsupplýsingar









