Vikubyrjun 18. nóvember 2024
Vikan framundan
- Á morgun birtir HMS vísitölu íbúðaverðs fyrir október.
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Íslands. Við eigum von á 0,50 prósentustiga lækkun. Seðlabankinn birtir nóvemberhefti Peningamála með nýrri hagspá, Iceland Seafood birtir uppgjör, HMS birtir vísitölu leiguverðs og það koma verðbólgutölur frá Bretlandi.
- Á fimmtudag birta Brim, Hampiðjan og Síldarvinnslan uppgjör.
- Á föstudag birtir Hagstofan vísitölu launa fyrir október.
Mynd vikunnar
Alls nam greiðslukortavelta íslenskra heimila 124,4 mö.kr. í október og jókst um 6,8% á milli ára, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Innanlands jókst kortavelta íslenskra heimila um 2,7% að raunvirði og erlendis jókst hún um 21,9% á föstu gengi, sé miðað við októbermánuð í fyrra. Í síðasta mánuði virtist farið að hægja á kortaveltu þar sem hún dróst saman innanlands og jókst þó nokkuð minna í heildina en mánuðina á undan. Gögnin virðast vera á mikilli hreyfingu og því förum við varlega í að lesa í sveiflur einstaka mánuði. Áfram ber þó að hafa í huga að heimilin virðast að jafnaði hafa innistæðu til neyslu, innlán hafa aukist og yfirdráttur heimila hefur smám saman dregist saman. Þá verður forvitnilegt að fylgjast með hversu hratt vaxtalækkanir blása lífi í eftirspurn, þótt vaxtastigið sé enn himinhátt.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Við spáum því að verðbólga hjaðni úr 5,1% í 4,5% í nóvember, en Hagstofan birtir nóvembermælingu vísitölu neysluverðs fimmtudaginn 28. nóvember. Flugfargjöld til útlanda og reiknuð húsaleiga koma til lækkunar að þessu sinni, en raforkuverð til hækkunar. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,5% í febrúar á næsta ári.
- Seðlabankinn birti niðurstöður út væntingakönnun markaðsaðila sem fór fram dagana 4. til 6. nóvember. Markaðaðilar virðast nokkuð bjartsýnni um verðbólgu en í fyrri könnun, en miðgildi spáa um verðbólgu á fjórða ársfjórðungi lækkaði úr 5,7% í ágústkönnuninni í 4,9% í þessari könnun. Miðgildi spáa fyrir fyrstu níu mánuði næsta árs lækkaði úr 4,7% í 3,8% á milli kannana. Markaðsaðilar eru nokkuð einróma um að stýrivextir séu of háir núna, en 87% svarenda töldu taumhald peningastefnu vera of þétt eða alltof þétt í samanburði við 52% í ágústkönnuninni. Miðað við miðgildi svara eiga flestir von á að peningastefnunefnd lækki vexti um 0,50 prósentustig í vikunni.
- 213 þúsund erlendir farþegar fór frá landinu um Keflavíkurflugvöll í október, sem er tæplega 5% fleiri en í október í fyrra. Farþegarnir voru 1.957 þúsund á fyrstu tíu mánuðum ársins, 1,4% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Þetta er næst mesti fjöldi erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll, en einungis á metferðamannaárinu 2018 voru þeir fleiri. Sem fyrr voru Bandaríkjamenn og Bretar fjölmennastir. Þó fækkaði ferðamönnum af báðum þessum þjóðernum á milli ára á meðan ferðmönnum frá Þýskalandi fjölgaði. Kortavelta ferðamanna hér á landi í október jókst um 5,4% á föstu verðlagi á milli ára.
- Haustskýrsla kjaratölfræðinefndar kom út í vikunni.
- Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 2,6% í október. Verðbólga jókst á milli mánaða, úr 2,4% í september, og var í samræmi við væntingar. Kjarnavísitalan, þ.e. verðbólga án sveiflukenndra liða eins og matvæla og orku, var óbreytt í 3,3% á milli mánaða.
- Alvotech, Amaroq, Reitir og Sýn (fjárfestakynning) birtu uppgjör.
- S&P staðfesti lánshæfismat Íslandsbanka og Landsbankans ásamt því að breyta horfum úr stöðugum í jákvæðar. S&P gefur ekki úr lánshæfismat á Arion banka eftir að bankinn hætti samstarfi við matsfyrirtækið fyrr í ár.
- Landsvirkjun birti uppgjör.
- Arion banki gaf út víkjandi skuldabréf í evrum og hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum ásamt skiptiútboði. Lánamál ríkisins tilkynntu um niðurstöður viðbótarútgáfu og birtu Markaðsupplýsingar í nóvember. Reykjavíkurborg hélt skuldabréfaútboð. Alma innleysti skuldabréf.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).