Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um vaxta­lækk­un um 0,5 pró­sentu­stig í næstu viku

Verðbólga hefur hjaðnað nokkuð kröftuglega á síðustu mánuðum og við spáum því að hún mælist 4,5% í nóvember. Loks má greina merki um hægari gang í neyslu heimilanna og íbúðaverð virðist vera á minna flugi en áður. Þá virðist eftirspurn eftir vinnuafli hafa minnkað auk þess sem hægt hefur á launahækkunum. Peningalegt aðhald hefur aukist statt og stöðugt og landsframleiðsla gæti orðið lítillega minni á þessu ári en því síðasta.
14. nóvember 2024

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 20. nóvember. Nefndin hóf vaxtalækkunarferli í október með varfærinni lækkun um 0,25 prósentur. Við teljum að í ljósi hjaðnandi verðbólgu og ýmissa merkja um að eftirspurn sé á undanhaldi haldi nefndin áfram að lækka vexti og tilkynni um 0,5 prósentustiga lækkun í næstu viku. Stýrivextir færu þá niður í 8,50%. Við teljum að nefndin taki til greina átök á opinberum vinnumarkaði og veki athygli á því að óvissa á vinnumarkaði og óhóflegar launahækkanir gætu hægt á vaxtalækkunarferlinu.

Þegar nefndin kom síðast saman, þann 2. október, hafði verðbólga hjaðnað um 0,9 prósentur frá ágústfundinum. Peningalegt aðhald miðað við liðna verðbólgu hafði því aukist til muna en þó var ljóst að stór hluti hjöðnunarinnar skýrðist af einskiptisbreytingum á borð við niðurfellingu gjalda vegna skólamáltíða og niðurfellingu skólagjalda í einstaka háskólum. Því mátti gera ráð fyrir að tekið yrði varfærið skref, vöxtum yrði áfram haldið óbreyttum eða þeir lækkaðir aðeins lítillega. Síðari kosturinn varð ofan á og búast má við að ákvörðunin hafi markað upphaf vaxtalækkunarferlis sem við teljum að haldi áfram á næstu fundum nefndarinnar.

Verðbólga hefur hjaðnað í takt við væntingar

Frá síðasta fundi hefur verðbólga hjaðnað um 0,3 prósentustig, úr 5,4% í 5,1%. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu eru því nokkurn veginn þeir sömu og þeir voru fyrir síðasta fund. Við spáum því að verðbólga hjaðni í 4,5% í nóvember og minnki svo áfram smám saman í desember og janúar. Þótt Seðlabankinn hafi ekki gefið út dagsetningar á fundum peningastefnunefndar fyrir næsta ár má telja nær öruggt að samkvæmt áætlun komi nefndin ekki aftur saman fyrr en í febrúar á næsta ári. Við teljum að nefndin hljóti að lækka vexti nokkuð hressilega í næstu viku í því skyni að koma í veg fyrir að raunstýrivextir rjúki upp á allra næstu mánuðum. Þó vilji þau áfram stíga varlega til jarðar og sýna aðhald þar til eygir í verðbólgumarkmið.

Undirliggjandi verðbólguþrýstingur hefur minnkað á allra síðustu mánuðum, ef marka má kjarnavísitölur verðbólgunnar sem segja til um verðbólguþróun að undanskildum sveiflukenndustu undirliðunum. Kjarnavísitala 4 sem undanskilur reiknaða húsaleigu hækkaði reyndar lítillega í október, enda var það ekki síst húsnæðisliðurinn sem þá dró niður árshækkun VNV.

Síhækkandi raunstýrivextir og þétt aðhald

Raunstýrivextir hafa verið jákvæðir á flesta mælikvarða frá því um mitt síðasta ár. Út frá liðinni verðbólgu eru raunstýrivextir nú 3,9%, nokkurn veginn þeir sömu og fyrir síðasta fund nefndarinnar en hafa hækkað um 0,4% frá því eftir fundinn í október.

Raunstýrivexti má meðal annars meta út frá verðbólguvæntingum. Verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði hreyfast hratt með nýjum hagvísum og markaðsupplýsingum og til dæmis virðast fregnir af fyrirhuguðu kílómetragjaldi á allar tegundir bíla hafa haft mikil áhrif á verðbólguálag undanfarið.  Almennt hafa verðbólguvæntingar mjakast í rétta átt eftir því sem verðbólgan hefur hjaðnað og raunstýrivextir því hækkað á þann mælikvarða.

Álit markaðsaðila á taumhaldi peningastefnunnar hefur tekið miklum breytingum á síðustu mánuðum. Út úr nýlegri könnun Seðlabankans má lesa að tæp 90% markaðsaðila telja taumhaldið of þétt eða allt of þétt. Hlutfallið var 52% í ágúst.

Íbúðaverð lækkaði milli mánaða í september

Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,3% í september eftir að hafa hækkað sjö mánuði í röð. Árshækkun íbúðaverðs stendur þó í 9,5%, þó nokkuð yfir hækkun á almennu verðlagi í landinu. Sé íbúðaverð leiðrétt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis hefur raunverðið hækkað um 6,5% á síðustu tólf mánuðunum. Kröftugar íbúðaverðshækkanir það sem af er ári má líklega rekja að miklu leyti til Grindavíkuráhrifanna og hugsanlega eru þau áhrif nú tekin að fjara út. Þó ber að varast að lesa mikið í einstaka lækkun á íbúðaverði enda virðist velta á íbúðamarkaði enn þó nokkuð umfram veltuna á sama tíma í fyrra.

Kortavelta landsmanna innanlands dróst saman milli ára í september

Greiðslukortavelta landsmanna innanlands dróst saman, að raunvirði, um 1,8% milli ára í september eftir að hafa aukist milli ára nær allt þetta ár. Heildarkortavelta jókst líka minna en hún hefur gert flesta mánuði ársins. Þótt einn mánuður segi lítið um þróunina má vel vera að gögnin gefi vísbendingar um hægari gang í eftirspurn og auðveldi peningastefnunefnd ákvörðunina um að lækka vexti.  

Þá virðist hafa slaknað á spennu á vinnumarkaði, eftirspurn eftir vinnuafli hefur minnkað og laun hækka hægar en áður. Atvinnuleysi hefur síðustu mánuði verið 0,2-0,4 prósentustigum yfir því sem það var á síðasta ári. Peningastefnunefnd hlýtur þó að taka inn í reikninginn ólgu á opinberum vinnumarkaði. Skæruverkföll kennara standa yfir á öllum skólastigum og enn virðist mikið bera á milli í kjaraviðræðunum. Þá virðist jafnvel einnig stefna í verkfallsaðgerðir innan heilbrigðisstétta. Miklar launahækkanir á opinbera markaðnum gætu kollvarpað samningum á almenna markaðnum, enda má í þeim finna forsendu um launaskrið annarra hópa.

50 punkta lækkun líkleg málamiðlun

Að loknum fundi peningastefnunefndar í næstu viku líða líklega 11-12 vikur í að nefndin komi aftur saman á nýju ári. Gangi verðbólguspá okkar eftir verður verðbólga komin niður í 4,1% í janúar, en janúartalan verður nýjasta verðbólgutalan þegar nefndin kemur saman í febrúar. Fari svo að vextir verði lækkaðir niður í 8,5% í næstu viku munu raunstýrivextir hækka þó nokkuð í byrjun næsta árs og standa í 4,4% þegar nefndin hittist næst. Þótt það sé þétt vaxtastig á tímum hjaðnandi verðbólgu teljum við að peningastefnunefnd þætti fullbratt að taka stærra skref en 0,5 prósentustig niður vaxtakúrfuna í næstu viku, ekki síst vegna óvissu á vinnumarkaði og pólitískrar óvissu í tengslum við komandi kosningar. Þótt hagkerfið hafi dregist saman um 1,9% á fyrri helmingi ársins er jafnvel útlit fyrir lítils háttar hagvöxt á seinni hluta ársins. Í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar er tekið fram að þrálát verðbólga, verðbólguvæntingar yfir markmiði og mikil innlend eftirspurn kalli á „varkárni“ og greinilegt að Seðlabankanum er mikið í mun að hætta ekki á að missa aftur stjórn á verðbólguvæntingum.

Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Niðurstaða Meginvextir
9. febrúar 2022 +0,75% ÁJ, RS, GJ, GZ, KÓ +0,75% 2,75%
4. maí 2022 +1,00% ÁJ, RS, GJ, GZ, HS +1,00% 3,75%
22. júní 2022 +1,00% ÁJ, RS, GJ, GZ, HS GZ (+1,25%) +1,00% 4,75%
24. ágúst 2022 +0,75% ÁJ, RS, GJ, GZ, HS GZ (+1,00%) +0,75% 5,50%
5. október 2022 +0,25% ÁJ, RS, GJ, GZ, HS +0,25% 5,75%
23. nóvember 2022 +0,25% ÁJ, RS, GJ, GZ, HS GZ (+0,50%) +0,25% 6,00%
8. feb. 2023 +0,50% ÁJ, RS, GJ, GZ, HS HS (+0,75%) +0,50% 6,50%
22. mars 2023
+1,00% ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS  

+1,00%

7,50%
24. maí 2023 +1,25% ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (+1,00%)   +1,25% 8,75%
23. ágúst 2023 +0,50% ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (+0,25%)   +0,50% 9,25%
4. október 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁP HS (+0,25%) ÁÓP (+0,25%) óbr. 9,25%
22. nóvember 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS   óbr. 9,25%
7. febrúar 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
20. mars 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
8. maí 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS AS (-0,25%)   óbr. 9,25%
21. ágúst 2024 óbr. ÁJ, RS, TB, ÁP, HS     óbr. 9,25%
2. október 2024 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁP, HS   HS (óbr.) -0,25% 9,00
20. nóvember 2024            

AS: Arnór Sighvatsson, ÁJ: Ásgeir Jónsson, ÁP: Ásgerður Ósk Pétursdóttir, GJ: Gunnar Jakobsson, GZ: Gylfi Zoëga, HS: Herdís Steingrímsdóttir, KÓ: Katrín Ólafsdóttir, RS: Rannveig Sigurðardóttir, TB: Tómas Brynjólfsson. Heimild: Seðlabanki Íslands

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Flugvél á flugvelli
30. júní 2025
Vikubyrjun 30. júní 2025
Verðbólga jókst úr 3,8% og mældist 4,2% í júní. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum þrýstingi á innfluttum vörum en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu. Þá jókst velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum um 1,5% að raunvirði í mars og apríl.
Paprika
27. júní 2025
Verðbólga umfram væntingar
Verðbólga mældist 4,2% í júní og jókst úr 3,8% frá því í maí. Verðlag hækkaði umfram spár, en við höfðum spáð 3,9% verðbólgu. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum verðþrýstingi á innfluttum vörum, einkum fötum, skóm og tómstundarvörum, en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu.
Orlofshús á Íslandi
27. júní 2025
Viðskipti með sumarhús færast aftur í aukana
Sumarhúsum á Íslandi hefur fjölgað um 45% á síðustu 20 árum. Viðskipti með sumarhús færðust verulega í aukana á tímum faraldursins. Fyrst eftir faraldurinn hægðist um en nú virðist aftur hafa glaðnað yfir markaðnum.
Herðubreið
25. júní 2025
Áfram merki um viðnámsþrótt í hagkerfinu
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum jókst um 1,5% að raunvirði í mars og apríl og um 5,2% í janúar og febrúar, samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Veltugögnin bera þess merki að hagkerfið standi vaxtastigið vel af sér sem er í takt við aukinn hagvöxt í byrjun árs. Það sem af er ári hefur velta aukist mest í sölu og viðhaldi á bílum en einnig má greina aukin umsvif í helstu útflutningsgreinunum: álframleiðslu, sjávarútvegi og ferðaþjónustu.
Ferðafólk
23. júní 2025
Færri ferðamenn en meiri ferðaþjónusta?
Færri ferðamenn hafa heimsótt Ísland það sem af er ári en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir það hefur erlend kortavelta aukist á milli ára og það sama má segja um útflutningstekjur af ferðaþjónustu. Við teljum ýmislegt benda til þess að erlendir ferðamenn hafi verið fleiri síðustu mánuði en talning Ferðamálastofu segir til um.
Íbúðahús
23. júní 2025
Vikubyrjun 23. júní 2025
Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,45% á milli mánaða í maí. Vísitalan lækkaði þar með í fyrsta sinn á þessu ári og ársbreytingin hefur ekki verið jafn lítil frá því í byrjun síðasta árs. Áfram er kraftur í kortaveltu Íslendinga, ekki síst erlendis.
Kortagreiðsla
19. júní 2025
Kortavelta Íslendinga erlendis eykst og veldur auknum greiðslukortahalla
Kortavelta jókst um 6,8% á milli ára í maí að raunvirði þar af jókst hún um 21% erlendis. Það sem af er ári hefur kortavelta aukist um 5,5% frá sama tímabili í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Íslendingar hafa aldrei farið í fleiri utanlandsferðir í maímánuði en nú í ár. Greiðslukortajöfnuður var neikvæður um 4,2 ma.kr. sem er töluvert meiri halli en í maí í fyrra.
Hús í Reykjavík
16. júní 2025
Vikubyrjun 16. júní 2025
Í síðustu viku fór fram uppgjör við eigendur HFF-bréfa. Erlendum ferðamönnum fjölgaði aðeins á milli ára í maí og atvinnuleysi jókst á milli ára. Í vikunni fram undan birtir HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.
12. júní 2025
Spáum 3,9% verðbólgu í júní
Við spáum því að verðbólga aukist lítillega í júní og mælist 3,9%. Verðbólga helst líklega nær óbreytt í sumar en eykst svo aðeins með haustinu, þegar einskiptisliðir vegna skólagjalda og skólamáltíða detta út úr tólf mánaða taktinum. Við gerum áfram ráð fyrir 4,0% verðbólgu í árslok.
Bílar
11. júní 2025
Merki um að bílakaup hafi aukist á ný
Eftir hægagang í bílaviðskiptum á síðasta ári virðast þau hafa færst í aukana í byrjun þessa árs. Um 53% fleiri fólksbílar hafa verið nýskráðir til einkanota á fyrstu fimm mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra. Um 21% þeirra bíla sem hafa verið nýskráðir á þessu ári eru hreinir rafmagnsbílar.