Uppgjörstímabilið er byrjað í Kauphöllinni, en Ölgerðin birti í síðustu viku og Hagar, Icelandair og VÍS birta í þessari viku.
Við minnum á kynningu á nýrri hagspá Hagfræðideildar 2023-2026 í Hörpu á þriðjudagsmorgun. Skráning á fundinn er í fullum gangi.
Vikan fram undan
- Í dag birtir Seðlabankinn tölur um greiðslumiðlun.
- Á þriðjudag gefum við út nýja hagspá til ársins 2026. Spáin verður kynnt á opnum fundi í Hörpu á þriðjudagsmorgun kl. 08.30. Á þriðjudag birtir HMS svo vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar og Hagar birta árshlutauppgjör.
- Á fimmtudag birta Icelandair og VÍS uppgjör.
Mynd vikunnar
Í síðustu viku birti AGS efnahagsspá fyrir heimshagkerfið. Sjóðurinn spáir því að hagvöxtur í ár verði 3% en að aðeins dragi úr vextinum á næsta ári og að hann verði 2,9% árið 2024. Sjóðurinn spáir því að nýmarkaðsríki leiði hagvöxt næstu ár með að jafnaði í kringum 4% hagvöxt á ári á meðan hagvöxtur í þróuðum ríkjum verði innan við 2%.
Það helsta frá vikunni sem leið
- 222 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í september, 25% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Þetta er næstfjölmennasti septembermánuður í ferðaþjónustu frá upphafi. Uppsafnaður fjöldi það sem af er ári eru 1.730 þúsund ferðamenn, sem er á pari við fjöldann á sama tíma árið 2017, en aðeins færri en á metferðamannaárinu 2018, þegar 1.830 þúsund ferðamenn höfðu farið um Keflavíkurflugvöll á sama tímabili. Brottfarir Íslendinga í september voru aftur á móti töluvert færri en fyrir ári, eða um 47 þúsund. Þær voru rúmlega 60 þúsund í sama mánuði í fyrra. Brottfarir Íslendinga eru því um 22% færri en fyrir ári.
- Skráð atvinnuleysi var 3,0% í september og hækkaði um 0,1 prósentustig milli mánaða. Atvinnuleysi er að jafnaði minnst á sumrin og þessi örlitla aukning því eðlileg árstíðasveifla.
- Á hlutabréfamarkaði birti Ölgerðin uppgjör (fjárfestakynning), Fly Play birti flutningstölur og Alvotech birti upplýsingar um stöðu umsóknar um markaðsleyfi fyrir AVT04 í Bandaríkjunum.
- Tvö skuldabréfaútboð voru í síðustu viku, Landsbankinn lauk útboði á sértryggðum skuldabréfum og Lánasjóður sveitarfélaga lauk skuldabréfaútboði. Lánamál ríkisins birtu Markaðsupplýsingar.