Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir RSV tölur um kortaveltu í verslun. Þann dag fáum við líka verðbólgutölur frá Bandaríkjunum.
- Á miðvikudag tilkynnir seðlabanki Bandaríkjanna um vaxtaákvörðun.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan ferðaþjónustureikninga. Evrópski seðlabankinn kynnir vaxtaákvörðun.
- Á föstudag birtir Seðlabankinn gögn um greiðslumiðlun.
- Í vikunni gerir Hagstofan verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs og birtir niðurstöðurnar miðvikudaginn 28. júní.
Mynd vikunnar
Samsetning vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði hefur breyst mjög á síðustu árum. Innflytjendur eru nú 22% þeirra sem starfa á vinnumarkaðnum, en voru 6% byrjun árs 2005. Hlutfallið er ólíkt milli atvinnugreina og hæst í ferðaþjónustu, sjávarútvegi og í byggingariðnaði. 65% þeirra sem starfa á hótelum og gististöðum eru innflytjendur, 56% þeirra sem starfa í fiskiðnaði, 39% þeirra sem starfa í veitingareksti og 31% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Hlutfallið er lægst í fjármála- og vátryggingastarfsemi þar sem innan við 3% eru innflytjendur.
Það helsta frá vikunni sem leið
Seðlabankinn birti fundargerð Peningastefnunefndar vegna fundar nefndarinnar í maí. Allir fundarmenn voru sammála um að hækka þyrfti vexti og ræddu hækkun um á bilinu 1-1,5 prósentustig. Fjórir af fimm nefndarmönnum studdu tillögu seðlabankastjóra um að hækka vexti um 1,25 prósentustig, en einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn tillögunni og vildi frekar hækka um 1 prósentustig. Hann taldi áhrif fyrri vaxtahækkana ekki að fullu komin fram. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra um að föst bindiskylda innlánastofnana skyldi hækkuð úr 1% í 2%.
Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að halda sveiflujöfnunaraukanum óbreyttum í 2,5%. Auk þess samþykkti nefndin breytingar á reglum um hámark veðsetningarhlutfalls faseignalána til þess að tryggja að þær ættu ekki við um lán sem eru veitt til að endurfjármagna eldri fasteignalán eða breyta skilmálum.
Alls fóru 158 þúsund erlendir farþegar um Leifsstöð í maí, en þetta er annars stærsti maímánuðurinn frá upphafi. Ferðamenn voru einungis 4% færri en í maí metárið 2018. Á fyrstu fimm mánuðum ársins hafa 720 þúsund erlendir farþegar farið frá landinu um Leifsstöð, sem er um 10% færri en metárið 2018, en það ár fóru 2.300 þúsund erlendir farþegar um Leifsstöð. Brottfarir Íslendinga voru 61.500, álíka margar og í fyrra.
Skráð atvinnuleysi var 3,0% í maí og fór úr 3,3% í apríl. Atvinnuleysi lækkaði nokkuð milli ára, en í maí í fyrra mældist það 3,9%. Það er eðlilegt að atvinnuleysi minnki eftir því sem nær dregur sumri, en það hefur þó dregið örlítið hraðar úr því á þessu ári en við gerðum ráð fyrir.
Fjögur skuldabréfaútboð voru haldin í síðustu viku. Reykjavíkurborg hélt skuldabréfaútboð, Landsbankinn hélt útboði sértryggðra skuldabréfa og tilkynnti um niðurstöðu skiptiútboðs í tengslum við það, Íslandsbanki hélt útboð sértryggðra skuldabréfa og Alma hélt víxlaútboð. Lánamál ríkisins birtu Markaðsupplýsingar.
Á hlutabréfamarkaði er helst að frétta að stjórn Regins lagði fram yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar, Hampiðjan tilkynnti um niðurstöðu úr hlutafjárútboði félagsins og Icelandair og Play birtu flutningstölur.