Vikubyrjun 10. mars 2025

Vikan framundan
- Í dag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í febrúar.
- Á þriðjudag birtir Ferðamálastofa fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll í febrúar.
- Á miðvikudag verða birtar verðbólgutölur fyrir Bandaríkin.
- Í vikunni fara fram verðmælingar fyrir marsmælingu VNV, sem Hagstofan birtir fimmtudaginn 27. mars.
Mynd vikunnar
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa boðað aukna tolla á innflutningi til landsins. Þó áformin séu afar óljós á þessari stundu hafa líkurnar á tollastríði milli stærstu hagkerfa heimsins aukist og einnig áhyggjur af því hver áhrifin yrðu hér á landi. Um 12% af okkar vöruútflutningi fer til Bandaríkjana og 6% af okkar vöruinnflutningi kemur þaðan. Langstærsti hluti vöruútflutnings okkar er til Evrópubandalagsins. Samkvæmt opinberum tölum er Holland stærsti markaðurinn fyrir okkar vöruútflutning, en hér er að miklu leyti að ræða umskipun á leið til annara áfangastaða.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Alls var 117 ma. kr. halli á viðskiptum við útlönd í fyrra sem er verulegur viðsnúningur frá árinu áður þegar 37 ma. kr. afgangur mældist. Þrátt fyrir þetta styrktist krónan á árinu sem skýrist meðal annars af því að viðskiptum fylgir ekki alltaf samsvarandi gjaldeyrisflæði. Erlend staða þjóðarbúsins batnaði á árinu og hefur bara eitt sinn mælst hærri sem hlutfall af landsframleiðslu.
- Hagstofan birti bráðabirgðatölur um vöruviðskipti í febrúar, en 58 ma. kr. halli mældist sem er mesti halli sem mælst hefur á einum mánuði. Þessi aukni halli skýrist að nær öllu leyti af innflutningi á fjárfestingavörum og tengist áframhaldandi innflutningi á tölvubúnaði, en töluverður innflutningur var á slíkum búnaði undir lok síðasta árs í tengslum við fjárfestingar í gagnaverum. Þeim innflutningi fylgir ekki gjaldeyrisflæði þar sem erlent fyrirtæki kaupir tölvubúnaðinn erlendis sem fluttur er til Íslands og hefur því ekki áhrif á gengi krónunnar.
- Verðbólga á evrusvæðinu mældist 2,4% í febrúar og lækkaði úr 2,5%. Þó að verðbólga hafi lækkað milli mánaða var lækkunin aðeins minni en búist var við. Hins vegar þá lækkaði kjarnaverðbólga, þ.e. verðbólga án matar og orku, og árshækkun þjónustu milli mánaða, sem bendir til minni undirliggjandi verðbólgu.
- Seðlabanki Evrópu lækkaði vexti bankans um 0,25 prósentur niður í 2,5%. Ákvörðunin var í samræmi við væntingar, en þetta var sjötta vaxtalækkunin síðan bankinn hóf vaxtalækkunarferilinn í júní á síðasta ári, þegar vextir á evrusvæðinu stóðu í 4,0%. Samhliða þessu hækkaði bankinn þó spá sína um verðbólgu á árinu 2025 og lækkaði hagvaxtarspá sína fyrir 2025 og 2026.
- Matsfyrirtækið S&P staðfesti lánshæfismat ríkissjóðs og Fitch birti skýrslu um Ísland.
- Eimskip, Hampiðjan, Kaldalón og Síldarvinnslan birtu uppgjör. Icelandair og Play birtu flutningstölur, Eik tilkynnti að söluferli Glerártorgs sé lokið og Heimar tóku lán hjá Norræna fjárfestingarbankanum.
- Lánamál ríkisins héldu útboð á ríkisbréfum, Fossar héldu víxlaútboði, Íþaka stækkaði áður útgefinn skuldabréfaflokk og Orkuveita Reykjavíkur birtu uppgjör.
- Að lokum minnum við á mánaðarlegt fréttabréf Greiningardeildar sem birtist í vikunni bæði á íslensku og ensku.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









