Vikan framundan
- Í dag birtir Ferðamálastofa fjölda ferðmanna um Leifsstöð og Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi.
- Á miðvikudaginn er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Bandaríkjanna og verðbólgutölur verða birtar fyrir Bandaríkin.
- Í vikunni fara fram verðmælingar fyrir júnímælingu vísitölu neysluverðs hér á landi.
Mynd vikunnar
Flestir seðlabankar þróaðra ríkja hækkuðu vexti til þess að berjast við aukna verðbólgu í kjölfar heimsfaraldursins. Í síðustu viku reið Seðlabanki Evrópu á vaðið og lækkaði vexti um 0,25 prósentustig. Þar sem danska krónan er föst við gengi evru lækkaði danski seðlabankinn vexti strax í kjölfarið. Síðar í mánuðinum eru vaxtaákvarðanir hjá bandaríska seðlabankanum og Englandsbanka, en það er talið ólíklegt að þeir lækki vexti að svo stöddu.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Alls var 41 ma.kr. halli á viðskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi. Hallinn á viðskiptum við útlönd rúmlega tvöfaldaðist á milli ára. Venju samkvæmt var afgangur af þjónustujöfnuði og halli á vöruskiptajöfnuði. Afgangurinn af þjónustujöfnuði dróst saman á milli ára vegna meiri innflutnings á þjónustu, aðallega á fjármálaþjónustu og á rannsókna- og þróunarþjónustu. Hallinn á vöruskiptajöfnuði jókst vegna minni útflutnings á sjávarafurðum og áli. Óveruleg breyting varð á frumþáttatekjum og rekstrarframlögum. Hrein staða þjóðarbúsins var 1.800 ma. kr. í lok fjórðungsins og batnaði um 200 ma. kr., aðallega vegna hækkana á erlendum fjármálamörkuðum.
- Seðlabankinn birti yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar. Að mati nefndarinnar stendur fjármálakerfið hér á landi traustum fótum, eiginfjár- og lausafjárstaða bankanna er sterk og lítið ber á auknum vanskilum þrátt fyrir hátt vaxtastig. Nefndin ákvað að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5%.
- Hagstofan breytti áður birtar tölur um fjölda gistinótta árið 2023 niður á við. Gistinætur 2023 voru oftaldar í fyrri tölum og því er fækkunin á yfirstandandi ári ekki jafnmikil og áður var talið. Eftir uppfærsluna virðist gistinóttum hafa fækkað um 0,5% á milli ára á fyrstu fjórum mánuðum ársins, en ekki 6,5% eins og áður leit út fyrir.
- Seðlabanka Evrópu lækkaði vexti um 0,25 prósentustig.
- Starfandi í Bandaríkjunum fjölgaði um 272 þúsund í maí og atvinnuleysi vestanhafs var óbreytt í 4,0%. Þessi gögn um vinnumarkaðinn eru talin merki um meiri umsvif en búist var við og líkur á stýrivaxtalækkun í september eru taldar hafa minnkað. Talið er að vextir verði óbreyttir fram á haust.
- Reginn breytti um nafn og heitir nú Heimar, Icelandair og Fly Play birtu flutningstölur, Íslandsbanki tilkynnti um kaup á eigin bréfum og Alvotech gekk frá samningi um endurfjármögnun skulda.
- Iceland Seafood, Hagar og Alma íbúðafélag héldu útboð á víxlum. ÍL-sjóður hélt útboð á skuldabréfum í eigu sjóðsins, Lánamál ríkisins felldu niður þau útboð sem eru eftir á 2. ársfjórðungi og Lánasjóður sveitarfélaga frestaði útboði.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).