Vikubyrjun 1. september 2025

Vikan framundan
- Á morgun verða birtar verðbólgutölur á evrusvæðinu.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar.
- Á fimmtudag birtir Seðlabankinn greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins á öðrum ársfjórðungi.
- Á föstudag verður birt atvinnuleysi í Bandaríkjunum.
Mynd vikunnar
Landsframleiðsla dróst saman um 1,9% á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Áætlað er að á fyrri helmingi ársins hafi landsframleiðslan verið 0,3% meiri en á fyrri helmingi síðasta árs. Framlag utanríkisviðskipta var neikvætt um 5,8%, bæði vegna aukins innflutnings og örlítils samdráttar í útflutningi. Á móti kom aukin innlend eftirspurn. Fjármunamyndun jókst um 8,3%, sérstaklega atvinnuvegafjárfesting sem jókst um 13,6%. Einkaneysla hélt líka áfram að aukast, nú um 3,1% á milli ára. Athygli vekur þó að íbúðafjárfesting dróst saman, um 8,9%, í fyrsta sinn frá árinu 2023.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Verðbólga mældist 3,8% í ágúst og er aftur komin niður fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs SÍ, eftir að hafa mælst 4,0% í júlí. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu talsvert og höfðu mest áhrif til lækkunar. Framlag annarrar þjónustu dróst einnig töluvert saman. Framlag innlendra vara jókst á milli mánaða mestmegnis vegna hækkandi matvöruverðs.
- Landsframleiðsla dróst saman um 1,9% á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Samdráttinn má að mestu rekja til utanríkisviðskipta, en halli á vöru- og þjónustuviðskiptum var mun meiri en á sama fjórðungi í fyrra.
- Halli á vöru- og þjónustujöfnuði nam 73,4 milljörðum króna á öðrum fjórðungi, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Hallinn var talsvert meiri en á sama tímabili í fyrra þegar hann nam 22,9 milljörðum. Þjónustujöfnuður var jákvæður um 61,8 milljarða en vöruviðskiptajöfnuður neikvæður um 135,2 milljarða.
- Velta skv. VSK- skýrslum ber þess merki að í flestum atvinnugreinum hafi veltan verið þó nokkuð minni í maí og júní á þessu ári en á sama tíma í fyrra.
- Gistinóttum á öllum tegundum skráðra gististaða fjölgaði um 16,5% á milli ára í júlí, þar af um 13,5% á hótelum.
- Sýn, Eimskip, Iceland Seafood, Brim, Hampiðjan, Síldarvinnslan, Landsbréf, Kópavogsbær, Félagsbústaðir, Byggðastofnun, Útgerðarfélag Reykjavíkur og Ísfélagið birtu uppgjör.
- Kaldalón hélt víxlaútboð og lauk sölu á skuldabréfum. Arion banki gaf út skuldabréf. Útgerðarfélag Reykjavíkur lauk sölu á víxlum. Orkuveitan lauk sölu á grænum skuldabréfum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









