Upp úr miðju síðasta ári jókst velta á fasteignamarkaði verulega. Stóraukinn fjöldi íbúða seldist í hverjum mánuði, verð tók að hækka hraðar og fyrstu kaupendur voru hlutfallslega margir. Þetta hefur aukið ný útlán mikið, sér í lagi hjá viðskiptabönkunum, sem lækkuðu vexti í takt við lækkun stýrivaxta og buðu mun hagstæðari lánskjör en oft áður. Hlutdeild innlánastofnana af hreinum nýjum íbúðalánum í hverjum mánuði, þ.e. ný lán umfram uppgreiðslur, fóru úr 50% á móti lífeyrissjóðum á árinu 2019 upp í yfir 100% markaðshlutdeild í fyrra. Þetta gerðist því lán frá bönkum voru í stórum stíl notuð til þess að greiða upp lán hjá lífeyrissjóðum.
Aðalástæða þess að lántakendur færðu sig í auknum mæli frá lífeyrissjóðum og til banka voru að vextir lækkuðu talsvert, sér í lagi breytilegir vextir óverðtryggðra lána í kjölfar þess sem Seðlabankinn lækkaði stýrivexti. Aukningin í hreinum nýjum íbúðalánum hefur því nær alfarið verið drifin áfram af töku slíkra lána, þó með undantekningum, þar sem færst hefur í aukana að fólk kjósi að taka óverðtryggð lán á föstum vöxtum fremur en breytilegum nú á síðustu mánuðum.
Nýverið hækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti og í kjölfarið hafa stærstu viðskiptabankarnir þrír allir hækkað vexti á óverðtryggðum íbúðalánum. Gera má ráð fyrir að greiðslubyrði margra aukist við það. Þetta er þó líklega einungis byrjunin á vaxtahækkunarferlinu, en í nýútgefinni þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar spáum við því að stýrivextir muni halda áfram að hækka út næsta ár. Svo dæmi sé tekið þá gæti 1% hækkun á lægstu óverðtryggðu vöxtum sem viðskiptabankarnir bjóða í dag, leitt til þess að vaxtagreiðsla á 30 m.kr. láni hækki um allt að 25.000 kr. á mánuði sé lánið á breytilegum vöxtum.