Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Um mis­skiln­ing um launa­vísi­töl­una

Sú kenning hefur verið sett fram að skýringin á mikilli hækkun launavísitölunnar á síðustu mánuðum sé að lægra launaðir hópar hafi dottið út af vinnumarkaði og hærra launaðir hópar vegi því meira í nýjustu mælingum.
Smiður að störfum
16. desember 2020 - Greiningardeild

Þessi kenning byggir á misskilningi á því sem launavísitölunni er ætlað að mæla. Launavísitalan er verðvísitala sem mælir kostnað á vinnustund og hún gerir það með pöruðum hætti, þ.e. að einungis þeir eru mældir sem eru til staðar bæði í upphafi og lok mælingartímabils. Þá má ætla að nær allar þær breytingar sem hafa hækkað launavísitöluna á síðustu mánuðum séu innan ramma kjarasamninga.

Sú kenning hefur verið sett fram að skýringin á mikilli hækkun launavísitölunnar á síðustu mánuðum sé að lægra launaðir hópar hafi dottið út af vinnumarkaði og hærra launaðir hópar vegi því meira í nýjustu mælingum. Þessi kenning byggir á misskilningi á því sem launavísitölunni er ætlað að mæla. Launavísitalan er verðvísitala sem mælir kostnað á vinnustund og hún gerir það með pöruðum hætti, þ.e. að einungis þeir eru mældir sem eru til staðar bæði í upphafi og lok mælingartímabils. Sé það tilvikið að laun séu almennt að hækka vegna þess að lægra launaðir hópar detti út kæmi sú hækkun til viðbótar við þá hækkun sem launavísitalan mælir.

Breytingar af þessu tagi mætti sjá í vísitölu heildarlauna, sem er önnur launamæling sem Hagstofan framkvæmir. Hluti umræðunnar um launavísitöluna á undanförnum vikum sýnir því greinilega að einhverjir misskilja hvað veldur athyglisverðri þróun hennar.

Í október hafði launavísitalan hækkað um 7,1%, á síðustu 12 mánuðum þar á undan sem er mesta ársbreyting frá því í apríl 2018. Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en hefur verið vel ofan við 6% allt frá því í apríl. Hvað sem mönnum kann að finnast er þessi mikla hækkun launavísitölu óneitanlega dálítið sérstök miðað við stöðu hagkerfisins og þann mikla slaka sem hefur verið á vinnumarkaði síðustu mánuði.

Það er algert grundvallaratriði að útreikningur launavísitölunnar byggir á pöruðum samanburði sem þýðir að breyting launa er mæld á milli samliggjandi tímapunkta hjá fastri einingu, þ.e. sama einstaklingnum, sem er algeng aðferð við gæðaleiðréttingar verðvísitalna. Í sérlögum um launavísitöluna kemur fram að launavísitalan eigi að sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma. Ekki er ætlast til að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans hafi áhrif á launavísitölu nema um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má við launabreytingar.

Ætla má að nær allar þær breytingar sem hafa hækkað launavísitöluna á síðustu mánuðum séu innan ramma kjarasamninga. Oft hefur vísitalan hækkað vegna spennu á vinnumarkaði og umframeftirspurnar eftir ákveðnum störfum, en því er ekki til að dreifa nú. Líklegar ástæður mældra hækkana nú eru að ýmsar álagsgreiðslur hafi verið hærri en mánuðina á undan. Þá hefur einnig verið bent á auknar bónusgreiðslur auk þess sem augljóst er að nokkrir nýlega gerðir kjarasamningar, sumir afturvirkir, hafa hækkað vísitöluna.

Allar þessar ástæður eru innan ramma kjarasamninga. Þessu til viðbótar má nefna tvo þætti sem hafa skipt máli á árinu 2020 og eiga eftir að skipta miklu máli á næstu mánuðum. Þar er um að ræða styttingu vinnutímans og lengingu orlofs. Báðir þessir þættir fela í sér minna vinnuframlag á móti sömu launum.

Nú um áramótin verður um töluverða vinnutímastyttingu að ræða samkvæmt ýmsum kjarasamningum opinberra starfsmanna og síðar á árinu kemur til framkvæmda vinnutímastytting vegna vaktavinnu. Þá hefur verið samið um lengingu orlofs fyrir ýmsa hópa. Breytingar af þessu tagi munu væntanlega leiða til hækkunar á launavísitölu, jafnvel þó launagreiðslur hækki ekki. Verðið fyrir vinnustundina hækkar og þar með hækkar launavísitalan.

Frá nóvember 2019 fram til apríl 2020 hækkaði launavísitalan um 4,8% og það var mat Hagstofunnar að 0,7% þeirrar breytingar hafi komið til vegna vinnutímastyttingar á almennum markaði. Launavísitalan hefði því hækkað um 4,1% á þessu tímabili hefði vinnutímastytting ekki komið til.

Hagstofa Íslands birtir einnig aðra mælikvarða á breytingar launa. Þar er t.d. um að ræða vísitölu heildarlauna og breytingar á meðallaunum og þar að auki gefa breytingar á atvinnutekjum einnig vísbendingar um launabreytingar.

Vísitala heildarlauna er þannig mat sem byggir á staðgreiðsluskyldum launum og áætlunum um greiddar vinnustundir út frá launarannsókn Hagstofunnar. Sú vísitala er birt ársfjórðungslega og eru breytingar hennar yfir lengri tíma ekki mjög frábrugðnar breytingum á launavísitölunni. Nýjustu tölur um vísitölu heildarlauna eru frá 2. ársfjórðungi í ár og þar er reyndar ekki að finna neinn stuðning við þá kenningu að laun séu að hækka vegna þess að lægra launaðir hópar hverfi af vinnumarkaði. Vísitala heildarlauna hefur lækkað miðað við síðasta ár allt frá 3. ársfjórðungi 2019 vegna þess að tekjur eru almennt að lækka, m.a. vegna styttri vinnutíma og aukins atvinnuleysis.

Launavísitala Hagstofunnar er sá mælikvarði á launabreytingar sem er jafnan mest í umræðunni, enda birtast upplýsingar um hana mánaðarlega. En launavísitalan sýnir alls ekki breytingar meðallauna, þó það virðist vera algengur misskilningur.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Um misskilning um launavísitöluna (PDF)

Þú gætir einnig haft áhuga á
Seðlabanki
17. nóv. 2025
Vikubyrjun 17. nóvember 2025
Skráð atvinnuleysi var 3,9% í október, 0,5 prósentustigum meira en í sama mánuði í fyrra. Brottförum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 6,2% í október en utanlandsferðum Íslendinga fjölgaði um 3%. Peningastefnunefnd kemur saman á miðvikudaginn og við búumst við að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum.
Seðlabanki Íslands
14. nóv. 2025
Spáum óbreyttum vöxtum þrátt fyrir sviptingar í efnahagslífinu
Við spáum því að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Verðbólga jókst umfram væntingar í október og verðbólgumælingin bar þess merki að undirliggjandi verðþrýstingur hefði aukist. Í ljósi breytts lánaframboðs og óviðbúinna áfalla í útflutningsgeirunum má líkast til búast við mildari tón frá peningastefnunefnd.
13. nóv. 2025
Spáum 4,3% verðbólgu í nóvember
Við spáum því að verðbólga standi óbreytt á milli mánaða og mælist 4,3% í nóvember. Flugfargjöld til útlanda verða til lækkunar á vísitölunni, en reiknuð húsaleiga og matarkarfan verða til hækkunar. Við búumst við aukinni verðbólgu á næstu mánuðum.
Hverasvæði
10. nóv. 2025
Raungengi enn í hæstu hæðum
Raungengi krónunnar er mjög hátt í sögulegu samhengi en hefur gefið lítillega eftir á allra síðustu dögum. Horfur í álútflutningi eru dræmar eftir bilun hjá Norðuráli og aflaheimildir gefa fyrirheit um samdrátt í útflutningi sjávarafurða. Ferðaþjónusta hefur vaxið umfram væntingar það sem af er ári og telja má horfur á vexti í nýjustu útflutningsstoðum Íslands. Velta samkvæmt VSK-skýrslum hefur þróast með svipuðum hætti í útflutningsgeiranum og í innlenda hagkerfinu, en ávöxtun hlutabréfa félaga í kauphöllinni með tekjur í erlendri mynt er mun lakari en fyrirtækja með tekjur í íslenskum krónum.
10. nóv. 2025
Vikubyrjun 10. nóvember 2025
Fáar áhugaverðar hagtölur voru birtar í síðustu viku, en í þessari viku birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir ferðamannatölur. Uppgjörstímabilið fyrir þriðja ársfjórðung er í fullum gangi.
Byggingakrani og fjölbýlishús
6. nóv. 2025
Óvissa á íbúðamarkaði og takmarkaðar raunverðshækkanir í kortunum 
Hátt vaxtastig og ströng lánþegaskilyrði hafa slegið verulega á verðhækkanir á íbúðamarkaði. Á sama tíma hefur fjöldinn allur af nýjum íbúðum risið og sölutími þeirra lengst til muna. Eftir að dómur Hæstaréttar í vaxtamálinu féll hafa viðskiptabankarnir tekið lánaframboð til endurskoðunar og það sama má segja um suma lífeyrissjóðina. Seðlabankinn ákvað í síðustu viku að slaka lítillega á lánþegaskilyrðum.  
3. nóv. 2025
Mánaðamót 1. nóvember 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Fataverslun
3. nóv. 2025
Vikubyrjun 3. nóvember 2025
Verðbólga jókst umfram væntingar í október og mældist 4,3%. Svo mikil hefur verðbólga ekki verið síðan í febrúar síðastliðnum. Telja má áhyggjuefni að aukin verðbólga skýrist ekki af tilfallandi sveiflukenndum liðum heldur virðist undirliggjandi verðþrýstingur hafa aukist. Í þessari viku halda félög áfram að birta uppgjör og hugsanlega má búast við fleiri púslum í breytta mynd af framboði íbúðalána í kjölfar vaxtamálsins.  
Smiður
31. okt. 2025
Minnkandi spenna á vinnumarkaði og minni fólksfjölgun
Eftirspurn eftir vinnuafli hefur minnkað og dregið hefur úr hækkun launa. Atvinnuleysi hefur aukist smám saman og rólegri taktur í atvinnulífinu hefur endurspeglast í hægari fólksfjölgun. Kaupmáttur hefur aukist jafnt og þétt og við teljum að þótt hægi á launahækkunum komi kaupmáttur til með að aukast áfram á næstu árum. Mikill kraftur er í neyslu landsmanna, kortavelta eykst sífellt og Íslendingar hafa aldrei farið í fleiri utanlandsferðir.
Paprika
30. okt. 2025
Verðbólga jókst umfram væntingar
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,47% á milli mánaða í október og verðbólga jókst úr 4,1% í 4,3%. Vísitala neysluverðs hækkaði meira en við bjuggumst við, ekki síst reiknuð húsaleiga og verð á mat og drykk. Skammtímaspá okkar gerir nú ráð fyrir að verðbólga haldist í 4,3% út árið, en aukist svo í janúar og mælist 4,5%.