Töluvert launaskrið í september

Launavísitalan hækkaði um 0,8% milli mánaða í september, eftir aðeins 0,2% hækkun í ágúst og lækkun tvo mánuði í röð þar á undan. Þetta er mesta hækkun vísitölunnar síðan í apríl þegar hún hækkaði um 1,6% vegna hagvaxtarauka samkvæmt kjarasamningum. Hækkunin hefur þau áhrif að árshækkun launa hækkar úr 8% í 8,1%.
Spenna á vinnumarkaði þrýstir launum upp á við
Hækkunin skýrist ekki af neinum kjarasamningsbundnum hækkunum, enda komið að lokum samningstímabils. Aftur á móti kemur launaskrið um þessar mundir ekki á óvart, enda ljóst að mikil spenna ríkir á vinnumarkaði. Merki um spennu má sjá á litlu atvinnuleysi, sem var 2,8% í september, og hversu hratt það hefur dregist saman. Til viðbótar er mikill skortur á starfsfólki en samkvæmt Gallup-könnun frá því í september sögðu 54% stjórnenda fyrirtækja að skortur væri á vinnuafli, og algengara en ekki að fyrirtæki vildu fjölga starfsfólki. Þetta hlutfall er mjög nálægt sögulegu hámarki og til samanburðar var hlutfallið í kringum 6% um mitt ár 2020. Vöntunin virðist mest í byggingarstarfsemi og greinum tengdum verslun, samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu. Slík spenna á vinnumarkaði skapar þrýsting á laun til hækkunar, enda keppa fyrirtæki um starfsfólk í stað þess að fólk keppi um störf, og því ekki furða þótt launavísitalan þokist upp á við.
Ólík launaþróun milli atvinnugreina og starfstétta
Samhliða birtingu launavísitölunnar fyrir septembermánuð birti Hagstofan niðurbrot vísitölunnar eftir starfstéttum og atvinnugreinum fyrir júlímánuð. Eins og við fjölluðum um í nýbirtri Þjóðhags- og verðbólguspá okkar er launaþróun mjög misjöfn milli hópa. Af starfstéttum hafa laun hækkað langmest milli ára meðal verkafólks og sölu- og þjónustufólks, um 10,3-10,5%, og minnst meðal stjórnenda, um 6,1%.
Ef bornar eru saman ólíkar atvinnugreinar má sjá að laun þeirra sem starfa við rekstur gisti- og veitingastaða hafa hækkað langmest, um 11,5%, og næst mest meðal þeirra sem starfa við byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og veitustarfsemi, um 8,9-9%. Laun þeirra sem starfa við fjármála- og vátryggingastarfsemi hafa hækkað minnst, um 5,9%.
Þessi ólíka launaþróun er í takt við það sem lagt var upp með í síðustu kjarasamningum þegar samið var um krónutöluhækkanir, að lægri laun myndu hækka hlutfallslega meira en hærri laun.
Ef horft er á launaþróun milli mánaða má þó sjá að hægt hefur á launahækkun meðal þeirra sem starfa í þjónustu-, sölu- og afgreiðslustörfum. Í þeirri starfstétt lækkuðu laun örlítið í júlí, um 0,3%, og þegar horft er á rekstur gististaða og veitingarekstur má sjá að launin lækkuðu um 1,7% milli júní og júlí. Það ber að varast að lesa of mikið í mánaðartölur en lækkunin kemur þó á óvart, ekki síst vegna þess að mannaflsþörf greinarinnar er einna mest í júlí. Þá jókst eftirspurn skyndilega með auknum ferðamannafjölda og víða hefur eflaust þurft að manna stöður með hraði.
Spáum 7,6% hækkun launa á þessu ári og 7,1% á því næsta
Laun eru á meðal þeirra stærða sem við spáum fyrir um í nýútgefinni Þjóðhags- og verðbólguspá. Óvissan um þann lið er þó nokkur, enda losna kjarasamningar á næstu vikum, bæði á almennum markaði og þeim opinbera. Við gerum ráð fyrir að laun hækki um 7,6% á þessu ári og svo 7,1% á næsta ári, sem er nokkuð í takt við breytingar síðustu ára. Við gerum áfram ráð fyrir þónokkurri verðbólgu á næstu mánuðum, þótt hún hjaðni, og búumst við að kaupmáttur dragist saman um 0,4% milli áranna 2021 og 2022 og aukist aðeins um 0,5% á næsta ári.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








