Þjóð­hags- og verð­bólgu­spá 2021-2023

Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að efnahagsbatinn hefjist á öðrum ársfjórðungi 2021 og landsframleiðslan vaxi um tæp 5% á árinu. Góður gangur í bólusetningum, bæði innanlands og í helstu viðskiptalöndum, bendir til þess að ferðaþjónustan taki fyrr við sér en reiknað var með 2020.
Hraunrennsli
18. maí 2021

Birtir til eftir þungbúið ár

Við spáum hóflegri, en þó áfram kröftugum, hagvexti á næsta ári en að það hægi enn frekar á hagvexti árið 2023 en við höfðum áður reiknað með. Útlit er fyrir að verðbólga gangi hægt og sígandi niður eftir því sem líður á árið samhliða því sem alþjóðleg áhrif faraldursins á hrávöruverð og flutningskostnað fjara út. Áhrif vegna styrkingar krónunnar síðustu mánuði, umtalsverður framleiðsluslaki og varfærin hækkun stýrivaxta á seinni hluta ársins, ætti að skila sér í verðbólgu sem verður nálægt markmiði Seðlabanka Íslands um mitt næsta ár.

Helstu niðurstöður:

  • Útlit er fyrir að böndum verði komið á Covid-19 heimsfaraldurinn á seinni hluta árs 2021 og að landsframleiðslan hér á landi aukist um 4,9% á árinu. Útflutningur eykst um ríflega 15%, einkaneysla um 3,8% og heildarfjármunamyndun um 5,5%.
  • Reiknað er með samfelldum hagvexti næstu tvö árin; 3,3% árið 2022 og 2,2% árið 2023. Áætlað er að verg landsframleiðsla nái sama stigi og fyrir faraldurinn undir lok árs 2022.
  • Gert er ráð fyrir um 800.000 erlendum ferðamönnum í ár, 1,5 milljónum á næsta ári og um 2 milljónum árið 2023.
  • Draga mun úr atvinnuleysi en útlit er fyrir að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 8,8% á þessu ári, lækki í 5,5% á næsta ári og verði nálægt 4,6% árið 2023.
  • Gert er ráð fyrir að viðskiptajöfnuður við útlönd verði jákvæður um að jafnaði 1,1% af landsframleiðslu næstu þrjú árin.
  • Verðbólgan nær hámarki á öðrum ársfjórðungi 2021 og verður töluvert yfir markmiði út þetta ár en verður komin í markmið um mitt næsta ár. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 4% í ár, 2,5% á næsta ári og 2,6% árið 2023.
  • Spáin gerir ráð fyrir að stýrivextir verði hækkaðir á seinni helmingi ársins og að meginvextir Seðlabanka Íslands verði 1,5% í árslok, hækki í 2,5% árið 2022 og verði 2,75% í lok árs 2023.
  • Fasteignamarkaðurinn tók verulega við sér í vor í kjölfar vaxtalækkana. Við gerum ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 10,5% í ár, milli ársmeðaltala, en að það hægi verulega á hækkunartaktinum næstu ár.
  • Ríkissjóður hefur tekið á sig miklar byrðar í kreppunni. Fjárlög ársins 2021 voru samþykkt með 326 ma.kr. halla. Samneysluútgjöld jukust um 3,1% á árinu 2020 og við spáum 2% aukningu í ár.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í hagspá Hagfræðideildarinnar sem nær til ársloka 2023.

Stefnir í kröftugan efnahagsbata á næstu árum

Góður gangur í bólusetningum innanlands og í helstu viðskiptalöndum eykur líkur á að ferðaþjónustan taki við sér fyrr en við reiknuðum með í fyrra. Hagvaxtarhorfurnar fyrir árið í ár eru því töluvert betri en þær voru í október 2020. Við gerum ráð fyrir að efnahagsbatinn hefjist á öðrum ársfjórðungi 2021 og að landsframleiðslan vaxi um tæp 5% á árinu, studd af kröftugum vexti útflutnings, einkaneyslu og fjármunamyndunar. Við reiknum með hóflegri en þó áframhaldandi kröftugum hagvexti 2022 en að það hægi enn frekar á hagvexti árið 2023 og hann verði þá ríflega 2%.

  Í ma. kr. Magnbreytingar frá fyrra ári (%)
Landsframleiðsla og helstu undirliðir hennar 2020 2020 2021 2022 2023
Verg landsframleiðsla 2.941 -6,6 (-8,5) 4,9 (3,4) 3,3 (5,0) 2,2 (4,9)
Einkaneysla 1.512 -3,3 (-5,5) 3,8 (3,5) 3,5 (4,0) 3,0 (3,0)
Samneysla 809 3,1 (3,5) 2,0 (2,5) 1,5 (2,0) 1,5 (2,0)
Fjármunamyndun 620 -6,8 (-10,3) 5,5 (5,9) 2,1 (5,3) 4,8 (5,3)
Atvinnuvegafjárfesting 350 -8,7 (-16,9) 4,3 (5,7) 6,8 (7,1) 7,8 (7,8)
Fjárfesting í íbúðarhúsnæði 167 -1,2 (-16,0) -4,0 (2,5) -3,0 (2,0) 1,0 (5,0)
Fjárfesting hins opinbera 102 -9,3 (20,0) 25,0 (10,0) -5,0 (5,0) 0,0 (0,0)
Þjóðarútgjöld alls 2.958 -1,9 (-4,1) 3,7 (3,7) 2,7 (3,7) 3,0 (3,2)
Útflutningur vöru og þjónustu 1.003 -30,5 (-29,6) 15,3 (7,4) 14,6 (16,6) 8,5 (13,1)
Innflutningur vöru og þjónustu 1.020 -22,0 (-22,0) 11,5 (8,2) 13,0 (13,0) 10,5 (9,0)

 
Stýrivextir og verðbólga   2020 2021 2022 2023
Meginvextir Seðlabanka Íslands (7 daga bundin innlán, lok árs %)   0,75 (1,00) 1,50 (1,00) 2,50 (1,75) 2,75 (3,50)
Verðbólga (ársmeðaltal, %)   2,8 (2,9) 4,0 (3,1) 2,5 (2,7) 2,6 (2,6)
Gengi evru (lok árs)   156 (162) 145 (162) 140 (158) 140 (155)
Fasteignaverð (breyting milli ársmeðaltala, %)   4,8 (4,5) 10,5 (4,0) 4,5 (4,0) 3,5 (4,0)

 
Vinnumarkaður   2020 2021 2022 2023
Vísitala launa (ársmeðaltal, %)   6,3 (5,8) 7,9 (6,1) 5,6 (5,0) 3,5 (4,0)
Kaupmáttur launa (ársmeðaltal, %)   3,4 (2,8) 3,8 (3,0) 3,1 (2,3) 0,9 (1,3)
Atvinnuleysi (ársmeðaltal, %)   7,9 (7,8) 8,8 (8,4) 5,5 (5,8) 4,6 (4,8)

 
Viðskiptajöfnuður   2020 2021 2022 2022
Fjöldi erlendra ferðamanna (þúsund manns)   479 (500) 800 (650) 1.500 (1.300) 2.000 (1.900)
Vöru- og þjóustujöfnuður (%VLF)   -0,6 (-1,0) -0,2 (-1,0) 0,3 (0,8) -0,2 (2,9)
Viðskiptajöfnuður (%VLF)   1,0 (0,1) 1,2 (-0,3) 1,5 (1,4) 0,7 (3,4)

Tölur innan sviga eru spá Hagfræðideildar frá október 2020

Útlit fyrir að verðbólga verði yfir markmiði fram á mitt ár 2022

Verðbólguhorfur til skamms tíma hafa versnað nokkuð frá því haustið 2020. Það skýrist m.a. af aukinni spennu á fasteignamarkaði sem hefur leitt til hærri húsnæðiskostnaðar. Verð á þjónustu hefur einnig hækkað meira en reiknað var með og alþjóðlegar verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa versnað. Við reiknum með að verðbólgan nái hámarki á öðrum ársfjórðungi 2021 og verði töluvert yfir markmiði Seðlabankans út þetta ár en verði komin í markmið um mitt næsta ár. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 4% í ár en við markmið næstu tvö árin, þ.e. 2,5% að meðaltali á 12 mánaða tímabili.

Við eigum von á að peningastefnunefnd Seðlabankans taki fyrsta skrefið í vaxtahækkunum á 3. ársfjórðungi 2021 og hækki vexti um 0,25 prósentustig í ágúst. Búast má við að það dragi jafnt og þétt úr framleiðsluslakanum í hagkerfinu þegar líður á spátímabilið og að stýrivextir verði hækkaðir í smáum skrefum í 2,75% í lok spátímans.

Horfur á að viðspyrnan í ferðaþjónustu sé hafin

Bólusetningar hér á landi og í helstu viðskiptalöndum Íslands í ferðaþjónustu, Bretlandi og Bandaríkjunum, hafa gengið mun hraðar en við reiknuðum með síðastliðið haust. Það er því útlit fyrir að ferðaþjónustan nái viðspyrnu fyrr en talið var og að fjöldi erlendra ferðamanna verði í kringum 800.000 á árinu. Dvalarlengd þeirra ferðamanna sem komið hafa í faraldrinum hefur verið töluvert lengri en í meðalári og teljum við að svo verði áfram á þessu og fram á næsta ár. Sú forsenda, ein og sér, hefur umtalsverð áhrif til aukins útflutnings ferðaþjónustu. Jafnframt er útlit fyrir nokkra aukningu á útflutningi sjávarafurða og áls á árinu. Samantekið gerum við ráð fyrir mun meiri vexti útflutnings á árinu en áður, eða um 15% aukningu milli ára, sem er tvöfalt meiri vöxtur en við reiknuðum með í október sl.

Þrátt fyrir þungan vinnumarkað hafa laun hækkað töluvert

Árshækkun launavísitölunnar hefur verið í kringum 10% í upphafi árs og kaupmáttaraukningin umtalsverð, eða 6%. Áfram er reiknað með miklum launahækkunum á spátímabilinu, en við gerum þó ráð fyrir að draga muni úr hækkunum.

Þrátt fyrir samdrátt launatekna er áætlað að á árinu 2020 hafi ráðstöfunartekjur heimila aukist um 7,1% og ráðstöfunartekjur á mann um 5,4%. Launatekjur heimilanna drógust saman um 2% milli ára, en lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 27%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 2,5% á árinu 2020 og hefur aukist á hverju ári frá 2011.

Starfsfólki sem fékk staðgreiðsluskyldar tekjur fækkaði um tæp 9% frá upphafi ársins 2019 til sama tíma 2020. Starfsfólki í opinberri stjórnsýslu fjölgaði um rúmlega 5% á sama tíma.

Flugvél

Meira atvinnuleysi en í síðustu kreppum

Stjórnvöld hafa gripið til viðamikilla ráðstafana til þess að bæta stöðu heimila og fyrirtækja og milda áhrif kreppunnar. Almennt atvinnuleysi var 10,4% í apríl 2021 og heildaratvinnuleysi 11,5% og hefur minnkað á síðustu mánuðum. Hagfræðideild reiknar með að atvinnuleysi án hlutabóta verði að meðaltali 8,6% á árinu 2021, 5,3% á árinu 2022 og 4,3% á árinu 2023.

Einkaneysla dróst minna saman en útlit var fyrir

Neysla landsmanna fylgdi að miklu leyti bylgjum faraldursins og minnkaði því mest á öðrum og fjórða ársfjórðungi 2020 þegar smit voru mörg í samfélaginu og harðar samkomutakmarkanir við lýði. Eftir því sem leið á árið aðlöguðu Íslendingar neysluna að aðstæðum og varð netverslun til að mynda áberandi. Útlit er fyrir nokkuð kröftugan vöxt einkaneyslu árið 2021, eða um 3,8% milli ára, og að hún verði svipuð að umfangi og árið 2019, áður en faraldurinn skall á. Framan af mun neyslan aðallega fara fram innanlands, meðan ferðalög eru fátíð, en færist svo í auknum mæli út fyrir landsteinana eftir því sem faraldurinn rénar. Landsmenn virðast bjartsýnir á framtíðina og mun það að líkindum endurspeglast í aukinni neyslu, líkt og sagan sýnir okkur.

Kröftugri atvinnuvegafjárfesting en gert var ráð fyrir

Við gerum ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting verði meiri á þessu ári en við spáðum í október 2020. Aðstæður til aukinnar fjárfestingar hafa líklega aldrei verið betri. Vextir hafa aldrei verið jafn hagstæðir, eiginfjárhlutföll með hæsta móti, aðgangur að lánsfjármagni greiður, gengi krónunnar sterkara, flestar greinar utan ferðaþjónustu ganga ágætlega og bjartsýni stjórnenda til næstu sex mánaða er nálægt sögulegu hámarki. Við spáum því að atvinnuvegafjárfesting aukist um ríflega 4% á þessu ári og að almenn atvinnuvegafjárfesting vaxi um 12%.

Alþingishús

Ríkissjóður hefur tekið á sig miklar byrðar í kreppunni

Fjárlög ársins 2021 voru samþykkt með 326 ma.kr. halla. Samneysluútgjöld jukust um 3,1% á árinu 2020 og við spáum 2% aukningu í ár. Tekjur hins opinbera lækkuðu um 2,3% á nafnverði milli 2019 og 2020. Tekjur ríkissjóðs drógust saman um 4,8% en tekjur sveitarfélaga jukust um 5,3%.

Margboðað fjárfestingarátak stjórnvalda hefur látið á sér standa og opinber fjárfesting minnkaði töluvert á árunum 2019 og 2020. Útlit er þó fyrir að opinber fjárfesting verði mikil í ár. Fjárfestingarátak ríkissjóðs verður í fullum gangi á árinu auk þess sem fjárhagsáætlanir sveitarfélaga benda einnig til töluverðs vaxtar. Hagfræðideild reiknar með að opinber fjárfesting aukist um 25% árið 2021, árið 2022 verði 5% samdráttur og óbreytt 2023.

Töluverður kraftur á fasteignamarkaði og í íbúðauppbyggingu

Árið 2020 hækkaði íbúðaverð um 4,8% á milli ára sem er nokkuð hófleg hækkun í sögulegu samhengi og einnig í ljósi þess að vextir lækkuðu verulega, sparnaður jókst og kaupmáttur einnig. Við gerum ráð fyrir því að íbúðaverð hækki töluvert meira í ár eða um 10,5% en svo hægi verulega á hækkunartaktinum á næstu árum. Þegar líður á spátímann er viðbúið að vextir hækki sem mun draga úr kaupkrafti og eftirspurn eftir íbúðum, ásamt því sem ferðalög og önnur neysla verður fyrirferðameiri og þar af leiðandi áhugi fólks á húsnæðiskaupum minni.

Mikill kraftur hefur verið í íbúðauppbyggingu á síðustu árum og gerum við ráð fyrir að svo verði áfram, þrátt fyrir að aðeins hægi á vextinum. Áform stjórnvalda um íbúðauppbyggingu spila þar stóran þátt, auk þess sem hækkun íbúðaverðs mun hvetja til áframhaldandi íbúðauppbyggingar. Í fyrra mældist samdráttur í íbúðafjárfestingu aðeins 1% milli ára sem kom nokkuð á óvart og skilaði metfjöldi fullbúinna íbúða sér á markað. Við spáum því að íbúðafjárfestingin muni halda áfram að dragast lítilsháttar saman á næstu árum.

Lesa hagspá Hagfræðideildarinnar í heild (PDF)

Þú gætir einnig haft áhuga á
Evrópsk verslunargata
22. júlí 2024
Vikubyrjun 22. júlí 2024
Í síðustu viku birtust gögn sem gáfu til kynna talsverðan kraft á íbúðamarkaði um þessar mundir. Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% milli mánaða í júní og vísitala leiguverðs um 2,5%.
Hús í Reykjavík
18. júlí 2024
Spenna á íbúðamarkaði
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% á milli mánaða í júní. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs jókst úr 8,4% í 9,1% en svo mikil hefur árshækkunin ekki verið síðan í febrúar 2023. Leiguverð hækkaði einnig á milli mánaða í júní, alls um 2,5%. Mikil velta var á íbúðamarkaði í júní og ljóst að íbúðamarkaður hefur tekið verulega við sér.
Gönguleið
15. júlí 2024
Vikubyrjun 15. júlí 2024
Erlendir ferðamenn voru 9% færri í júní á þessu ári en í júní í fyrra. Atvinnuleysi var 3,1% í júní og er áfram lítillega meira en á sama tíma í fyrra.
Fataverslun
10. júlí 2024
Spáum að verðbólga aukist lítillega og verði 5,9% í júlí 
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,15% á milli mánaða í júlí og að verðbólga aukist úr 5,8% í 5,9%. Við gerum ráð fyrir að júlímánuður verði nokkuð dæmigerður þar sem sumarútsölur verða til lækkunar á vísitölunni en flugfargjöld til útlanda til hækkunar. Við spáum nokkurn veginn óbreyttri verðbólgu í ágúst og september, en að verðbólga hjaðni í 5,4% í október. 
8. júlí 2024
Vikubyrjun 8. júlí 2024
Hátt vaxtastig hefur hvatt til sparnaðar og hægt á eftirspurn í hagkerfinu. Innlán heimila voru 20% meiri í maí síðastliðnum en í maí í fyrra, samkvæmt nýbirtum Hagvísum Seðlabanka Íslands. Óbundin innlán hafa aukist langmest.
1. júlí 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 1. júlí 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Litríkir bolir á fataslá
1. júlí 2024
Vikubyrjun 1. júlí 2024
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48% í júní. Verðbólga mældist því 5,8% og lækkaði úr 6,2%. Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum í mars og apríl dróst saman um 4,6% að raunvirði og launavísitalan hækkaði um 0,2% í maí, samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í síðustu viku.
Flugvél á flugvelli
27. júní 2024
Verðbólga í takt við væntingar – lækkar í 5,8%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48% á milli mánaða í júní og við það lækkaði ársverðbólga úr 6,2% í 5,8%. Reiknuð húsaleiga, hækkandi flugfargjöld til útlanda og verðhækkun á hótelgistingu höfðu mest áhrif til hækkunar á vísitölunni. Á móti lækkaði verð á fötum og skóm, húsgögnum og heimilisbúnaði og ökutækjum á milli mánaða í júní.
25. júní 2024
Velta í hagkerfinu minnkar á milli ára
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum dróst saman um 4,6% að raunvirði í mars og apríl og um 2% í janúar og febrúar samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Þróunin er ólík eftir útflutningsgreinum. Ferðaþjónusta eykst lítillega á milli ára, velta í sjávarútvegi og álframleiðslu minnkar en velta í lyfjaframleiðslu eykst til muna.
Bílar
25. júní 2024
Merki um lítilsháttar kólnun á vinnumarkaði
Atvinnuleysi er nú aðeins meira en á sama tíma í fyrra og laun hækka minna. Nýbirt launavísitala sýnir 0,2% hækkun á milli mánaða í maí og hafa laun nú hækkað um 6,7% á síðustu tólf mánuðum. Allar líkur eru á að á þessu ári hækki laun mun minna en á síðasta ári, enda hafa nýir kjarasamningar minni hækkanir í för með sér en þeir síðustu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur