Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um vaxta­lækk­un um 0,5 pró­sentu­stig

Við spáum 0,5 prósentustiga vaxtalækkun í næstu viku. Verðbólga mældist 4,6% í janúar. Hún hjaðnaði í takt við spá okkar og hefur þokast niður um 0,5 prósentustig frá síðustu vaxtaákvörðun. Hægt hefur á íbúðaverðshækkunum og verðbólguvæntingar virðast stöðugri en áður. Laun hafa hækkað mun minna en áður og vinnumarkaður hefur leitað í eðlilegra horf.  
30. janúar 2025

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 5. febrúar. Nefndin lækkaði vexti á síðustu tveimur fundum, í október og nóvember, eftir rúmt ár af óbreyttu vaxtastigi. Vextirnir standa nú í 8,5% og ef tekið er mið af liðinni verðbólgu standa raunstýrivextir í 3,9%.  

Spáum óbreyttu taumhaldi frá síðustu ákvörðun 

Verðbólga hefur verið á rólegri niðurleið síðustu mánuði og stýrivextir nokkurn veginn elt hjöðnunina frá því á haustmánuðum. Þegar peningastefnunefnd kom síðast saman, þann 20. nóvember, stóð verðbólga í 5,1% og hafði hjaðnað um 0,3 prósentustig frá októberfundinum. Þá var ákveðið að lækka stýrivexti um 0,5 prósentustig og við það lækkuðu raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu úr 3,9% í 3,4%.  

Verðbólga mældist 4,6% í janúar og hefur hjaðnað um 0,8 prósentustig frá því áður en vaxtalækkunarferlið hófst í byrjun október (5,4% verðbólga í september). Lækkun stýrivaxta um 0,5 prósentustig myndi færa raunstýrivexti aftur niður í 3,4%, sama gildi og eftir síðustu ákvörðun. Þótt 50 punkta lækkun virðist stórt skref hefði hún í för með sér þétt og óbreytt taumhald. 

Minnkandi verðþrýstingur á húsnæðismarkaði slær á verðbólgu 

Hjöðnun verðbólgunnar skýrist langmest af því hversu verulega hefur hægt á hækkun húsnæðisliðarins líkt og við greindum frá fyrr í dag. Árshækkun húsnæðisliðarins var 13,8% á októberfundi peningastefnunefndar en er núna 9,7%. Aðrir liðir hafa haldist tiltölulega stöðugir, enda hækkaði verðbólga án húsnæðis lítillega í janúar.   

Verðbólguvæntingar á réttri leið 

Verðbólguvæntingar skipta Seðlabankann miklu máli. Verðbólgutölur segja til um það hvernig verðlag hefur hækkað á síðustu tólf mánuðum, en væntingar um verðbólgu gefa hugmynd um það sem koma skal, enda geta væntingar einar og sér haft veruleg áhrif á verðbólguþróun. Þær hafa áhrif á verðsetningu fyrirtækja og launakröfur launafólks, og því er mikið í húfi að halda þeim í skefjum.  

Einn mælikvarði á væntingar er verðbólguálag á skuldabréfamarkaði. Það hefur haldist tiltölulega stöðugt síðustu vikur. Munur á skammtímaálagi og langtímaálagi hefur minnkað á síðustu mánuðum, eftir því sem verðbólga hefur hjaðnað, og markaðurinn virðist gera ráð fyrir að verðbólga eftir fimm ár verði svipuð og nú, í kringum 4%.  

Væntingar má líka meta út frá könnunum Seðlabankans, annars vegar meðal heimila og fyrirtækja og hins vegar meðal markaðsaðila. Niðurstöður úr nýlegri væntingakönnun markaðsaðila voru birtar í gær og samkvæmt þeim hafa væntingar lítið breyst frá því í nóvember. Markaðsaðilar vænta þess að verðbólga hjaðni smám saman en komist ekki niður í markmið á næstunni. Væntingar eru um 3,6% verðbólgu eftir eitt ár, 3,3% eftir tvö ár og 3,4% að meðaltali næstu fimm árin. 

Hátt vaxtastig segir til sín á íbúðamarkaði og vinnumarkaði 

Hátt vaxtastig hefur dregið úr umsvifum í hagkerfinu á síðustu tveimur árum. Merki um hægagang er meðal annars að finna á íbúðamarkaði, þar sem verðhækkanir hafa verið nokkuð hófstilltar á síðustu mánuðum. Vísitala íbúðaverðs var á góðu flugi um mitt síðasta ár, um það leyti sem eftirspurn eftir íbúðum jókst skyndilega vegna hamfaranna í Grindavík. Hægja tók á hækkunartaktinum á haustmánuðum, líklega ekki síst í tengslum við hækkanir á verðtryggðum vöxtum lánastofnana. Íbúðaverð lækkaði lítillega á milli mánaða í desember og árshækkun íbúðaverðs fór úr 10,6% í nóvember í 7,7% í desember. Raunverð íbúða er 5% hærra en á sama tíma í fyrra, sé verðið leiðrétt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis. 

Vinnumarkaðurinn hefur leitað í jafnvægi á síðustu mánuðum. Laun hækkuðu að meðaltali mun minna á síðasta ári en árin þrjú á undan, bæði vegna minni kjarasamningsbundinna hækkana en síðustu ár og minna launaskriðs. Kaupmáttur hefur lítið aukist og ljóst að vinnumarkaðurinn styður nú mun betur við markmið um verðstöðugleika en áður. 

Skýr merki eru um minnkandi eftirspurn eftir starfsfólki á síðustu mánuðum en samkvæmt könnun Seðlabankans meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækjanna telja sífellt færri stjórnendur að vöntun sé á starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði. Atvinnuleysi hefur þó lítið breyst og síðustu mánuði hefur það verið 0,2-0,4 prósentustigum meira en það var í sama mánuði árið áður.  

Áfram er tilefni til að fylgjast vel með stöðunni á vinnumarkaði. Kjaraviðræður kennara virðast enn í hnút og að óbreyttu hefjast skæruverkföll á ný nú um mánaðamót janúar og febrúar. Sú breiða sátt sem náðist með langtímakjarasamningum á síðasta ári er mikilvægur þáttur í því að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Því er mikið í húfi að viðhalda þeirri sátt.   

Seigla í kortaveltu og neysla hugsanlega áhyggjuefni 

Gögn um kortaveltu bera þess merki að neysla landsmanna hafi haldið ágætum dampi þrátt fyrir hátt vaxtastig. Aukin kortavelta skýrist líklega ekki síst af uppsöfnuðum sparnaði eftir langt hávaxtaskeið, en einnig spila inn í kröftugar launahækkanir síðustu ára. Peningastefnunefnd verður líklega á varðbergi gagnvart neyslustiginu næstu mánuði og leitast við að koma í veg fyrir að vaxtalækkanir ýti sparnaði of hratt út í neyslu.  

Teljum langmestar líkur á 50 punkta lækkun 

Í næstu viku verða tólf vikur frá síðustu ákvörðun og aðeins sex vikur í þá næstu. Frá síðasta fundi hefur verðbólga hjaðnað um 0,5 prósentustig.  Við teljum að nefndinni þyki tilefni til að lækka vexti í takt við hjöðnunina, um 0,5 prósentustig. Verðbólguhorfur eru líka ágætar en samkvæmt okkar spá verður verðbólga 3,9% í mars og apríl.  

Auk óvissu í tengslum við kjaraviðræður kennara snúa óvissuþættir í verðbólgu- og vaxtaþróun ekki síst að efnahagshorfum erlendis. Harðnandi milliríkjadeilur og hömlur á alþjóðaviðskipti geta hratt smitað út frá sér hingað til Íslands, aukið verðbólgu og dregið úr hagvexti.  

Við teljum að peningastefnunefnd taki varfærin næstu skref, enda segir í síðustu yfirlýsingu að áfram þurfi að „viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma“. 

Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Niðurstaða Meginvextir
8. feb. 2023 +0,50% ÁJ, RS, GJ, GZ, HS HS (+0,75%) +0,50% 6,50%
22. mars 2023
+1,00% ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS  

+1,00%

7,50%
24. maí 2023 +1,25% ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (+1,00%)   +1,25% 8,75%
23. ágúst 2023 +0,50% ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (+0,25%)   +0,50% 9,25%
4. október 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁP HS (+0,25%) ÁÓP (+0,25%) óbr. 9,25%
22. nóvember 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS   óbr. 9,25%
7. febrúar 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
20. mars 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
8. maí 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS AS (-0,25%)   óbr. 9,25%
21. ágúst 2024 óbr. ÁJ, RS, TB, ÁP, HS     óbr. 9,25%
2. október 2024 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁP, HS   HS (óbr.) -0,25% 9,00
20. nóvember 2024 -0,50% ÁJ, RS, TB,  ÁÓP, HS     -0,50% 8,50%
5. febrúar 2025            
19. mars 2025            
21. maí 2025            
20. ágúst 2025            
8. október 2025            
19. nóvember 2025            

AS: Arnór Sighvatsson, ÁJ: Ásgeir Jónsson, ÁP: Ásgerður Ósk Pétursdóttir, GJ: Gunnar Jakobsson, GZ: Gylfi Zoëga, HS: Herdís Steingrímsdóttir, KÓ: Katrín Ólafsdóttir, RS: Rannveig Sigurðardóttir, TB: Tómas Brynjólfsson. Heimild: Seðlabanki Íslands

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
13. nóv. 2025
Spáum 4,3% verðbólgu í nóvember
Við spáum því að verðbólga standi óbreytt á milli mánaða og mælist 4,3% í nóvember. Flugfargjöld til útlanda verða til lækkunar á vísitölunni, en reiknuð húsaleiga og matarkarfan verða til hækkunar. Við búumst við aukinni verðbólgu á næstu mánuðum.
Hverasvæði
10. nóv. 2025
Raungengi enn í hæstu hæðum
Raungengi krónunnar er mjög hátt í sögulegu samhengi en hefur gefið lítillega eftir á allra síðustu dögum. Horfur í álútflutningi eru dræmar eftir bilun hjá Norðuráli og aflaheimildir gefa fyrirheit um samdrátt í útflutningi sjávarafurða. Ferðaþjónusta hefur vaxið umfram væntingar það sem af er ári og telja má horfur á vexti í nýjustu útflutningsstoðum Íslands. Velta samkvæmt VSK-skýrslum hefur þróast með svipuðum hætti í útflutningsgeiranum og í innlenda hagkerfinu, en ávöxtun hlutabréfa félaga í kauphöllinni með tekjur í erlendri mynt er mun lakari en fyrirtækja með tekjur í íslenskum krónum.
10. nóv. 2025
Vikubyrjun 10. nóvember 2025
Fáar áhugaverðar hagtölur voru birtar í síðustu viku, en í þessari viku birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir ferðamannatölur. Uppgjörstímabilið fyrir þriðja ársfjórðung er í fullum gangi.
Byggingakrani og fjölbýlishús
6. nóv. 2025
Óvissa á íbúðamarkaði og takmarkaðar raunverðshækkanir í kortunum 
Hátt vaxtastig og ströng lánþegaskilyrði hafa slegið verulega á verðhækkanir á íbúðamarkaði. Á sama tíma hefur fjöldinn allur af nýjum íbúðum risið og sölutími þeirra lengst til muna. Eftir að dómur Hæstaréttar í vaxtamálinu féll hafa viðskiptabankarnir tekið lánaframboð til endurskoðunar og það sama má segja um suma lífeyrissjóðina. Seðlabankinn ákvað í síðustu viku að slaka lítillega á lánþegaskilyrðum.  
3. nóv. 2025
Mánaðamót 1. nóvember 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Fataverslun
3. nóv. 2025
Vikubyrjun 3. nóvember 2025
Verðbólga jókst umfram væntingar í október og mældist 4,3%. Svo mikil hefur verðbólga ekki verið síðan í febrúar síðastliðnum. Telja má áhyggjuefni að aukin verðbólga skýrist ekki af tilfallandi sveiflukenndum liðum heldur virðist undirliggjandi verðþrýstingur hafa aukist. Í þessari viku halda félög áfram að birta uppgjör og hugsanlega má búast við fleiri púslum í breytta mynd af framboði íbúðalána í kjölfar vaxtamálsins.  
Smiður
31. okt. 2025
Minnkandi spenna á vinnumarkaði og minni fólksfjölgun
Eftirspurn eftir vinnuafli hefur minnkað og dregið hefur úr hækkun launa. Atvinnuleysi hefur aukist smám saman og rólegri taktur í atvinnulífinu hefur endurspeglast í hægari fólksfjölgun. Kaupmáttur hefur aukist jafnt og þétt og við teljum að þótt hægi á launahækkunum komi kaupmáttur til með að aukast áfram á næstu árum. Mikill kraftur er í neyslu landsmanna, kortavelta eykst sífellt og Íslendingar hafa aldrei farið í fleiri utanlandsferðir.
Paprika
30. okt. 2025
Verðbólga jókst umfram væntingar
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,47% á milli mánaða í október og verðbólga jókst úr 4,1% í 4,3%. Vísitala neysluverðs hækkaði meira en við bjuggumst við, ekki síst reiknuð húsaleiga og verð á mat og drykk. Skammtímaspá okkar gerir nú ráð fyrir að verðbólga haldist í 4,3% út árið, en aukist svo í janúar og mælist 4,5%.
27. okt. 2025
Vikubyrjun 27. október 2025
Íslenska hagkerfið verður í hægum vaxtartakti á næstu árum gangi hagspá sem við birtum í síðustu viku eftir. Á fimmtudag koma verðbólgutölur fyrir október og við eigum von á að verðbólga hækki úr 4,1% í 4,2%.
Hagspá október 2025
22. okt. 2025
Kólnandi kerfi en kraftmikil neysla
Hagvöxtur verður 1,5% á þessu ári og 1,7% á því næsta, samkvæmt nýrri hagspá Landsbankans. Hagvöxtur verður ekki síst drifinn áfram af neyslu innanlands en á sama tíma er útlit fyrir smám saman minnkandi spennu í atvinnulífinu. Verðbólga reynist áfram þrálát næstu misseri og ekki eru horfur á að hún komist niður í markmið Seðlabankans á spátímabilinu. Því má áfram búast við háum raunstýrivöxtum.