Spáum hóflegum vexti ferðaþjónustunnar næstu ár
Segja má að ferðaþjónustan hafi lagst í dvala á meðan COVID-faraldurinn reið yfir. Ferðamönnum fjölgaði svo hratt á ný þegar ferðatakmörkunum var aflétt og upp úr miðju síðasta ári hafði ferðaþjónustan náð sér nokkurn veginn aftur á strik. Um 1,7 milljón ferðamanna fór um Keflavíkurflugvöll í fyrra og í nýrri hagspá Hagfræðideildar spáum við 2,2 milljónum ferðamanna í ár.
Spáin gerir svo ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi rólega á næstu árum og þeir verði 2,5 milljónir árið 2026. Útlit er fyrir að innviðir ferðaþjónustu, svo sem fjöldi gistirýma og afkastageta Leifsstöðvar setji greininni skorður. Það má heldur ekki útiloka að sveiflur í efnahagsástandi ytra og óvissuþættir í tengslum við stríðsátök í Evrópu og fyrir botni Miðjarðarhafsins hafi áhrif á komu ferðamanna hingað, þótt slíkir þættir virðist ekki hafa verið ráðandi á síðustu árum.
Kortavelta á föstu gengi aldrei meiri en nú
Eftir því sem liðið hefur á árið hefur kortavelta erlendra ferðamanna aukist nokkuð, sé hún skoðuð á föstu gengi. Í september fór uppsöfnuð kortavelta fram úr því sem var á metárinu 2017 og hefur því aldrei verið meiri en nú. Í takt við þá þróun dvelja ferðmenn einnig lengur en þeir gerðu á metferðamannaárunum 2017 og 2018. Meðaldvölin er þó aðeins styttri en í fyrra, enda styttist hún almenn eftir því sem ferðamönnum fjölgar.
Nýting á hótelherbergjum og sætanýting hjá flugfélögum með besta móti
Nýting á hótelherbergjum hefur verið nokkuð góð það sem af er ári. Í ágúst var nýting hótelherbergja 87,4% og hótelherbergi voru um 11.700 talsins. Í ágúst árið 2018 var nýtingarhlutfallið 84,5%, og hótelherbergin aðeins færri en nú, tæplega 10.500. Hótelherbergjum hefur því ekki fjölgað mikið frá því fyrir faraldur, en nýtingarhlutfallið yfir sumarið helst nokkuð stöðugt.
Sætanýting íslensku flugfélaganna hefur verið góð það sem af er ári. Bæði flugfélögin hafa aukið sætaframboð, og hlutfall tengifarþega hjá báðum flugfélögum er lægra en þegar Wow Air var enn starfandi. Það þýðir að fleiri ferðamenn eru í hverri vél.
Flugfélög og hótel virðast vinna nálægt fullum afköstum yfir sumarmánuðina. Hingað til hefur ekki orðið vart við að ytri áhrif eins og styrking krónunnar, eða efnahagsþrengingar erlendis hafi teljandi áhrif á komu ferðamanna hingað. Þróunin næstu ár veltur því að miklu leyti á getu flugfélaga og hótela til að taka á móti þeim ferðamönnum sem hingað vilja koma. Eftirspurn eftir ferðalögum hingað virðist enn sem komið er vera töluverð. Þess vegna hefur Hagfræðideild Landsbankans spáð hóflegri fjölgun ferðamanna næstu árin.