Hagspá 2023-2026: Hag­kerfi í leit að jafn­vægi

Eftir að hafa ofhitnað í kjölfar Covid-faraldursins hefur hægt á hagkerfinu og ljóst að hagvöxtur verður töluvert minni í ár en í fyrra. Hátt vaxtastig hefur tekið að slá á eftirspurn, bæði einkaneyslu og fjárfestingu og útlit er fyrir að verðbólga hjaðni hægt og rólega á næstu mánuðum. Við teljum að Seðlabankinn hækki vexti ekki meira í bili en sjáum ekki fram á að vextir fari að lækka fyrr en á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Við spáum því að stýrivextir verði komnir niður í 4,25% í lok árs 2026.
Hagspá 2023
17. október 2023

Hagvöxtur á Íslandi verður 3,1% í ár og 2,1% á næsta ári, gangi hagspáin eftir. Á síðustu mánuðum hafa áhrif aukins peningalegs aðhalds gert vart við sig víða í hagkerfinu. Við teljum að hátt vaxtastig haldi áfram að halda aftur af einkaneyslu á næstunni. Horfur eru á að áhrifin komi skýrar fram í atvinnulífinu á næstu mánuðum, fjármunamyndun aukist aðeins lítillega í ár og atvinnuleysi mjakist hægt og rólega upp á við á næstu tveimur árum.

Hagkerfið rétti hratt úr kútnum á síðasta ári og hagvöxtur mældist 7,2%. Hann var drifinn áfram af ört vaxandi ferðaþjónustu, einkaneyslu og fjárfestingu, en einnig mjög mikilli fólksfjölgun. Það var fyrirséð að kröftugur hagvöxtur síðasta árs væri tímabundinn, enda átti hagkerfið inni viðsnúning eftir áfallið sem fylgdi faraldrinum.

Eftirspurn í hagkerfinu komst fljótt á skrið þegar takmarkanir voru afnumdar. Ferðaþjónustan náði vopnum sínum á tiltölulega stuttum tíma og spenna á vinnumarkaði kallaði á stóraukinn aðflutning erlends starfsfólks. Sögulega lágt vaxtastig í faraldrinum samhliða litlu aðhaldi í ríkisfjármálum, hleypti innlendri eftirspurn líka hratt af stað. Hagkerfið ofhitnaði og landsmenn fengu verðbólguna í fangið. Auk þess að vera innflutt var verðbólgan í fyrstu drifin áfram af verðhækkunum á húsnæðismarkaði sem fóru raunar að gera vart við sig í miðjum faraldrinum þegar aðgengi að lánsfé var aukið til muna. Verðbólgan hefur svo með tímanum orðið almennari og reynst erfið viðureignar.

Stýrivextir hafa verið hækkaðir um 8,5 prósentustig á tæplega tveimur og hálfu ári og standa nú í 9,25%. Hækkandi vaxtastig kældi húsnæðismarkaðinn fljótt og loks virðist vera farið að hægja á umsvifum víðar í hagkerfinu. Horfur eru á að baráttan við verðbólguna verði eilítið sársaukafyllri en við töldum áður, þ.e. að til þess að vinna bug á verðbólgunni þurfi að hægja meira á efnahagsumsvifum.

Helstu niðurstöður

  • Hagvöxtur verður 3,1% í ár og 2,1% á næsta ári, samkvæmt spánni. Hann tekur hægt við sér árin á eftir og verður 2,3% árið 2025 og 2,6% árið 2026.
  • Verðbólga hjaðnar smám saman en verður enn að meðaltali 5,3% á næsta ári og 4,3% árið 2025. Við búumst ekki við að verðbólga komist niður í markmið Seðlabankans á spátímanum.
  • Stýrivextir hafa náð hámarki í bili, samkvæmt spánni, en fara ekki lækkandi fyrr en á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Við spáum því að þeir verði enn 4,25% í lok spátímabilsins.
  • Horfur eru á að krónan styrkist á spátímabilinu, að evran fari úr því að kosta 144 krónur í lok þessa árs niður í 138 krónur í lok árs 2026.
  • Við búumst við að einkaneysla aukist mun minna í ár og næstu ár en í fyrra eða um 2,0% í ár og um 1,9% á næsta ári. Einkaneysla eykst svo smám saman meira með lækkandi vaxtastigi og auknum kaupmætti.
  • Atvinnuleysi mjakast upp á við eftir því sem hægir á efnahagsumsvifum. Við spáum 3,2% atvinnuleysi í ár, 3,9% á næsta ári, 4,4% árið 2025 og 4,1% árið 2026.
  • Kaupmáttur launa eykst aðeins örlítið í ár, um 0,6%, en meira á árunum á eftir, um 2,4% á næsta ári og 2,6% árið 2025.
  • Vísitala íbúðaverðs verður að meðaltali 5,0% hærri í ár en í fyrra, samkvæmt spánni, og 2,0% hærri á næsta ári en í ár. Markaðurinn kemst svo smám saman aftur á skrið þegar vaxtastigið fer lækkandi og við gerum ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 6,1% árið 2025 og 7,4% árið 2026.
  • Íbúðafjárfesting dregst áfram saman, samkvæmt spánni, um 5% í ár og 3% á næsta ári, áður en hún tekur að aukast aftur árin á eftir.
  • Spáin gerir ráð fyrir hægum vexti atvinnuvegafjárfestingar, að hún aukist um 3% í ár og um 3,4% á næsta ári.
  • Útflutningur verður 6,8% meiri í ár en í fyrra, drifinn áfram af fjölgun ferðamanna í upphafi ársins og eykst svo um 4,2% á næsta ári. Innflutningur eykst mun minna í ár en í fyrra, um 2,8% og 3,5% árið 2024.
  • Við spáum því að 2,2 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins í ár. Þeim fjölgi svo lítillega næstu ár, verði 2,3 milljónir á næsta ári, 2,4 milljónir árið 2025 og 2,5 árið 2026.
  • Eftir halla síðustu ára gerum við ráð fyrir lítillegum viðskiptaafgangi öll ár spátímans. Við sjáum fram á aukinn afgang af þjónustuviðskiptum og aukinn halla af vöruviðskiptum.

Yfirlit yfir hagspá Hagfræðideildar

Landsframleiðsla
og helstu undirliðir
Í ma. kr. Magnbreytingar frá fyrra ári, %
2022 2022 2023 2024 2025 2026
Verg landsframleiðsla 3.797 7,2 (6,4) 3,1 (3,2) 2,1 (2,7) 2,3 (2,3) 2,6
Einkaneysla 1.962 8,5 (8,6) 2,0 (2,4) 1,9 (2,7) 2,3 (2,5) 3,0
Samneysla 994 2,2 (1,6) 1,7 (1,6) 1,9 (1,7) 1,4 (1,7) 1,3
Fjármunamyndun 846 7,6 (6,9) 0,2 (2,3) 1,3 (3,2) 1,8 (1,4) 2,7
 - Atvinnuvegafjárfesting 507 15,0 (15,2) 3,0 (2,5) 3,4 (2,6) 1,6 (1,4) 1,8
 - Fjárfesting í íbúðarhúsnæði 184 -6,2 (-6,3) -5,0 (5,9) -3,0 (5,1) 3,0 (1,0) 6,0
 - Fjárfesting hins opinbera 156 3,3 (-0,9) -3,0 (-3,0) -1,0 (3,0) 1,0 (2,0) 2,0
Þjóðarútgjöld alls 3.812 6,6 (6,4) 1,3 (1,9) 1,8 (2,6) 1,9 (2,1) 2,5
Útflutningur vöru og þjónustu 1.769 22,3 (20,6) 6,8 (8,4) 4,2 (4,7) 3,6 (4,3) 3,3
Innflutningur vöru og þjónustu 1.784 19,9 (19,7) 2,8 (5,6) 3,5 (4,4) 2,9 (3,8) 3,2
Stýrivextir og verðbólga
  2022 2023 2024 2025 2026
Meginvextir Seðlabanka Íslands, 7 daga bundin innlán, lok árs, %   6,00 (6,00) 9,25 (8,50) 8,00 (6,50) 5,25 (5,00) 4,25
Verðbólga, ársmeðaltal, %   8,3 (8,3) 8,7 (8,4) 5,3 (6,2) 4,3 (4,7) 3,6
Gengi evru, lok árs   152 (152) 145 (146) 142 (143) 138 (140) 138
Vísitala íbúðaverðs, ársmeðaltal,%   22,2 (22,2) 5,0 (4,8) 2,0 (1,0) 6,1 (2,9) 7,4
Vinnumarkaður
  2022 2023 2024 2025 2026
Vísitala launa, ársmeðaltal, %   8,3 (8,3) 9,4 (8,7) 7,9 (7,8) 7,0 (5,8) 6,1
Kaupmáttur launa, ársmeðaltal, %   0,0 (0,0) 0,6 (0,2) 2,4 (1,5) 2,6 (1,0) 2,4
Atvinnuleysi, ársmeðaltal, %   3,9 (3,9) 3,2 (3,6) 3,9 (3,6) 4,4 (3,6) 4,1
Viðskiptajöfnuður
  2022 2023 2024 2025 2026
Fjöldi erlendra ferðamanna, þúsund manns   1.695 (1.695) 2.200 (2.100) 2.300 (2.300) 2.400 (2.500) 2.500
Vöru- og þjónustujöfnuður, %VLF   -0,4 (-0,7) 1,3 (0,2) 0,3 (0,2) 0,3 (0,3) 0,4
Viðskiptajöfnuður, %VLF   -2,0 (-1,5) 1,2 (-0,5) 0,2 (-0,5) 0,2 (-0,5) 0,3

Tölur innan sviga eru spá Hagfræðideildar frá apríl 2023

Horfur á hagvexti öll árin

Þrátt fyrir þráláta verðbólgu og háa vexti eru hagvaxtarhorfur ekki alslæmar. Viðsnúningurinn eftir faraldurinn smitast inn í fyrri hluta þessa árs í gegnum grunnáhrif frá byrjun síðasta árs sem leið fyrir ferðatakmarkanir. Vöxtur í ár verður 3,1% samkvæmt spánni, mun meiri á fyrri helmingi ársins en þeim seinni, og að mestu drifinn áfram af fjölgun ferðamanna í upphafi árs. Umsvifin innanlands aukast þó ekki mikið því þjóðarútgjöld aukast aðeins um 1,3%.

Það ber líka að hafa í huga að aukin umsvif skýrast ekki síst af hraðri fólksfjölgun, en landsmönnum fjölgaði um 3,6% á milli ára á fyrsta fjórðungi og um 3,4% á öðrum fjórðungi. Þótt hagvöxtur hafi mælst 4,5% á öðrum ársfjórðungi mældist hagvöxtur á mann aðeins 1,1%. Við spáum því að hagvöxtur verði minni á næsta ári, aðeins 2,1%, enda koma þar ekki til sömu grunnáhrif og ýttu undir hagvöxt á fyrri hluta þessa árs. Auk þess gerum við ráð fyrir skýrari áhrifum vaxtahækkana á næsta ári.

Verðbólgumarkmiðið ekki í sjónmáli – vaxtalækkun ólíkleg í bráð

Verðbólguhorfur versnuðu síðasta vetur og vor þrátt fyrir hækkandi vexti og suma mánuði var verðbólgan þó nokkuð meiri en spár gerðu ráð fyrir. Í sumar fór loks að rofa til, verðbólgan hjaðnaði nokkurn veginn í takt við væntingar og skýr merki komu fram um að vaxtastigið væri farið að tempra innlenda eftirspurn. Peningastefnunefnd hélt þó áfram að herða taumhaldið, allt þar til á síðasta fundi nefndarinnar, í byrjun október, þegar hún ákvað að „staldra við“. Ýmislegt bendir nú til þess að verðbólgan sé að þróast í rétta átt, þótt enn ríki spenna á vinnumarkaði og væntingar um verðbólgu hafi ekki gefið nægjanlega eftir á alla mælikvarða. Við teljum ólíklegt að stýrivextir verði lækkaðir áður en skýr merki eru komin fram um slakari vinnumarkað, enda hætt við því að annars festist víxlverkun hækkandi launa og verðlags í sessi.

Við teljum að áhrifa vaxtahækkana taki að gæta í auknum mæli í atvinnulífinu og á vinnumarkaði á næstu mánuðum og gerum ráð fyrir að vaxtalækkunarferli hefjist ekki fyrr en á öðrum fjórðungi næsta árs. Spáin gerir ráð fyrir að verðbólga verði enn 5,3% að meðaltali á næsta ári og 4,3% árið 2025. Við gerum ekki ráð fyrir að verðbólga komist niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans á spátímabilinu.

Landsmenn halda að sér höndunum

Í upphafi árs kyntu launahækkanir undir einkaneyslu sem jókst um 4,6% á fyrsta ársfjórðungi. Á sumarmánuðunum fóru vaxtahækkanir svo að segja til sín, en kortavelta dróst saman á milli ára að raunvirði hvern mánuðinn á fætur öðrum og hefur nú dregist saman síðasta hálfa árið. Einkaneysla jókst aðeins um hálft prósent á milli ára á öðrum ársfjórðungi og sú litla aukning skýrist líklega að langmestu leyti af fólksfjölgun, enda dróst einkaneysla á mann saman um 2,8%. Eftir því sem liðið hefur á árið hafa innlán heimila aukist og landsmenn spara hærra hlutfall ráðstöfunartekna. Að Covid-árunum undanskildum hafa utanlandsferðir Íslendinga yfir sumarmánuðina ekki verið færri síðan sumarið 2016. Þá hefur dregið lítillega úr innflutningi neysluvara. Við spáum því að hátt vaxtastig haldi aftur af einkaneyslu á næstu misserum, bæði í gegnum hærri afborganir af lánum og með því að hvetja til sparnaðar. Launaþrýstingur heldur þó áfram að vega upp á móti áhrifum vaxtahækkana. Gangi spáin eftir eykst einkaneysla um 2,0% í ár og 1,9% á því næsta. Árið 2025 spáum við 2,3% vexti einkaneyslu og 3% árið 2026.

Slaknar á vinnumarkaði og atvinnuleysi mjakast upp á við

Við teljum óhjákvæmilegt að atvinnuleysi aukist lítillega ef takast á að vinna bug á verðbólgu. Lágt atvinnuleysisstig bætir samningsstöðu launafólks og eykur þannig launaþrýsting. Þá er hætta á að miklar launahækkanir kyndi undir verðbólgu. Við teljum að áhrifa peningalegs aðhalds taki að gæta í auknum mæli á vinnumarkaði þegar hægir lítillega á í efnahagslífinu, bæði í gegnum minni eftirspurn eftir vörum og þjónustu og hærri fjármagnskostnað. Eftir að takmarkanir vegna faraldursins voru afnumdar jókst spenna á vinnumarkaðinum hratt og atvinnustigið náði sér fljótt á strik. Atvinnuleysi fór áfram minnkandi í sumar og varð lægst 2,8% í júlí. Þó eru nú komin fram merki um að tekið sé að draga úr spennunni, til dæmis hefur þeim fyrirtækjum fjölgað verulega á ný sem telja nægt framboð af vinnuafli á Íslandi og þeim sem telja skorta starfsfólk hefur fækkað. Við spáum því að atvinnuleysi verði að meðaltali 3,2% á þessu ári, 3,9% á næsta ári, 4,4% árið 2025 og 4,1% árið 2026.

Kaupmáttur eykst lítið í ár en meira á næstu árum

Kaupmáttur launa stóð í stað milli ára 2021 og 2022 eftir mikinn vöxt árin á undan. Nú í vetur fer í hönd ný lota kjarasamningaviðræðna. Óvissan í spánni snýr ekki síst að því hversu miklar launahækkanir verður samið um og hver áhrif þeirra verða á verðlagsþróun. Við spáum því að vísitala launa hækki um 9,4% í ár, 7,9% á næsta ári og 7,0% árið 2025. Við teljum að kaupmáttur fari smám saman að aukast aftur, um 0,6% í ár, 2,4% á næsta ári og 2,6% árið 2025.

Íbúðaverð tekur aftur við sér á síðari hluta spátímans

Áhrif vaxtahækkana hafa komið langskýrast fram á íbúðamarkaði og strax á seinni helmingi síðasta árs tók að hægja mjög á verðþróun á markaðnum. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs stóð í 25,5% í júlí í fyrra en var komin niður í 0,8% í júlí í ár. Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað á milli ára síðustu fjóra mánuði, en raunlækkunin nam 5,2% á milli ára í ágúst og 5,9% í júlí. Þótt laun hafi hækkað þó nokkuð umfram íbúðaverð og fólksfjölgun setji þrýsting á markaðinn, gerum við ekki ráð fyrir að íbúðaverð komist aftur á flug fyrr en skýr merki koma fram um yfirvofandi vaxtalækkanir. Við gerum ráð fyrir að vísitalan hækki að meðaltali um 5,0% á milli ára í ár,  2,0% á næsta ári, um 6,1% árið 2025 og um 7,4% árið 2026.

Íbúðafjárfesting dregst saman

Þótt skert aðgengi að lánsfé, bæði hærri vextir og þrengri lánþegaskilyrði, hafi temprað eftirspurn eftir íbúðum til kaupa er ljóst að enn er mikil þörf á húsnæði. Til marks um það er til dæmis 9,4% hækkun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tólf mánuðum. Hætt er við því að uppbygging íbúðarhúsnæðis uppfylli ekki þörfina. Við gerum ráð fyrir að hærri fjármagnskostnaður fyrirtækja, hægari verðþróun á íbúðamarkaði og lengri sölutími íbúða dragi tímabundið úr umsvifum í byggingargeiranum og að íbúðafjárfesting haldi áfram að dragast saman, eins og hún hefur gert síðustu fjórðunga. Við spáum 5% samdrætti í íbúðafjárfestingu í ár og 3% á næsta ári, en að hún aukist svo aftur um 1% árið 2025 og um 3% árið 2026.

Hægir á atvinnuvegafjárfestingu

Atvinnuvegafjárfesting jókst um 5,8% milli ára á fyrri helmingi þessa árs. Við spáum því að þó nokkuð hægi á á seinni hluta árs og að fjárfestingin verði 3% meiri á þessu ári en í fyrra. Stærsti liðurinn, almenn atvinnuvegafjárfesting (þ.e. atvinnuvegafjárfesting fyrir utan stóriðju og skip og flugvélar), hefur aukist af krafti það sem af er ári, um 7,9% á fyrsta helmingi ársins. Samkvæmt spánni hægir á vexti almennrar atvinnuvegafjárfestingar á seinni hluta ársins og hún verður tæplega 5% meiri í ár en í fyrra. Almennt gerum við ráð fyrir að hækkandi fjármagnskostnaður og hár launakostnaður þyngi róður fyrirtækja og hægi á gangi efnahagslífsins. Þó vegur á móti að áfram verður uppgangur í ferðaþjónustu, sterk króna ætti að ýta undir fjárfestingu frekar en hitt og í farvatninu er fjárfesting í orkufrekum iðnaði sem áætlað er að hefjist upp úr miðju næsta ári. Samkvæmt spánni eykst atvinnuvegafjárfesting um 3,4% á næsta ári og um 1,6% árið 2025.

Ferðaþjónustan ber uppi útflutningsvöxt þótt hægi á

Heildarútflutningur eykst um 6,8% á þessu ári, samkvæmt spánni, vöruútflutningur um 0,2% og þjónustuútflutningur um 13,8%. Á næstu árum spáum við því að útflutningur aukist minna, þó um 4,2% á næsta ári, um 3,6% árið 2025 og 3,3% árið 2026. Ferðaþjónustan tók hratt við sér eftir að faraldrinum linnti og bar uppi útflutningsvöxt um 22,3% á síðasta ári. Við spáum því að ferðaþjónustan leiði áfram útflutningsvöxt í ár, enda leið fyrri hluti síðasta árs fyrir ferðatakmarkanir og ládeyðu í kjölfar faraldursins. Við spáum því að um 2,2 milljónir erlendra ferðamanna fari í gegnum Keflavíkurflugvöll á árinu, en til samanburðar voru þeir 1,7 milljónir í fyrra. Á næsta ári gerum við ráð fyrir 2,3 milljónum ferðamanna og svo teljum við að þeim fjölgi aðeins lítillega með hverju árinu eftir það.

Það eykur útflutningstekjur greinarinnar að ferðamenn virðast nú að meðaltali dvelja lengur en árin 2017 og 2018 þegar fjöldi ferðamanna var svipaður. Eins hefur kortavelta þeirra verið meiri á föstu gengi.

Við spáum því að útflutningur á sjávarafurðum dragist saman í ár, en aukist svo aftur á næsta ári. Þar hafa mest áhrif minni aflaheimildir á þorski og loðnu í ár en í fyrra. Eftir samdrátt í útflutningi sjávarafurða í ár spáum við því að hann aukist hægt og rólega næstu ár. Horfur eru á því að aflaheimildir til þorskveiða aukist á ný eftir samdrátt síðustu ára og að botninum hafi verið náð á þessu ári. Engar aflaheimildir hafa verið gefnar út fyrir loðnu fyrir komandi loðnutímabil enn sem komið er, þó enn sé ekki útséð um að loðna verði veidd. Við gerum þó ráð fyrir að lítið verði veitt af loðnu næstu ár. Við spáum því að útflutningur á áli og álafurðum aukist áfram næstu ár og gerum ráð fyrir að liðurinn „annar vöru- og þjónustuútflutningur“ stækki með auknum útflutningi á eldisfiski og útflutningi tengdum hugverka- og lyfjaiðnaði.

Hófstillt eftirspurn kallar á minni innflutningsvöxt

Innflutningur jókst verulega síðustu tvö ár þegar hagkerfið rétti úr kútnum eftir faraldurinn. Innlend eftirspurn tók hratt við sér sem kallaði á stóraukinn innflutning neyslu- og fjárfestingarvöru, auk þess sem gífurleg fjölgun ferðamanna kallaði á mikinn vöruinnflutning. Þjónustuinnflutningur jókst einnig töluvert vegna fleiri utanlandsferða Íslendinga. Nú hefur hægt verulega á og á fyrri helmingi þessa árs jókst innflutningur aðeins um 1,6%. Í samræmi við spá okkar um að einkaneysla aukist aðeins lítillega næstu ár, að fjárfesting aukist líka hóflega og ferðamönnum fjölgi hægar en síðustu ár, spáum við fremur litlum vexti í innflutningi árlega út spátímabilið. Við gerum ráð fyrir að innflutningur aukist um 3,3% á þessu ári og 3,5% á því næsta.

Krónan styrkist á spátímanum

Horfur eru á að krónan styrkist á spátímabilinu. Eftir nokkurn halla á viðskiptum við útlönd síðustu tvö ár stefnir í afgang í ár og út spátímabilið. Ferðaþjónustan hefur náð vopnum sínum eftir faraldurinn en þó eru horfur á lítilsháttar vexti næstu ár. Eftir því sem dregur úr spennu í þjóðarbúinu, eins og spáin gerir ráð fyrir, ætti innflutningur að aukast hægar. Gera má ráð fyrir þó nokkrum vaxtamun við útlönd næstu ár sem hefur áhrif til styrkingar, það verður dýrara fyrir innlenda aðila að sitja á gjaldeyri og innlend skuldabréf verða álitlegri kostur þegar vaxtamunurinn eykst. Eftir að hafa hækkað verulega á síðasta ári og aftur í kjölfar gjaldþrota banka í Bandaríkjunum og Sviss hefur vaxtaálag á skuldabréfaútgáfu innlendra banka í erlendum gjaldmiðlum lækkað verulega og er komið aftur niður í svipað gildi og fyrir heimsfaraldurinn.

Opinber fjárfesting minnkar milli ára í ár og á næsta ári

Búast má við lítilsháttar samdrætti í opinberum fjárfestingum í ár og á næsta ári, enda hefur ríkisstjórnin boðað að þeim verkefnum sem ekki séu þegar hafin verði slegið á frest til þess að koma í veg fyrir að ríkissjóður kyndi undir þenslu í hagkerfinu. Gert er ráð fyrir að aukinn þungi færist í fjárfestingu í tengslum við byggingu nýs Landspítala á næstu árum og auk þess sem í farvatninu eru mannvirkja- og samgönguverkefni sem koma til með að auka opinbera fjárfestingu á seinni hluta spátímabilsins. Við reiknum með að opinber fjárfesting dragist saman um 3% í ár frá síðasta ári, vegna frestunar á verkefnum en einnig grunnáhrifa frá síðasta ári. Hún minnki um 1% á milli ára árið 2024 en aukist svo á ný samfara lækkandi vaxtastigi, um 1% árið 2025 og um 2% árið 2026. Hlutfall opinberrar fjárfestingar í landsframleiðslu lækkar þó nokkuð á spátímanum. Samneysla eykst um 1,3-1,9% á ári á spátímanum en við teljum að fólksfjölgun og launahækkanir hljóti að ýta undir vöxtinn, að minnsta kosti á fyrri hluta spátímabilsins.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Hlaðvarp
19. okt. 2023
Spjall um spá: Hagkerfi í leit að jafnvægi
Hófstilltur hagvöxtur, háir vextir og hjaðnandi verðbólga. Þetta er á meðal þess sem einkennir efnahaginn næstu ár, samkvæmt nýrri hagspá Hagfræðideildar bankans. Í nýjasta þætti Umræðunnar ræða hagfræðingarnir Hildur Margrét Jóhannsdóttir og Hjalti Óskarsson efnahagshorfurnar og fara yfir það helsta úr spánni.
17. okt. 2023
Morgunfundur um hagspá til 2026 - upptökur
Hagspá Landsbankans til ársins 2026 var kynnt á morgunfundi í Silfurbergi Hörpu miðvikudaginn 17. október 2023 og í kjölfarið spunnust líflegar pallborðsumræður um verðbólgu, vexti og vinnumarkaðinn.
18. okt. 2023
Skeið hins almáttuga seðlabanka líður undir lok
Arnaud Marès, aðalhagfræðingur í Evrópumálum hjá Citi-banka, hélt erindi á morgunfundi um nýja hagspá Landsbankans 17. október 2023.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur