Verðbólga aftur við efri vikmörk

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,32% á milli mánaða og verðbólga fór úr 4,2% í 4,0%. Talan var nokkuð nálægt því sem við bjuggumst við, en við spáðum 0,26% hækkun VNV á milli mánaða og 4,0% verðbólgu. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu meira en við gerðum ráð fyrir, reiknuð húsaleiga hækkaði minna og sumarútsölur á fötum og skóm voru lakari. Verðbólga án húsnæðis minnkaði einnig, eða úr 3,2% í 3,0%. Árshækkun allra þriggja kjarnavísitalnanna var óbreytt á milli mánaða. Þetta er síðasta verðbólgumælingin fyrir næsta fund peningastefnunefndar sem tilkynnir um vaxtaákvörðun þann 20. ágúst.
Framlag vöruverðs minnkar og framlag þjónustu eykst
Minni ársverðbólga skýrist aðallega af minna framlagi vöruverðs, en framlag bæði innfluttra vara og innlendra vara til ársverðbólgu dróst saman á milli mánaða. Á móti jókst framlag þjónustu, þá sérstaklega flugfargjalda til útlanda, sem skýrir meirihluta hækkunar á framlagi þjónustu til ársverðbólgu.
Helstu liðir vísitölunnar:
- Verð á mat og drykkjarvöru var nokkurn veginn óbreytt á milli mánaða, en við höfðum spá 0,2% hækkun. Þetta er fyrsti mánuðurinn í ár þar sem matarkarfan hækkar ekki á milli mánaða, en karfan hefur að meðaltali hækkað um 0,74% á milli mánaða það sem af er ári.
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,3% á milli mánaða, nokkuð minna en okkar spá um 0,6% hækkun.
- Sumarútsölur á fötum og skóm voru nokkuð slakar í ár, en liðurinn lækkaði um 4,8%, nokkuð minna en okkar spá um 6,0% lækkun. Frá 2003 hafa föt og skór einungis lækkað minna en þetta einu sinni, en það var árið 2020, þegar heimsfaraldurinn reið yfir.
- Ólíkt fötum og skóm voru sumarútsölur á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. aðeins betri en við áttum von á. Liðurinn lækkaði um 2,2% en við spáðum 1,4% lækkun.
- Flugfargjöld til útland hækkuðu um 19,9% á milli mánaða sem var nokkuð umfram spá okkar um 14,5% hækkun. Flugfargjöld til útlanda eru núna 4,7% hærri en í júlí í fyrra.
- Tómstundir og menning lækkaði óvænt um 0,4% á milli mánaða, en við spáðum 0,1% hækkun. Meðal þess sem lækkaði á milli mánaða voru hljómflutningstæki (-4,7%), útbúnaður fyrir íþróttir og útilegur (-0,9%) og blóm og garðyrkjuvörur (-4,4%).
Búumst ekki við að verðbólga fari undir efri vikmörk í ár
Í ágúst í fyrra voru skólagjöld felld niður í nokkrum háskólum og skólamáltíðir í grunnskólum voru gerðar gjaldfrjálsar í september síðastliðnum. Þessi stöku lækkunaráhrif ýttu verðbólgu tímabundið niður síðasta haust, en hverfa nú úr samanburðinum og leiða því til hækkunar á mældri ársverðbólgu. Við gerum ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,12% í ágúst, lækki um 0,06% í september og hækki um 0,33% í október. Gangi spáin eftir verður ársverðbólga 4,0% í ágúst, 4,2% í september og 4,3% í október. Spáin er aðeins lægri en síðasta spá sem við birtum í verðkönnunarvikunni, en þá spáðum við 4,1% verðbólgu í ágúst, 4,3% í september og 4,4% í október.
Við teljum ekki horfur á að verðbólga fari aftur niður fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands í ár, heldur haldist á bilinu 4,0% til 4,3% út árið og verði 4,1% í lok árs.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









