Óvenju lítil hækkun íbúðaverðs í janúar
Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 0,1% milli desember og janúar. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,1% og verð á sérbýli lækkaði um 0,2%. 12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 7,3% og lækkar frá því í desember. Þetta er minnsta hækkun sem hefur sést milli mánaða frá því í apríl í fyrra, eða frá því að áhrifa heimsfaraldursins fór að gæta verulega hér á landi.
Íbúðaverð tók að hækka nokkuð hratt milli mánaða upp úr miðju síðasta ári í kjölfar vaxtalækkana og voru hækkanir að jafnaði um 0,9% milli mánaða á seinni hluta ársins. Það má því segja að hækkunin nú sé óvenju lítil miðað við þá þróun og þær vísbendingar sem hafa borist um vaxandi spennu út frá styttri sölutíma og háu hlutfalli sem selst yfir ásettu verði. Ef til vill er markaðurinn að nálgast nýtt jafnvægi og mestu áhrif vaxtalækkana að fjara út.
Líkt og margoft hefur komið fram jukust viðskipti með íbúðarhúsnæði verulega þegar leið á síðasta ár og voru hátt í 900 kaupsamningar undirritaðir í hverjum mánuði á seinni hluta ársins. Þjóðskrá birti á dögunum upplýsingar um hlutfall fyrstu kaupenda í íbúðaviðskiptum. Í ljós kom að 33% íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu á fjórða ársfjórðungi í fyrra voru vegna fyrstu kaupa og hefur hlutfallið ekki mælst hærra frá upphafi gagnasöfnunar. Hlutfallið var til samanburðar 29% á sama tíma árið 2019 og 25% árið 2018.
Spenna virðist því vera nokkur á fasteignamarkaði þó hækkunin hafi verið afar hófleg í janúar. Vaxandi spenna síðasta árs virðist þó ekki hafa komið í veg fyrir tækifæri fyrstu kaupenda, enda fást hagstæðari lánskjör nú en oft áður. Ef hækkanir verða áfram hóflegar má gera ráð fyrir því að markaðurinn sé að ná nýju jafnvægi þar sem framboð er í takt við eftirspurn, aðgengi fólks að lánsfé tryggt og hækkanir því hóflegar.