Í þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans fyrir árin 2020-2023 er gert ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um 8,5% á árinu 2020 vegna kórónuveirufaraldursins. Samdráttarskeiðið verður tiltölulega stutt en þrátt fyrir verulega viðspyrnu næsta haust verður efnahagsbatinn hægur fyrst um sinn. Hagfræðideild spáir 3,4% hagvexti árið 2021 og um 5% árlegum vexti árin 2022 og 2023. Spáin hljóðar upp á að atvinnuleysi verði að meðaltali 7,8% á þessu ári og hækki í 8,4% árið 2021 en lækki síðan í 5,8% árið 2022 og 4,8% árið 2023.
Vextir aldrei verið lægri
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti fundinn. Hún ræddi um afleiðingar heimsfaraldursins á efnahagslífið í landinu, m.a. þau að vextir hefðu aldrei verið lægri, og benti á að Landsbankinn hefði verið leiðandi í að bjóða lægri vexti, sérílagi á íbúðalánum. Á árinu 2020 hefði bankinn lánað um 230 milljarða króna í íbúðalánum, þar af væru 90 milljarðar króna vegna nýrra útlána. „Bankinn er í mjög sterkri stöðu til að takast á við efnahagslegar afleiðingar ástandsins. Á sama tíma viljum við að sjálfsögðu aðstoða einstaklinga og fyrirtæki við að takast á við stöðuna,“ sagði hún.
Mikil óvissa en gert ráð fyrir verulegri viðspyrnu haustið 2021
Dr. Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, lagði áherslu á að óvissan væri gríðarlega mikil, bæði hvað varðar þróun bóluefnis og hverjar efnahagslegar afleiðingar faraldursins verða. Hann benti á að í grunnspá deildarinn væri miðað við að eitt eða fleiri bóluefni verði samþykkt í kringum næstu áramót en sú spá byggir á nýlegu áliti ráðgjafafyrirtækisins McKinsey. Gert væri ráð fyrir að almennu hjarðónæmi verði náð á Íslandi og í helstu viðskiptalöndum okkar á þriðja ársfjórðungi 2021 en vegna sóttvarnaraðgerða myndi erlendum ferðamönnum ekki fjölga fyrr en næsta haust. Það færi því ekki að lifna yfir hagkerfinu fyrr en haustið 2021 en þá mætti gera ráð fyrir verulegri viðspyrnu.
Leiðin að efnahagsbata löng og þyrnum stráð
Joan Hoey, svæðisstjóri Evrópumála hjá The Economist Intellegence Unit (EIU), fjallaði í sínu erindi um hvað tæki við eftir Brexit og heimsfaraldur kórónuveirunnar og hverjar horfurnar væru fyrir efnahagslífið í Evrópu. EIU miðar við svartsýnni spá um þróun bólefnis en gert er í hagspá Landsbankans. Þau reikna með að aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn útbreiðslu Covid-19 verði í gildi allt næsta ár og að bóluefni verði ekki tilbúið fyrr en undir lok árs 2021. Samdrátturinn verði mikill og leiðin að efnahagsbata verið löng og þyrnum stráð. Áhrifin séu mikil í Evrópu en þau séu misjöfn; mest í suðurhluta álfunnar en minnst í norðurhlutanum. Hún ræddi einnig m.a. um hvernig og hvort seðlabankar gætu brugðist við og um aukna skuldsetningu hins opinbera.