Líkt og komið hefur fram hækkaði íbúðaverð nokkuð milli ára í fyrra. Hækkunin var þó misjöfn eftir hverfum, allt frá nær óbreyttu verði upp í rúmlega 11% hækkun. Mest var hækkunin í Árbæ en þar jókst sala nýbygginga verulega, úr um 2% af seldum íbúðum upp í rúm 20%. Svo virðist sem hækkanir séu nokkuð tengdar breytingum á vægi nýbygginga í sölu, enda eru nýjar íbúðir almennt dýrari en þær sem eldri eru.
Verðlag á höfuðborgarsvæðinu mælist enn hæst á hvern fermetra í miðborg Reykjavíkur. Hækkunin þar milli ára mælist þó bara rétt ofar meðaltalinu fyrir höfuðborgarsvæðið í heild. Þau hverfi sem eru dýrust á eftir miðborginni, þ.e. Vesturbær Reykjavíkur og Garðbær, hækkuðu aðeins um 2,5% og 3% milli ára sem er talsvert undir hækkuninni á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu öllu (5%) og til marks um það að munur á verði eftir einstaka hverfum höfuðborgarsvæðisins fari minnkandi.
Það má því segja að miðborgarálag hafi lækkað á síðustu árum. Íbúðir í fjölbýli voru í fyrra að jafnaði 20% ódýrari utan miðborgarinnar en í miðbænum, en voru tæplega 30% ódýrari árið 2015.
Fermetraverð mældist frá 400-600 þús. kr. á hvern fermetra í fyrra. Lægst í Breiðholti og hæst í Miðbæ Reykjavíkur en í miðbænum eru íbúðirnar einnig minnstar, eða að jafnaði 87,5 fm. að stærð. Stærstu íbúðirnar sem seldust í fjölbýli var að finna í þeim hluta Kópavogs sem nær til Linda, Sala, Hvarfa, Þings og Kóra þar sem þær voru að jafnaði um 115 fm. að stærð og kostaði hver fm. 482 þús. kr.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Mismikil verðhækkun eftir hverfum höfuðborgarsvæðisins