Mikil íbúðauppbygging
Það er óhætt að segja að 12% aukning í íbúðafjárfestingu á fjórða ársfjórðungi síðasta árs hafi komið nokkuð á óvart í nýútgefnum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. Með útgáfunni voru eldri tölur endurskoðaðar og í ljós kom að samdrátturinn fyrr á árinu er minni en áður birtar tölur gáfu til kynna.
Tæplega 4.000 fullbúnar íbúðir skiluðu sér á markað í fyrra sem er mesti fjöldi á stöku ári síðan 2007. Uppbyggingin núna er áþekk því sem sást á árunum 2005-2008 og er það mat margra greiningaraðila að of mikið hafi verið fjárfest á þeim árum með þeim afleiðingum að offramboð myndaðist á árunum sem á eftir fylgdu. Að því sögðu verður að teljast ólíklegt að skortur sé verulega mikill á húsnæði um þessar mundir, m.a. í ljósi þess að hægt hefur á mannfjöldaaukningu vegna minni fjölgunar aðfluttra umfram brottflutta til landsins.