Mikið fjárfest í íbúðarhúsnæði þrátt fyrir samdrátt milli ára
Samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands nam íbúðafjárfesting 177 mö.kr. í fyrra á verðlagi þess árs og dróst saman um 4,4% að raunvirði milli ára. Við höfðum spáð því að íbúðafjárfesting myndi dragast saman um 2% milli ára og var fjárfestingin því minni, og samdráttur meiri, en við áttum von á. Þrátt fyrir það var talsvert fjárfest í íbúðarhúsnæði. Aðeins þrisvar hefur fjárfestingin mælst meiri á einu ári miðað við fast verðlag: Árin 2007, 2019 og 2020. Líkt og Hagfræðideild hefur fjallað um fjölgar nú íbúðum í byggingu bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
Síðan 1995 hefur íbúðafjárfesting að jafnaði verið um 4,1% af landsframleiðslu. Í fyrra mældist íbúðafjárfesting 5,5% af vergri landsframleiðslu og var því nokkuð yfir meðaltalinu, fjórða árið í röð. Mest hefur íbúðafjárfesting verið 6,5% af landsframleiðslu, árið 2007, og hefur ekki aftur náð þeim styrk þó hún hafi komist nálægt því árið 2020 (5,9% af landsframleiðslu).
Það getur reynst gagnlegt að líta til íbúðafjárfestingar sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu til þess að leggja mat á hvort verið sé að byggja mikið eða lítið miðað við aðstæður. Staðan eins og hún er í dag bendir til þess að verið sé að byggja talsvert en þrátt fyrir það ríkir mikil spenna á fasteignamarkaði. Verðhækkanir mælast miklar, eða svipaðar og sást síðast á árunum 2016-2017, þegar mun minna var þó byggt. Það gefur til kynna að verðhækkanir séu drifnar áfram af verulega aukinni eftirspurn. Að auki eru nýjar íbúðir dýrari en þær sem fyrir eru og getur mikil sala þeirra nú knúið áfram verðhækkanir.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Mikið fjárfest í íbúðarhúsnæði þrátt fyrir samdrátt milli ára