Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Íbúða­verð hækk­ar á ný

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% milli mánaða í febrúar, eftir þriggja mánaða samfellda lækkun. Kaupsamningum fjölgaði þó nokkuð milli mánaða og þeim fækkaði minna á ársgrundvelli í febrúar en verið hefur síðustu mánuði. Þótt markaðurinn hafi kólnað virðist hann enn vera langt yfir frostmarki. Við uppfærum verðbólguspá okkar og gerum nú ráð fyrir 10,0% verðbólgu í mars.
Hús í Reykjavík
22. mars 2023

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% milli janúar og febrúar, samkvæmt gögnum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti síðdegis í gær. Vísitalan lækkaði milli mánaða í nóvember, desember og janúar, en svo löng samfelld lækkun hafði ekki orðið síðan við lok árs 2009. Þá voru lækkanir milli mánaða þó nokkuð meiri en nú. Þrátt fyrir að íbúðamarkaður hafi kólnað á síðustu mánuðum og aðgerðir Seðlabankans dregið úr eftirspurn, virðist enn vera líf á markaðnum og óvíst að verðlækkanir verði viðvarandi. Stýrivextir hafa nú náð 7,5%, enda hefur verðbólga haldið áfram að aukast þvert á væntingar síðustu mánuði.

Fjölbýli hækkar en sérbýli lækkar

Vísitala íbúðaverðs byggir á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali, annars vegar um verðþróun á fjölbýli og hins vegar á sérbýli. Sérbýli hélt áfram að lækka í febrúar og lækkaði um 0,2%, en það var einmitt vísitala sérbýlis sem hefur lækkað mest síðustu þrjá mánuði. Fjölbýli hækkaði um 0,4% í febrúar. Meiri sveiflur eru á verði á sérbýli, enda seljast mun færri sérbýli en fjölbýli í hverjum mánuði. Sérbýli hækkaði hraðar en fjölbýli þegar íbúðaverð var á hraðri uppleið í fyrra og árið á undan og hefur svo lækkað mun meira en verð á fjölbýli síðustu mánuði.

Árshækkun vísitölunnar mælist nú 12,4% og hefur ekki verið lægri síðan í mars 2021. Fjölbýli hefur hækkað um 13,0% á síðustu tólf mánuðum og sérbýli um 11,2%.

Uppfærum verðbólguspá - búumst við 10,0% ársverðbólgu í mars

Þróunin á íbúðamarkaði í febrúar veldur því að við uppfærum nýbirta verðbólguspá okkar, enda höfðum við gert ráð fyrir að vísitala íbúðaverðs myndi lækka lítillega á milli mánaða í febrúar. Við spáðum því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,61% milli mánaða í mars, en færum þá tölu upp í 0,72%. Við það hækkar spá okkar um ársverðbólgu í mars úr 9,8% í 10,0%.

Fáir kaupsamningar undirritaðir

Alls voru 441 kaupsamningur um íbúðarhúsnæði undirritaður á höfuðborgarsvæðinu í febrúar, samkvæmt bráðabirgðatölum HMS. Þeim fjölgaði úr 289 í janúar og eru aðeins 11% færri en í febrúar í fyrra. Þeim fækkar því ekki eins mikið á ársgrundvelli og verið hefur síðustu mánuði. Til samanburðar voru kaupsamningar nú í janúar 40% færri en í janúar í fyrra og kaupsamningar í desember 2022 27% færri en í desember árið áður. Hafa ber í huga að tölurnar eru bráðabirgðatölur og gætu átt eftir að breytast eftir því sem fleiri kaupsamningar berast í gagnagrunn HMS.

Enn talsvert líf í markaðnum

Tölur yfir íbúðaverð í febrúar og fjölda kaupsamninga bera þess merki að enn séu þó nokkur umsvif á íbúðamarkaði og áfram eftirspurn eftir íbúðum, þrátt fyrir brattan feril vaxtahækkana og hert lánþegaskilyrði. Ætla má að hluti af áhrifum nýlegra vaxtahækkana sé ekki enn kominn fram og vaxtaþróunin fram í tímann veltur fyrst og fremst á því hversu vel tekst til að sporna gegn verðbólgu.

Íbúðaverð tók að hækka óvenjuhratt þegar Seðlabankinn lækkaði snarlega stýrivexti eftir að faraldurinn skall á árið 2020 og hefur svo róast mjög á síðustu mánuðum með hækkandi vaxtastigi. Þótt óvarlegt sé að lesa mikið í eina mælingu er ljóst að þessi nýjasta mæling á vísitölu íbúðaverðs minnir á að þrátt fyrir rólegri markað er með öllu óvíst að verðlækkanir verði viðvarandi næstu mánuðina.

Þótt núverandi aðstæður á lánamarkaði séu til þess fallnar að draga úr eftirspurn eftir íbúðum frekar en hitt, ber að hafa í huga að landsmönnum hefur aldrei fjölgað eins mikið og í fyrra, hvort sem litið er til fjöldans eða hlutfallslegrar aukningar og því má gera ráð fyrir áframhaldandi hreyfingu á markaðnum. Þá benda gögn um kortaveltu Íslendinga til nokkuð kröftugrar einkaneyslu og þess að landsmenn geti enn gengið á sparnað sem safnaðist upp í faraldrinum, á tímum þegar fólk eyddi litlu en kaupmáttur jókst mjög. Einhverjir geta því keypt íbúðir eða stækkað við sig, þótt mun meiri ró sé yfir markaðnum en fyrir nokkrum mánuðum.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
27. okt. 2025
Vikubyrjun 27. október 2025
Íslenska hagkerfið verður í hægum vaxtartakti á næstu árum gangi hagspá sem við birtum í síðustu viku eftir. Á fimmtudag koma verðbólgutölur fyrir október og við eigum von á að verðbólga hækki úr 4,1% í 4,2%.
Hagspá október 2025
22. okt. 2025
Kólnandi kerfi en kraftmikil neysla
Hagvöxtur verður 1,5% á þessu ári og 1,7% á því næsta, samkvæmt nýrri hagspá Landsbankans. Hagvöxtur verður ekki síst drifinn áfram af neyslu innanlands en á sama tíma er útlit fyrir smám saman minnkandi spennu í atvinnulífinu. Verðbólga reynist áfram þrálát næstu misseri og ekki eru horfur á að hún komist niður í markmið Seðlabankans á spátímabilinu. Því má áfram búast við háum raunstýrivöxtum.
Greiðsla
20. okt. 2025
Vikubyrjun 20. október 2025
Kortavelta Íslendinga jókst um 7,6% að raunvirði á milli ára í september. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur kortavelta heimila verið um 5,2% meiri en á sama tímabili í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Í vikunni birtir Greiningardeild Landsbankans nýja hagspá til ársins 2028. HMS birtir vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.  
Flugvél
16. okt. 2025
Spáum 4,2% verðbólgu í október
Við spáum því að verðbólga aukist lítillega í október, úr 4,1% í 4,2%. Mest áhrif til hækkunar á vísitölunni hafa flugfargjöld til útlanda, reiknuð húsaleiga og matarkarfan. Gangi spáin eftir verður október níundi mánuðurinn í röð þar sem verðbólga er á bilinu 3,8% til 4,2%. Við teljum að verðbólga verði áfram á þessu bili næstu mánuði.
Fjölskylda við matarborð
13. okt. 2025
Vikubyrjun 13. október 2025
Peningastefnunefnd hélt vöxtum óbreyttum í síðustu viku, eins og við var búist. Þó mátti greina aukna bjartsýni í yfirlýsingu nefndarinnar. Skráð atvinnuleysi var 3,5% í september og jókst um 0,1 prósentustig á milli mánaða. Brottförum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 0,5% í september og utanlandsferðum Íslendinga fjölgaði um 14%.
Play
6. okt. 2025
Vikubyrjun 6. október 2025
Fall Fly Play hf. var stærsta fréttin í síðustu viku. Um 400 manns misstu vinnuna og má búast við að atvinnuleysi aukist um um það bil 0,2 prósentustig þess vegna. Við búumst ekki við verulegum þjóðhagslegum áhrifum af falli Play. Peningastefnunefnd kemur saman á miðvikudaginn og við búumst við að stýrivöxtum verði áfram haldið í 7,50%.  
Seðlabanki Íslands
2. okt. 2025
Þrálát verðbólga kallar á óbreytta vexti
Við spáum því að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Verðbólga hefur haldist á þröngu bili í kringum 4% frá því í febrúar og horfur eru á nær óbreyttri verðbólgu á næstu mánuðum. Áfram má greina skýr merki um þenslu í hagkerfinu og nær óhugsandi að peningastefnunefnd telji tímabært að halda vaxtalækkunarferlinu áfram. 
1. okt. 2025
Mánaðamót 1. október 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Íbúðahús
29. sept. 2025
Vikubyrjun 29. september 2025
Verðbólga mældist í takt við væntingar í september og fór úr 3,8% í 4,1%, samkvæmt vísitölu neysluverðs, sem Hagstofan birti í síðustu viku. Aukin verðbólga var fyrirséð og mælingin ber þess ekki merki að verðbólguþrýstingur í hagkerfinu hafi aukist. Kaupmáttur launa er 3,8% meiri en í ágúst í fyrra.
Litríkir bolir á fataslá
25. sept. 2025
Verðbólga eykst í takt við væntingar
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,11% á milli mánaða í september og verðbólga jókst úr 3,8% í 4,1%. Hækkunin skýrist að langmestu leyti af því að lækkunaráhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða duttu nú úr 12 mánaða taktinum. Fátt í septembermælingunni kom á óvart en við spáðum 0,07% hækkun á vísitölunni og 4,1% verðbólgu. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði áfram á þessu bili út árið og verði 4,0% í árslok.