Halli á viðskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi
Fyrir helgi birti Seðlabankinn upplýsingar um greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi og erlenda stöðu í lok fjórðungsins. Áður hafði Hagstofan birt talnaefni um vöru- og þjónustujöfnuð á fjórðungnum og við fjölluðum um þær tölur í Hagsjá: Vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður á fyrsta ársfjórðungi. Í raun var mjög lítið í tölunum sem kom á óvart, sem er frekar jákvætt.
Þriðja árið í röð sem að halli mælist á viðskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi
Alls var 10,1 ma.kr. halli á viðskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi. Halli mældist á vöruviðskiptum (-45,7 ma.kr.) og rekstrarframlögum (-12 ma.kr.), en afgangur af þjónustujöfnuði (+21,4 ma.kr.) og frumþáttatekjum (+26,1 ma.kr.). Þetta var rúmlega 20 ma.kr. betri niðurstaða en á fyrsta ársfjórðungi 2022. Skýrist þetta bæði af því að afgangur af þjónustuviðskiptum jókst samhliða fjölgun erlendra ferðamanna í ár og í stað halla á frumþáttatekjum eins og í fyrra mældist afgangur nú vegna verri afkomu fyrirtækja í erlendri eigu. Á móti kemur að hallinn á bæði vöruskiptajöfnuði og rekstrarframlögum jókst á milli ára. Þetta er þriðja árið í röð sem halli mælist á viðskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi, en á uppgangstíma ferðaþjónustunnar áður en heimsfaraldurinn skall á var samfelldur afgangur á fyrsta ársfjórðungi í sex ár.
Viðsnúningur í þáttatekjum skýrist af verri afkomu álfyrirtækja
Eins og kom fram að ofan var 26,1 ma.kr. afgangur af frumþáttatekjum, en til frumþáttatekna teljast fjármagnstekjur og gjöld, svo sem vaxtagreiðslur, arðgreiðslur og slíkt. Munar þar mestu um 18,2 ma.kr. afgang af jöfnuði af beinni fjárfestingu, en auk þess var afgangur af verðbréfafjárfestingu og af gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands.
Stærsti einstaki liður frumþáttatekna, og einnig sá liður sem sveiflast mest milli ársfjórðunga, er hagnaður eða tap fyrirtækja í eigu erlendra aðila. Sá liður telst með beinni fjárfestingu. SÍ fylgir alþjóðlegum reikningsstöðlum við útreikning á viðskiptajöfnuði sem segja til um að hagnaður fyrirtækja í erlendri eigu skuli koma til frádráttar í viðskiptajöfnuði, en tap til hækkunar. Hér er fyrst og fremst um að ræða álfyrirtækin, enda sést að á meðan heimsmarkaðsverð á áli var hvað hæst í fyrra mældist halli af þessum lið, sem breyttist í afgang samhliða lakari afkomu eftir að álverð lækkaði aftur.
Hafa ber í huga að flæði á gjaldeyri inn eða út úr landi þarf alls ekki að fylgja þáttatekjujöfnuði. Sérstaklega má nefna að verri afkoma fyrirtækja í eigu erlendra aðila, sem kemur til hækkunar á frumþáttatekjum, er að mestu leyti bókfært tap eða metið tap.
Hrein erlend staða batnaði um 50 ma.kr. á fjórðungnum
Á síðasta ári lækkaði hrein erlend staða þjóðarbúsins um 305 ma.kr. og var 972 ma.kr. í lok árs 2022. Skýrist þessi lækkun bæði af óhagstæðri þróun á erlendum mörkuðum og af því að það var halli á viðskiptum við útlönd. Smávegis viðsnúningur var núna á fyrsta ársfjórðungi og batnaði erlend staða þjóðarbúsins um 50 ma.kr. á fjórðungnum. Í lok fjórðungsins var hrein erlend staða þjóðarbúsins 1.022 ma.kr., eða 26% af vergri landsframleiðslu.
Erlend staða þjóðarbúsins batnaði mikið á uppgangstíma ferðaþjónustunnar. Frá árslokum 2012 (horft fram hjá þrotabúum gömlu bankanna) hefur staðan batnað um tæplega 1.500 ma.kr. og þjóðarbúið hefur farið úr því að skulda meira en sem nemur erlendum eignum í að erlendar eignir eru nokkuð ríflega umfram erlendar skuldir. Ef við skoðum stöðuna í alþjóðlegum samanburði sést að hrein erlend staða Íslands er mjög svipuð og Finnlands og aðeins lakari en Svíþjóðar og Danmerkur. Af Norðurlöndunum sker Noregur sig greinilega úr, en hrein erlend staða Noregs er rúmlega tvöföld landsframleiðsla þess.
Eigum von á að viðskipti við útlönd verði í jafnvægi
Yfirleitt er mesti afgangur af viðskiptum við útlönd á 3. ársfjórðungi. Það stefnir allt í mjög gott ferðamannasumar sem bendir til þess að við megum eiga von á nokkuð ríflegum afgangi á þeim fjórðungi. Það er erfitt að fullyrða mikið fyrir árið í heild út frá einum fjórðungi, en það hversu lítill hallinn var á fyrsta ársfjórðungi gefur ágætis fyrirheit um árið í heild. Það, ásamt erlend stöðu þjóðarbúsins, lofar góðu um að krónan ætti að vera nokkuð stöðug í ár.