Vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður á fyrsta ársfjórðungi

Útflutningsverðmæti stoðanna þriggja jókst um tæpa 44 ma.kr. frá sama tímabili í fyrra. Langmest af þeirri aukningu kemur til vegna útflutningstekna ferðaþjónustu sem jukust um tæplega 42 ma.kr. milli ára. Þar á eftir var aukning í útflutningsverðmæti sjávarafurða um 9,3 ma.kr. en útflutningsverðmæti áls dróst saman um 6,8 ma.kr. milli ára.
Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum
Heildarútflutningsverðmæti vara og þjónustu nam 406,2 mö.kr. á fyrsta fjórðungi og jókst um 59,5 ma.kr., eða 17%, milli ára. Langmest af þeirri aukningu kemur til vegna meiri tekna af ferðaþjónustu og sjávarafurðum. Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 45,7 ma.kr en þjónustujöfnuður jákvæður um 21,4 ma.kr. Hallinn á vöru- og þjónustuviðskiptum nam því um 24,2 mö.kr.
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar eykst
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar nam 94 mö.kr. og jókst um 80% frá sama tímabili í fyrra, en þá gætti enn nokkurra áhrifa af ferðatakmörkunum. Útflutningverðmæti farþegaflugs jókst meira en útflutningsverðmæti ferðalaga, eða um 101%, en verðmæti ferðalaga jókst um 74%. Ferðamenn á fyrsta árfjórðungi voru einnig um 171% fleiri en á sama tíma í fyrra.
Útflutningsverðmæti áls dregst saman
Útflutningsverðmæti áls nam 86,7 mö.kr. og dróst saman um 7,3% milli ára. Samdrátturinn skýrist að miklu leyti af lægra álverði en það var að meðaltali um 2.400 Bandaríkjadollarar á fyrsta fjórðungi þessa árs borið saman við 3.300 dollara á sama tímabili í fyrra og dróst heimsmarkaðsverð á áli því saman um rúmlega 27% milli ára.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








