Vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður á fyrsta ársfjórðungi
Útflutningsverðmæti stoðanna þriggja jókst um tæpa 44 ma.kr. frá sama tímabili í fyrra. Langmest af þeirri aukningu kemur til vegna útflutningstekna ferðaþjónustu sem jukust um tæplega 42 ma.kr. milli ára. Þar á eftir var aukning í útflutningsverðmæti sjávarafurða um 9,3 ma.kr. en útflutningsverðmæti áls dróst saman um 6,8 ma.kr. milli ára.
Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum
Heildarútflutningsverðmæti vara og þjónustu nam 406,2 mö.kr. á fyrsta fjórðungi og jókst um 59,5 ma.kr., eða 17%, milli ára. Langmest af þeirri aukningu kemur til vegna meiri tekna af ferðaþjónustu og sjávarafurðum. Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 45,7 ma.kr en þjónustujöfnuður jákvæður um 21,4 ma.kr. Hallinn á vöru- og þjónustuviðskiptum nam því um 24,2 mö.kr.
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar eykst
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar nam 94 mö.kr. og jókst um 80% frá sama tímabili í fyrra, en þá gætti enn nokkurra áhrifa af ferðatakmörkunum. Útflutningverðmæti farþegaflugs jókst meira en útflutningsverðmæti ferðalaga, eða um 101%, en verðmæti ferðalaga jókst um 74%. Ferðamenn á fyrsta árfjórðungi voru einnig um 171% fleiri en á sama tíma í fyrra.
Útflutningsverðmæti áls dregst saman
Útflutningsverðmæti áls nam 86,7 mö.kr. og dróst saman um 7,3% milli ára. Samdrátturinn skýrist að miklu leyti af lægra álverði en það var að meðaltali um 2.400 Bandaríkjadollarar á fyrsta fjórðungi þessa árs borið saman við 3.300 dollara á sama tímabili í fyrra og dróst heimsmarkaðsverð á áli því saman um rúmlega 27% milli ára.