Þjóð­hags- og verð­bólgu­spá 2020-2022

Landsframleiðsla dregst saman um tæplega 9% á árinu 2020 vegna áhrifa af Covid-19. Samdráttarskeiðið verður stutt og er gert ráð fyrir að á næsta ári verði hagvöxtur 5% og 3% árið 2022. Atvinnuleysi verður 9% á þessu ári en lækkar í 6% árið 2022. Mikil óvissa er þó um efnahagshorfur.
14. maí 2020

Þetta er meðal þess sem kemur fram í þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans sem nær til ársloka 2022.

Helstu niðurstöður:

  • Hagvöxtur verði neikvæður um 9% árið 2020 en verði 5% árið 2021 og 3% árið 2022. Samdrátturinn er snarpari en í síðustu kreppu en efnahagsbatinn hefst fyrr.
  • Útflutningur á árinu 2020 dregst saman um 27%, einkaneysla dregst saman um 7% og heildarfjármunamyndun dregst saman um 18%.
  • Á móti vegur að samneysla og fjárfestingar hins opinbera aukast verulega auk þess sem innflutningur dregst saman um tæplega 23%.
  • Vegna samdráttar í innflutningi er gert ráð fyrir jákvæðum viðskiptajöfnuði
  • Gert er ráð fyrir 1,2 milljón ferðamanna árið 2021 og 1,5 milljón árið 2022.
  • Atvinnuleysi eykst mikið og verði að meðaltali 9% á þessu ári, 7% árið 2022 og 6% árið 2021. Mest verði atvinnuleysið 13% um tíma árið 2020.
  • Faraldurinn mun koma niður á öllum þremur helstu útflutningsatvinnugreinum Íslands. Samdráttur í ferðaþjónustu nemi 67%, samdráttur í álútflutningi verði 2% og samdráttur í útflutningi sjávarafurða verði 8%. Um verður að ræða mesta samdrátt í útflutningi frá lýðveldisstofnun.
  • Íbúðaverð mun standa í stað það sem eftir lifir árs 2020.
  • Vegna veikingar krónunnar fer verðbólga lítillega yfir markmið Seðlabanka Íslands á seinni hluta ársins og fari hæst í 3,5% en verður að meðaltali 2,6% á árunum 2021-2022.
  • Stýrivextir Seðlabankans munu áfram lækka og verða lægstir 0,5%.

Þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans, sem gefin er út tvisvar á ári, ber að þessu sinni yfirskriftina efnahagsáfall aldarinnar. Yfirskriftin vísar til þess að efnahagssamdrátturinn sem Ísland, ásamt heimshagkerfinu í heild, siglir nú inn í stefnir í að verða einn sá mesti í manna minnum. Aðdragandinn var mjög stuttur og kreppan jafnframt einstök að því leyti að hún er að stærstum hluta bein afleiðing af stjórnvaldsákvörðunum sem voru teknar til að hefta útbreiðslu hættulegrar og bráðsmitandi veiru sem nú herjar á alla heimsbyggðina. Stjórnvöld víða um heim hafa viljandi hægt á hjólum efnahagslífsins með víðtækum takmörkunum á ferða- og atvinnufrelsi og félagslegu frelsi fólks í þessum tilgangi.

Stefnir í næstum 9% samdrátt í landsframleiðslu í ár

Hagvöxtur í fyrra var 1,9% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þetta er mun meiri hagvöxtur en við spáðum í október í fyrra en þá gerðum við ráð fyrir 0,5% samdrætti landsframleiðslunnar. Á sama tíma reiknuðum við með að hagvöxtur yrði 2% á þessu ári. Það er nú ljóst að sú spá mun ekki ganga eftir. Covid-19-heimsfaraldurinn hefur breytt efnahagshorfum til hins verra um allan heim og útlit er fyrir að heimsframleiðslan dragist verulega saman milli ára.

Ekki hafa verið birtar opinberar tölur úr þjóðhagsreikningum þessa árs en fjöldi vísbendinga eru um að íslenska hagkerfið hafi nú þegar orðið fyrir verulegu höggi af völdum veirufaraldursins. Fyrstu áreiðanlegu gögnin um þetta voru mánaðarlegar tölur um fjölda erlendra ferðamanna, gistinætur á hótelum, farþegatölur Icelandair og kortaeyðsla erlendra ferðamanna. Niðurstaðan er mjög afgerandi - nánast algjört stopp í helstu útflutningsatvinnugrein Íslands frá því að víðtækar ferðatakmarkanir voru innleiddar um miðjan mars. Skömmu síðar voru ýmsar takmarkanir settar á atvinnustarfsemi, menningarviðburði og skólahald til að hefta útbreiðslu veirunnar hér innanlands. Óvissan um framhaldið er mikil en allt útlit er fyrir að útflutningur, einkaneysla og fjárfesting dragist verulega saman og að hagvöxtur verði verulega neikvæður í ár eftir tiltölulega langt hagvaxtarskeið undanfarin ár.

Grunnspá okkar gerir ráð fyrir því að um mitt ár létti stjórnvöld hér á landi og í helstu viðskiptalöndum okkar smám saman á varúðaraðgerðum. Hluti frestaðrar neyslu meðan aðgerðir stóðu sem hæst mun þá eiga sér stað í framhaldinu. Neysla ýmissar þjónustu sem fór forgörðum í samkomubanni mun þó líklega aðeins að hluta færast til í tíma. Fyrirtæki munu smátt og smátt byrja að ráða fólk aftur til starfa og huga að fjárfestingum. Lækkun stýrivaxta og ýmsar örvunaraðgerðir stjórnvalda hafa þar töluverð áhrif. Þó má gera ráð fyrir að óvissa varðandi dreifingu veirunnar muni gera það að verkum að efnahagsstarfsemi á seinni helmingi ársins nái sér ekki að fullu á strik. Ferðaþjónusta sem snýr að erlendum ferðamönnum verður lengi að ná sér á strik og við gerum ekki ráð fyrir að sama fjölda ferðamanna og heimsóttu Ísland á síðasta ári verði náð næstu þrjú árin.

Í stað hóflegs vaxtar á yfirstandandi ári eins og við spáðum síðastliðið haust gerum við nú ráð fyrir um 8,7% samdrætti landsframleiðslu hér á landi. Gangi spáin eftir verður þetta mesti efnahagssamdráttur á einu ári frá stofnun lýðveldisins. Við reiknum þó með því að samdráttartímabilið vari stutt og að strax á næsta ári megi gera ráð fyrir tæplega 5% hagvexti studdum af viðsnúningi í útflutningi, einkum ferðaþjónustu, sem dregst gríðarlega mikið saman á yfirstandandi ári. Þrátt fyrir tiltölulega snarpan viðsnúning gerum við ráð fyrir að fyrst í lok árs 2022 nái landsframleiðslan svipuðu stigi og árið 2019. Höggið á vinnumarkaðinn verður mikið. Við reiknum með að atvinnuleysi mælist að meðaltali rúmlega 9% á yfirstandandi ári en lækki hægt og sígandi niður í 6% á árinu 2022.

Veiking krónu ýtir verðbólgu tímabundið upp fyrir markmið

Ársverðbólgan í aprílmánuði mældist 2,2% en verðbólgan var að meðaltali 3,1% í fyrra, rétt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Meginástæða verðbólgu yfir markmiði í fyrra var veiking krónunnar um 10% gagnvart helstu viðskiptagjaldmiðlum í aðdraganda og kjölfar falls WOW air.

Efnahagsþróunin síðustu mánuði og horfurnar fyrir næstu misseri benda til þess að verulegur framleiðsluslaki sé að myndast í hagkerfinu, bæði hvað varðar aukið atvinnuleysi og vannýtta innviði og framleiðslutæki, einkum í ferðaþjónustu. Jafnframt er útlit fyrir að íbúðaverð og þar með húsnæðiskostnaður heimilanna hækki lítið á komandi árum. Olíuverð hefur lækkað verulega og útlit er fyrir að það muni haldast lágt næstu misseri. Útlit er fyrir að verðbólga í helstu viðskiptalöndum okkar verði lítil sem engin á yfirstandandi ári og aukist aðeins lítillega í átt að markmiðum á næstu árum. Undirliggjandi verðbólguþrýstingur er því lítill sé horft fram hjá verulegri veikingu krónunnar síðustu mánuði. Fyrstu fjóra mánuði ársins hefur krónan veikst um 15% gagnvart evru og um 17% gagnvart Bandaríkjadal. Við teljum að fyrirtæki hafi lítið sem ekkert svigrúm til þess að taka þessa gengisveikingu á sig og að hún muni óhjákvæmilega leita inn í verðlag á næstu mánuðum og ýta verðbólgunni tímabundið upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Við gerum ekki ráð fyrir að krónan muni veikjast frekar að ráði frá núverandi gildum. Að því gefnu að traust almennings og fyrirtækja á getu og vilja Seðlabankans til að standa vörð um verðbólumarkmiðið haldi, eins og það endurspeglast í verðbólguvæntingum, má gera ráð fyrir að verðbólgukúfurinn verði lágur og stuttur. Við reiknum með að verðbólgan fari hæst í 3,5% á fjórða ársfjórðungi þessa árs en að hún verði komin niður að markmiði á ný um mitt næsta ár.

Í þetta sinn eru öll hagkerfi heimsins á sama báti

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) gerir ráð fyrir að heimsframleiðslan dragist saman um 3,5% á árinu en vaxi á ný um rúmlega 5% á næsta ári. Mikil óvissa er um þróunina og gerir AGS ráð fyrir að samdrátturinn geti numið allt að 6% á yfirstandandi ári og 2% til viðbótar á næsta ári, ef bakslag kemur í baráttuna við útbreiðslu veirunnar. Í helstu viðskiptalöndum Íslands er gert ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um á bilinu 2% til 8% árið 2020.

Útlit er fyrir að verðbólga verði víðast hvar lág í heiminum á yfirstandandi ári vegna falls í eftirspurn eftir vörum og þjónustu og mikillar lækkunar olíuverðs og ýmissa annarra hrávara. Eftir því sem eftirspurn tekur við sér þegar líður á næsta ár og áhrif lækkunar olíuverðs dvína má gera ráð fyrir að verðbólga aukist á ný í átt að verðbólgumarkmiði þróaðra ríkja. Lágir stýrivextir víða um heiminn, ásamt örvunaraðgerðum á sviði ríkisfjármála, ýta undir verðbólguþrýsting en á móti vegur að gera má ráð fyrir að framleiðsluslaki verði víða töluverður sem endurspeglast m.a. í meira atvinnuleysi á næstu árum en síðustu ár.

Aðgerðir til að draga úr efnahagslegum áhrifum faraldursins

Stjórnvöld víða um heim hafa þegar innleitt víðtækar aðgerðir til að draga úr því efnahagslega tjóni sem aðgerðir þeirra og annarra landa til að hefta útbreiðslu veirufaraldursins hafa haft í för með sér. Stýrivextir voru víða afar lágir áður en heimsfaraldurinn brast á en þar sem eitthvað svigrúm var til staðar hafa seðlabankar víða lækkað stýrivexti allt að niður í núll. Seðlabankar Bandaríkjanna, evrusvæðisins og Englands, ásamt fleirum, hafa einnig hafið aðrar aðgerðir af áður óséðri stærðargráðu til að auka peningamagn í umferð. Auk þess hafa ríkisstjórnir víðast hvar stóraukið útgjöld til að fást við beinar og óbeinar afleiðingar faraldursins. Hið sama er uppi á teningnum hér á landi. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði stýrivexti um 1,25 prósentustig á fyrsta ársfjórðungi og standa meginvextir Seðlabankans nú í 1,75%. Það er því enn töluvert svigrúm til að draga frekar úr aðhaldi peningastefnunnar. Við reiknum með stór hluti þess svigrúms verði nýttur strax á næsta fundi nefndarinnar og að stýrivextir verði lækkaðir um eitt prósentustig. Í grunnspánni gerum við ráð fyrir að stýrivextir fari lægst í 0,5% á þriðja ársfjórðungi en að þeir verði hækkaðir á ný í hægum skrefum frá og með fjórða ársfjórðungi 2021.

Einnig hefur verulega verið slakað á í ríkisfjármálum hér á landi og ýmsar stuðningsaðgerðir hafa þegar verið kynntar. Ljóst er að stilla þarf peningastefnu og ríkisfjármálin náið saman næstu misseri til að koma hagkerfinu í gegnum það gríðarlega áfall sem íslenska hagkerfið gengur nú í gegnum með sem minnstum skaða.

Töluverð hætta á bakslagi

Það verður seint lögð of mikil áhersla á að óvissa er gríðarlega mikil á þessum fordæmalausu tímum, bæði hvað varðar þróun faraldursins sjálfs og efnahagslegar afleiðingar hans. Í grunnspá okkar gerum við ráð fyrir að efnahagsbatinn hefjist á seinni helmingi ársins samhliða því sem faraldurinn gengur niður án þess að verulegt bakslag komi í baráttuna gegn veirunni. Þar er þó engan veginn á vísan á róa. Í ljósi þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir höfum við því þróað tvær sviðsmyndir. Í annarri þeirra er gert ráð fyrir talsvert neikvæðari þróun, að veiran blossi upp að nýju eftir að fyrsta bylgjan er um garð gengin. Efnahagsbatinn fer því seinna af stað og verður töluvert veikari á næsta ári en gert er ráð fyrir í grunnspá. Við birtum einnig bjartsýnni sviðsmynd þar sem gert er ráð fyrir hraðari efnahagsbata í heiminum og sterkari eftirspurn í helstu viðskiptalöndum okkar. Sú sviðsmynd gerir ráð fyrir að þróun skilvirkrar meðferðar og/eða bóluefnis gegn Covid-19 gangi talsvert hraðar en nú er útlit fyrir.

Í jákvæðu sviðsmyndinni verður samdrátturinn á þessu ári heldur minni en í grunnspá, eða tæp 8% í stað tæplega 9%. Helsti munurinn er að efnahagsbatinn á næsta ári er mun kraftmeiri, eða 9%, studdur af mun hraðari vexti útflutnings, einkaneyslu og fjárfestingar. Gangi sviðsmyndin eftir verður sama stigi landsframleiðslu og í fyrra náð þegar í lok árs 2021 og efnahagsþróunin því V-laga. Í dekkri sviðsmyndinni er þróun landsframleiðslunnar meira eins og L í laginu. Gert er ráð fyrir rúmlega 10% samdrætti á þessu ári og aðeins 2% hagvexti á næsta ári. Í lok spátímans árið 2022 er landsframleiðslan enn um 5% undir því sem hún var árið 2019 og atvinnuleysi um 7%.

Samantekið teljum við að óvissan sé töluvert niður á við og 40% líkur séu á að efnahagsþróunin verði í takt við neikvæðari sviðsmyndina á meðan u.þ.b. 10% líkur séu á að bjartsýna sviðsmyndin gangi eftir.

Það er ekki bara óvissa í tengslum við heimsfaraldurinn. Segja má að hlé standi yfir í viðskiptadeilu Bandaríkjanna og Kína um þessar mundir. Undir lok síðasta árs var útlit fyrir að e.t.v. sæist til lands í deilunni eða að hún myndi a.m.k. ekki magnast frekar. Í ljósi yfirlýsinga ráðamanna í Bandaríkjunum varðandi meinta ábyrgð Kínverja á alvarleika faraldursins er ekki hægt að útiloka að deilan blossi upp að nýju þegar faraldurinn dvínar, ekki síst ef Donald Trump verður endurkjörinn í embætti forseta. Verði það raunin má búast við að efnahagsbatinn verði enn hægari en nú er reiknað með. Enn fremur ríkir óvissa um tilhögun milliríkjaviðskipta Bretlands þegar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu lýkur. Líklegt er þó að aðlögunartímabilið verði lengt í ljósi veirufaraldursins, ef ekki tekst að semja fyrir lok ársins.

Þú gætir einnig haft áhuga á
29. sept. 2023
Spáum 0,5 prósentustiga stýrivaxtahækkun
Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki vexti bankans um 0,5 prósentustig í næstu viku. Hækkunin yrði sú fimmtánda í röð og meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, færu úr 9,25% í 9,75%.
Fjölbýlishús
28. sept. 2023
Ársverðbólga eykst úr 7,7% í 8,0%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,35% milli mánaða í september og við það jókst ársverðbólga úr 7,7% í 8,0%. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu mun minna en við bjuggumst við en að öðru leyti var mælingin nokkurn veginn í takt við okkar spá. Framlag þjónustu og húsnæðis til ársverðbólgu jókst á hlut annarra liða. Við gerum enn ráð fyrir að verðbólga hjaðni næstu mánuði.
Byggingakrani og fjölbýlishús
25. sept. 2023
Vikubyrjun 25. september 2023
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,7% milli mánaða í ágúst, samkvæmt gögnum sem HMS birti í síðustu viku. Vísitalan lækkaði þó nokkuð í júní og júlí og hækkunin kom því nokkuð á óvart. Í næstu viku ber hæst birting Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs á fimmtudag.
Fasteignir
20. sept. 2023
Vísitala íbúðaverðs hækkar lítillega og verðbólguspáin með
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,7% milli mánaða í ágúst. Árshækkun vísitölunnar fór úr 0,8% í 2,0%. Undirritaðir kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu voru 9,6% færri í júlí en í sama mánuði í fyrra. Vísitalan er hærri en við gerðum ráð fyrir við gerð verðbólguspár fyrir septembermánuð og því færum við hana upp og spáum 7,8% ársverðbólgu í stað 7,7%.
Flugvöllur, Leifsstöð
18. sept. 2023
Aukinn þjónustuútflutningur skýrist allur af vexti ferðaþjónustu
Um 282 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í ágúst. Ef sumarmánuðirnir eru teknir saman hafa aðeins einu sinni komið fleiri ferðamenn að sumri, árið 2018. Samkvæmt nýjustu þjóðhagsreikningum Hagstofunnar jókst þjónustuútflutningur á fyrstu tveimur fjórðungum ársins um 21%, og má rekja allan þann vöxt til ferðaþjónustunnar.
Hverasvæði
18. sept. 2023
Vikubyrjun 18. september 2023
Í síðustu viku komu tölur um brottfarir frá Leifsstöð, skráð atvinnuleysi og veltu greiðslukorta. Í þessari viku ber hæst vísitala íbúðaverðs, sem kemur á þriðjudag, og yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands, sem gefin verður út á miðvikudaginn.
Símagreiðsla
15. sept. 2023
Frekari merki um hægari takt
Nýjar kortaveltutölur bera með sér frekari vísbendingar um að verulega sé að hægja á innlendri eftirspurn. Heildarkortavelta íslenskra heimila dróst saman um 3,4% milli ára í ágúst. Kortavelta Íslendinga innanlands var 4,3% minni en í ágúst í fyrra á föstu verðlagi og hefur nú dregist saman sex mánuði í röð. Erlendis jókst kortavelta Íslendinga um 0,7% á milli ára og kortaveltujöfnuður er jákvæður um 19,2 milljarða.
Flugvél
14. sept. 2023
Spáum 7,7% verðbólgu í september
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,07% milli mánaða í september og að ársverðbólga standi í stað og verði áfram 7,7%. Útsölulok hafa aftur mest áhrif til hækkunar milli mánaða í september samkvæmt spánni. Það sem helst dregur spána niður er árstíðabundin lækkun á flugfargjöldum til útlanda. Við gerum ráð fyrir að verðbólga lækki áfram næstu mánuði og verði 6,6% í desember.
Foss
11. sept. 2023
Vikubyrjun 11. september 2023
Í síðustu viku birti Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar. Samkvæmt henni greiddi einn nefndarmaður atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um að hækka vexti um 0,50 prósentustig á síðasta fundi nefndarinnar og hefði heldur kosið að hækka þá um 0,25 prósentustig. Í þessari viku berast gögn yfir fjölda brottfara um Leifsstöð, skráð atvinnuleysi og kortaveltu.
4. sept. 2023
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - ágúst 2023
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit um sértryggð skuldabréf.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur