Hagsjá: Spáum óbreyttum stýrivöxtum
Samantekt
Við gerum ráð fyrir að peningastefnunefnd ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum. Ákvörðun nefndarinnar verður tilkynnt miðvikudaginn 15. nóvember. Samhliða ákvörðuninni gefur Seðlabankinn út ýtarleg Peningamál með nýrri þjóðhags- og verðbólguspá. Ef niðurstaða spárinnar verður á þá leið að hraðar dragi úr spennunni í þjóðarbúskapnum en búist var við er líklegt að nefndin kunni að telja svigrúm til frekari vaxtalækkana. Á móti vegur að ekki hefur enn tekist að mynda nýja ríkisstjórn eftir alþingiskosningarnar og því talsverð óvissa um framvindu ríkisfjármála. Við gerum ráð fyrir að óvissa um aðhaldsstig ríkisfjármála á komandi misserum muni vega þyngra og nefndin ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum að þessu sinni.
Í fundargerð nefndarinnar kom jafnframt fram að nefndin væri sammála um að núverandi vaxtastig væri hæfilegt miðað við fyrirliggjandi gögn á þeim tíma. Því er ólíklegt að stýrivöxtum verði breytt nema verulegar breytingar komi fram varðandi þjóðhagsspá Seðlabankans fyrir komandi misseri.