Hagsjá: Mikill vöxtur einkaneyslu á öðrum fjórðungi
Samantekt
Hagvöxtur mældist 3,4% á öðrum ársfjórðungi borið saman við sama fjórðung árið áður, skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þetta er nokkuð minni vöxtur en á fyrsta ársfjórðungi þegar hann nam 5,2% og töluvert minni vöxtur en á þriðja og fjórða fjórðungi síðasta árs en hann lá á bilinu 9,6-11,3%. Þetta er minnsti vöxturinn á 12 mánaða grundvelli síðan á fjórða ársfjórðungi 2015 þegar hann nam 3,1%.
Í spá Hagfræðideildar frá því í maí var gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 6,7% á þessu ári. Hagvöxtur á fyrri árshelmingi nam 4,3% samkvæmt þessum bráðabirgðatölum sem er því nokkuð minni vöxtur en við gerum ráð fyrir að verði yfir árið í heild.
Vöxturinn borinn uppi af einkaneyslu og útflutningi
Vöxturinn á fyrri árshelmingi var borinn af vexti einkaneyslu og útflutnings en framlag einkaneyslu var þó umtalsvert meira. Framlag fjármunamyndunar var síðan nokkuð minna en framlag útflutnings. Vöxtur einkaneyslu reyndist 8,3% frá sama tímabili í fyrra, útflutningur jókst um 6,4% en fjármunamyndun um 5,2%.