Samantekt
Velta innlendra greiðslukorta dróst saman um 1,1% að raunvirði milli ára í ágúst og er þetta mesti samdráttur síðan í júní 2013. Samdráttur mældist bæði í verslunum hér á landi og erlendis.
Í ágúst mældist samdráttur upp á 0,3% milli ára í verslunum hér á landi miðað við fast verðlag og 4,4% erlendis miðað við fast gengi. Til samanburðar var vöxturinn 17% erlendis og 5% í verslunum hér á landi í ágúst í fyrra. Það er því útlit fyrir að breyting hafi orðið á neyslu Íslendinga í ljósi færri utanlandsferða.
Ef horft er til sumarsins í heild dróst kortavelta Íslendinga erlendis saman um 3,3% milli ára. Til samanburðar var vöxturinn 18% yfir sumarmánuðina í fyrra og tæp 36% yfir sumarmánuði ársins 2017. Hér á landi jókst kortavelta Íslendinga um 1,2% í verslunum yfir sumartímann, sem er þó mun minni vöxtur en á sumarmánuðum síðustu ára.