Enn og aftur óvissa um áhrif sóttvarnaraðgerða á vinnumarkað
Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands er áætlað að um 200.600 manns hafi verið á vinnumarkaði í febrúar 2020, sem jafngildir 76,4% atvinnuþátttöku. Af fólki á vinnumarkaði voru um 188.300 starfandi og um 12.300 atvinnulausir og í atvinnuleit. Starfandi fólki fjölgaði um 3.600 milli ára og fjöldi atvinnulausra var óbreyttur. Hlutfall starfandi var 71,7% í febrúar og hafði minnkað um 6 prósentustig frá febrúar 2020.
Í apríl 2020 fór atvinnuþátttaka niður í 73,4% og hafði ekki verið lægri a.m.k. frá árinu 2003, þegar vinnumarkaðskönnunin hófst. Atvinnuþátttaka mældist meiri í maí og júní en hefur síðan minnkað og mældist 76,4% nú í febrúar, sem er þó 0,6 prósentustigum hærra en í febrúar 2020.
Atvinnuleysi samkvæmt mælingum Hagstofunnar var 6,1% í febrúar og hafði minnkað um 0,1 prósentustig frá febrúar 2020. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 11,4% og hafði aukist um 6,4 prósentustig frá febrúar 2020. Því til viðbótar var atvinnuleysi vegna hlutabóta mælt sem 1,1% í febrúar. Vinnumarkaðskönnunin mælir því áfram töluvert minna atvinnuleysi en Vinnumálastofnun gerir.
Samkvæmt vinnumarkaðskönnun höfðu alls um 29.000 einstaklingar óuppfyllta þörf fyrir atvinnu í febrúar 2021. Sá fjöldi jafngildir 13,8% af vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þessum hópi voru 42,4% atvinnulausir, 15,1% tilbúnir að vinna en ekki að leita að vinnu. 18,0% voru í vinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 24,5% voru starfandi en samtímis vinnulitlir og vildu vinna meira.
Fjölda starfandi í febrúar 2021 fjölgaði um 1,9% frá febrúar 2020. Á sama tímabili styttist vinnutími um 1,6% þannig að heildarvinnustundum fjölgaði um 0,4% milli ára sem er fyrsta fjölgun heildarvinnustunda milli ára frá því í febrúar 2020.
Rétt er að taka fram að ákvæði í kjarasamningum opinberra starfsmanna um styttingu vinnutíma sem tóku gildi um áramót hafa haft áhrif á mælingu vikulegra vinnustunda í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Mældur vinnutími hefur því dregist saman vegna þessara breytinga en af hálfu Hagstofunnar eru frekari greiningar fyrirhugaðar til þess að meta þessi áhrif.
Hagsjá: Enn og aftur óvissa um áhrif sóttvarnaraðgerða á vinnumarkað