Bandarískir ferðamenn mjög áberandi í maí
Niðurbrot á tölum um erlenda ferðamenn eftir þjóðerni ná aftur til ársins 2002. Hlutfall Bandaríkjamanna af heildarfjölda erlendra ferðamanna var 52% nú í maí og hefur engin þjóð mælst með jafn hátt hlutfall áður. Fyrra metið var frá júní 2018 en þá voru það einnig Bandaríkjamenn sem í hlut áttu. Þá mældust þeir 39,7% allra erlendra ferðamanna. Frá árinu 2015 hafa Bandaríkjamenn nær alltaf verið fjölmennastir ferðamanna hér á landi en hlutfall þeirra hefur legið á bilinu 19-30%. Ein undantekning er á þessu en í fyrra voru Bretar fjölmennastir. Faraldurinn hristi mismikið upp í ferðalögum erlendra ferðamanna á síðasta ári og fækkaði þeim mjög mikið hér á landi sem annars staðar. Það er því kannski ekki alveg að marka síðasta ár hvað þetta varðar.