Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í apríl 4,5% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og minnkaði úr 4,9% frá því í mars. Alls voru 9.076 á atvinnuleysisskrá í lok apríl, 5.051 karl og 4.025 konur.
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni verða eilítið minna í maímánuði, rúmlega 4%.
Mikil spurn virðist vera eftir vinnuafli um þessar mundir. Árstíðaleiðréttar niðurstöður vorkönnunar Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sýna að 39% stjórnenda vilja fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum en aðeins 9% vilja fækka. Munurinn þarna á milli er 30 prósentustig og hefur sú staða verið nokkuð stöðug í síðustu könnunum. Hlutfall fyrirtækja sem telur skort vera á starfsfólki hefur aukist mikið frá því í upphafi ársins 2021 þegar það var í lágmarki. Eftirspurn eftir vinnuafli er því með meira móti nú um stundir. Innflutningur á vinnuafli hefur aukist mikið og mátti rekja um helming íbúafjölgunar landsins milli ára á fyrsta ársfjórðungi til fjölgunar erlendra ríkisborgara.
Atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu, mest um 1 prósentustig á Suðurnesjum og um 0,3 og 0,6 prósentustig á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra. Atvinnuleysi er áfram langmest á Suðurnesjum, 7,6%, en hefur ekki verið minna síðan í október 2019. Hæst fór atvinnuleysið þar í 24,5% í apríl 2021. Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum var komið niður í 8,6% í apríl en hæst fór það í 28,5% í febrúar 2021, með atvinnuleysi vegna hlutabóta. Atvinnuleysi kvenna hefur því minnkað um 20 prósentustig á rúmlega einu ári.
Atvinnuleysi karla minnkaði meira á milli mars og apríl en atvinnuleysi kvenna. Atvinnuleysi karla í apríl var 4,5% á meðan það var 4,4% meðal kvenna. Munurinn á atvinnuleysi karla og kvenna er mestur á Suðurnesjum, en þar er atvinnuleysið 1,6 prósentustigum hærra meðal karla. Á höfuðborgarsvæðinu er atvinnuleysi karla 0,6 prósentustigum meira en kvenna.