Daníel Svavarsson: „Arðsemin fer batnandi“
Hagfræðideildin gerði einnig greiningu á ferðaþjónustunni fyrir um ári, en þá var frekar horft til fjárfestinga í greininni en nú er sjónum beint að rekstri og afkomu fyrirtækja og opinberum innviðum. „Úrtakið að þessu sinni er mun stærra en fyrir ári síðan og það gefur mjög raunhæfa mynd af stöðunni að okkar mati. Niðurstöðurnar eru á hinn bóginn nokkuð sambærilegar.“
Daníel segir einnig að það hafi þótt áhugavert að skoða þær aðstæður sem ferðaþjónustu séu búnar af hálfu hins opinbera. „Já, við fórum þá leið nú að fjalla meira um umgjörð ferðaþjónustunnar. Okkur þótti forvitnilegt að skoða þann þátt betur og það er margt þar sem vekur athygli.
Vöxtur greinarinnar í heild og aðdráttarafl hennar sem starfsumhverfi fyrir hæfileikaríkt starfsfólk veltur mjög á því að skynsamlegur rammi sé settur um starfsemi fyrirtækja í greininni.“
Fjöldinn ekki eini mælikvarði á árangur
Daníel segir greinilegt að árangur ferðaþjónustu hafi fyrst og fremst verið metinn út frá fjölda ferðamanna og segja megi að nánast hafi verið einblínt á þann þátt. „Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað nær stöðugt í langan tíma og hafa margir talið þá þróun sjálfkrafa ávísun á viðvarandi árangur og síauknar tekjur. Þá er einnig bent á fjölda starfa og gjaldeyristekjur sem mælikvarða um þjóðhagslegan ábata.
Hins vegar er það svo að hvorki fjöldi ferðamanna né fjöldi starfa eða gjaldeyrisöflun ein og sér eru nothæfir mælikvarðar á afrakstur og framleiðni. Mæla þarf árangur í ferðaþjónustu eins og gert er í öðrum greinum. Í okkar rannsókn er gerð tilraun til að meta afkomu og eiginfjárstöðu fyrirtækja í greininni út frá ársreikningum þeirra. Niðurstöður hennar benda til þess að rekstur og afkoma fyrirtækja í greininni sé mjög misjöfn, bæði með tilliti til stærðar fyrirtækja og þeirrar þjónustu sem þau bjóða.“
Rússarnir kaupglaðir
Daníel segir að auk fjöldatalna sé mikið horft á árstíðasveiflu og tekjur af hverjum ferðamanni. „Það er ánægjulegt að sjá að það dró úr árstíðasveiflunni í ferðaþjónustunni á síðasta ári þegar horft er til fjölda gistinátta. Að þessu hafa allir stefnt og það hefur greinilega skilað árangri. Svo er líka athyglisvert að rýna í endurgreiðslur vegna „tax free“ verslunar erlendra ferðamanna hér á landi.
Þar kemur t.d. í ljós að rússneskir ferðamenn versla að meðaltali langmest af öllum ferðamönnum sem sækja landið heim. Rúmlega tvöfalt meira en Norðmenn sem verma annað sætið og margfalt meira en t.d. breskir og hollenskir ferðamenn.
Rannsóknin sýnir að veltan af erlendum ferðamönnum hefur aukist gríðarlega á síðustu misserum. Bæði vegna þess að þeim hefur fjölgað en einnig er meðalferðamaðurinn að eyða talsvert meiri fjármunum í krónum talið. Allar forsendur virðast því vera til staðar fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að skila jákvæðri afkomu og byggja upp innviði og eigið fé sem heldur þegar til mögru áranna kemur.“
Reksturinn enginn dans á rósum
Daníel segir að hið dæmigerða ferðaþjónustufyrirtæki sé enn sem komið er mjög lítið og líklega í mörgum tilvikum rekið sem nokkurs konar hliðarstarfsemi með annarri vinnu. Aðeins tæplega helmingur fyrirtækjanna í úrtakinu skilaði rekstrarhagnaði árið 2011 sem reyndist heldur verri útkoma en árið 2010.
Hann segir jafn augljóst að stærri fyrirtækjum virðist vegna betur og arðsemi þeirra sé almennt mun betri en smærri fyrirtækja. „Reksturinn í þessari grein er sumsé ekki eintómur dans á rósum og fyrir utan smæðina sem gerir mörgum erfitt fyrir hefur fjöldi fyrirtækja verið rekinn með tapi um árabil. Við drögum þá ályktun að það sé nauðsynlegt að horft verði til að sameina rekstur fyrirtækja ef arðsemin á að vera viðunandi.“