Aprílmánuður lofar góðu fyrir ferðasumarið
15% færri erlendir ferðamenn í apríl í ár en 2019
Brottfarir erlendra ferðamanna í gegnum Leifsstöð voru 102.800 í apríl. Til samanburðar voru þær 5.800 í apríl 2021 og 900 í apríl 2020, en þá var veirufaraldurinn með öllum sínum ferðatakmörkunum í hámarki. Eðlilegra er því að miða við 2019 og sést að brottfarir nú voru einungis um 15% færri en þá. Apríl var að þessu leyti mun betri en fyrstu þrír mánuðir ársins, en þá komu á bilinu 40-50% færri ferðamenn en í samsvarandi mánuðum ársins 2019.
Tölur aprílmánaðar í ár gefa fyrirheit um að það stefni í góða vertíð í ferðaþjónustu hér á landi í sumar. Sérstaklega lofar góðu stígandinn sem af er ári, þar sem hver mánuður er nær því sem var fyrir faraldur en mánuðurinn á undan.
Fjöldi áskorana er samt til staðar, þá aðallega sem snúa að getu greinarinnar til þess að taka við þessum fjölda ferðamanna vegna skorts á starfsfólki. Erlendis gæti hækkandi olíuverð, ófriður og minni kaupmáttur vegna verðhækkana dregið úr eftirspurn eftir ferðalögum. Almennt má þó segja að við séum bjartsýn á stöðuna og gerum ráð fyrir síauknum komum ferðamanna til landsins næstu tvö ár.