Afgangur af viðskiptum við útlönd á 3. ársfjórðungi - líklega afgangur á árinu í heild
Alls var 62 ma. kr. afgangur af viðskiptum við útlönd á þriðja ársfjórðungi. Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 94 ma. kr og rekstrarframlög voru neikvæð um 13 ma. kr. Á móti var þáttatekjujöfnuður jákvæður um 18,8 ma. kr og myndarlegur afgangur var af þjónustujöfnuði, um 150 ma. kr., sem skilar góðum afgangi af viðskiptajöfnuði í heild.
Þetta er viðsnúningur frá síðustu tveimur árum þegar halli hefur mælst af viðskiptajöfnuði á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Undanfarin ár hefur verið viðvarandi halli á vöruskiptum en myndarlegur afgangur af þjónustujöfnuði. Það skýrist meðal annars af því hversu stóran sess ferðaþjónustan skipar í íslenska hagkerfinu. Stór hluti aðfanga fyrir ferðaþjónustu kemur til frádráttar í vöruskiptajöfnuði (innflutningur á bílaleigubílum, bensíni, neysluvörum o.s.frv.), en tekjur ferðaþjónustunnar koma til viðbótar í þjónustujöfnuði.
Afgangur á fyrstu 9 mánuðum ársins
Það sem af er ári hefur viðskiptajöfnuður mælst jákvæður um 42 ma. kr, en til samanburðar mældist halli á viðskiptajöfnuði 54 ma. kr. á sama tímabili í fyrra og 38 ma. kr. árið 2021. Halli á vöruskiptajöfnuði eykst töluvert milli ára og mældist 225 ma. kr. nú samanborið við 128 ma. kr. í fyrra. Á móti jókst afgangur af þjónustujöfnuði einnig umtalsvert og var jákvæður um 262 ma. kr. samanborið við 168 ma. kr. afgang í fyrra. Afgangur hefur verið af þáttatekjujöfnuði upp á 44 ma. kr. það sem af er ári, en halli á rekstrarframlögum hefur mælst 38,5 ma. kr. á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er því töluvert betri niðurstaða en á síðustu tveimur árum. Á árunum 2013-2019 var að meðaltali 110 ma. kr. afgangur á viðskiptum við útlönd á fyrstu níu mánuðum hvers árs þegar mestur uppgangur var í ferðaþjónustu.
Afgangur af frumþáttatekjum skýrist af verri afkomu álvera
Til frumþáttatekna teljast fjármagnstekjur og gjöld. Hér inni eru meðal annars vaxtagreiðslur vegna erlendra lána, arðgreiðslur erlendra hlutabréfa, hagnaður og tap innlendra félaga í eigu erlendra aðila og fleira slíkt. Þáttatekjujöfnuður er að hluta til bókfærður hagnaður eða tap og því reiknuð stærð. Honum þarf því ekki að fylgja greiðsluflæði og hann hefur ekki endilega áhrif á gjaldeyrisstreymi eða gengi krónunnar.
Nú á þriðja ársfjórðungi mældist 18,8 ma. kr. afgangur af þáttatekjujöfnuði. Munar þar mestu um 11 ma. kr. afgang af beinni fjárfestingu sem skýrist alfarið af tapi innlendra dótturfélaga í eigu erlendra aðila, en slíkt tap kemur til hækkunar á þáttatekjujöfnuði. Veigamesti þátturinn er lakari afkoma álfyrirtækja sem hér starfa og er í samræmi við minni útflutning á áli á fjórðungnum og töluvert lægra heimsmarkaðsverð á áli en í fyrra.
Hvað gerist á 4. ársfjórðungi?
Eins og fyrr segir var 42 ma. kr afgangur af viðskiptajöfnuði á fyrstu níu mánuðum árs en viðskiptajöfnuður var neikvæður um 53 ma. kr á sama tíma í fyrra. Það er því líklegt að það verði afgangur á árinu í heild. Nokkrar vísbendingar um hvernig lokafjórðungur ársins fer eru:
- Í október mældist 53 ma. kr. vöruskiptahalli, sem er örlítið minni halli en fyrir ári síðan.
- Á þjónustuhliðinni er ennþá góður gangur í ferðaþjónustunni. 205 þúsund ferðamenn komu til landsins í október og hafa aldrei verið fleiri í októbermánuði.
- Það rímar við fjölgun gistinátta erlendra ferðmanna, um 14% milli ára í október.
- Á sama tíma hefur dregið nokkuð úr utanlandsferðum Íslendinga sem voru 22% færri í október í ár en í fyrra, en frá því um mitt ár hafa utanlandsferðir Íslendinga verið færri en í fyrra.
- Í takt við það mældist greiðslukortajöfnuður jákvæður um 2,7 ma. kr í október í ár, en var til samanburðar neikvæður um 4,3 ma. kr. í október í fyrra.
- Meðalálverð er enn töluvert lægra en í fyrra. Það er því líklegra að afgangur verði af þáttatekjujöfnuði á lokafjórðungi ársins en við eigum þó eftir að sjá tölur fyrir nóvember og desember.
Í nýlegri hagspá gerðum við ráð fyrir því að viðskiptajöfnuður yrði jákvæður um 50 ma. kr. á árinu og þessar tölur eru í ágætu samræmi við þá spá.